21.10.1981
Neðri deild: 5. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Baldur Óskarsson:

Herra forseti. Það frv. til 1. um breyt. á lögum nr. 80 frá 11. júní 1938, um stéttarfélög og vinnudeildur, sem hér er til umr., er að mínum dómi mjög varhugavert vegna þess að það gerir ráð fyrir að löggjafinn hlutist til um innri skipulagsmál verkalýðssamtakanna án þess að fyrir liggi nokkur ósk um það frá félagsmönnum verkalýðshreyfingarinnar, auk þess sem vitað er að þessi íhlutun Alþingis er andstæð vilja allra þeirra samtaka verkalýðshreyfingarinnar sem um málið hafa fjallað.

Nú veit ég að flm., hv. þm. Vilmundi Gylfasyni, gengur gott eitt til með þessu frv. sínu. En ég held að Alþingi ætti að hugsa sig um tvisvar áður en það fer á þennan hátt að neyða löggjöf upp á félagshreyfingar á landinu.

Hv. þm. Karvel Pálmason, sem talaði í málinu á mánudaginn var, í mörgum tilvikum af meiri hógværð og yfirvegun en hans er vani, komst einnig að þessari niðurstöðu. Hv. þm. Karvel Pálmason taldi að vísu gott að vekja upp umr. á Alþingi um skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar, en taldi jafnframt að hv. þm. Vilmundur Gylfason og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefðu talað með þeim hætti um málið að það stórspillti fyrir þeirri hugsun sem í frv. felst. Taldi Karvel að ef flm. hefði starfað í verkalýðshreyfingunni, þótt ekki væri nema skamma hríð, hefði hann vitkast og aldrei flutt frv. af þessu tagi.

Í þessum orðum hv. þm. Karvels Pálmasonar felst auðvitað sú viðurkenning á hv. þm. Vilmundi Gylfasyni, að hann átti sig um síðir á eðli og störfum þeirra félagshreyfinga, sem hann starfar í, ef hann kynnist þeim innan frá. Það má því ætla að hv. þm. Karvel Pálmason taki á ýmsan hátt undir lýsingar hv. þm. Vilmundar Gylfasonar á forustu Alþfl. og lýðræðinu innan hans og starfinu á þeim bæ. Hv. þm. Vilmundur Gylfason hefur síðustu mánuðina verið önnum kafinn við að mata landsmenn á ástandinu í Alþfl.

Það virðist þó sem hv. þm. Vilmundur Gylfason hafi þurft lengri tíma en landsmenn almennt til að átta sig á hæfni formanns Alþfl. og þm. hans til að stjórna landinu, því að hv. þm. Vilmundur Gylfason bað til guðs í sumar að aldrei kæmi formaður Alþfl. eða aðrir leiðtogar flokksins nálægt landsstjórninni. Ég tel líka að mikill léttir hafi orðið meðal flestra landsmanna þegar kratarnir hypjuðu sig úr ríkisstj. á sínum tíma. En þessar lýsingar á lýðræðinu í Alþfl. eru lærdómsríkar og einnig hvernig tekið er undir það með hvaða hætti núv. formaður Alþfl. bolaði þeim fráfarandi í burtu undir yfirskini vináttunnar.

Í grein, sem hv. flm., Vilmundur Gylfason, skrifar í Morgunblaðið laugardaginn 17. okt. s. l., þar sem fjallað er um frv. sem nú er til umr., er heldur ófögur lýsing á starfsháttum þingflokks Alþfl., en þar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hygg hins vegar að það sé einsdæmi í „lýðræðislegum“ stjórnmálaflokki, að formaður flokksins hafi ekki annað merkilegra við tíma sinn að gera en að svæla þingmenn í flokki sínum út af frv., sem einn af þm. flokksins flytur, og er raunar orðið ársgamalt. — Þessir forustumenn virðast ekki hafa þrek til neins, nema ef vera skyldi að berjast við sína eigin menn.“ (Gripið fram í: Stendur þetta virkilega þarna?) Það gerir það, já. Og svo heldur áfram:

„En af hverju gerist þetta? Af hverju eru þessir menn að gera Alþfl. að farsa? Af hverju?“

Og síðar í þessari sömu grein segir: „Allt á sér þetta sömu rætur. Fámennur hópur flokkseigenda hefur aldrei þolað þau öfl í flokknum, sem hafa efni á því á að sækja kjörfylgi, hugmyndir og annað það, sem til þarf í pólitík, eitthvað annað. Kjartan Jóhannsson hefur, kannske óvart, gengið erinda þessa fólks. Flokkur, sem verið hafði steindauður frá því á flokksþingi s. l. haust, vaknaði skyndilega til lífsins til þess að reyna að rústa einn af þm. sínum. Þá, allt í einu, tók líkið kipp. En af hverju? Vegna þess að það var búin að grafa um sig árum saman spenna á milli fólksins, sem fannst flokknum hafa verið stolið frá sér, og hinna, sem áttu að hafa stolið honum. Þeirra erinda gekk Kjartan Jóhannsson í sumar, þegar hann hóf sína umdeilanlegu auglýsingaherferð, og þeirra erinda hringir hann í þm. Alþfl. og svælir hann út af frv., sem hann hefur ætlað að gerast flm. að. Forusta Alþfl. er í heilögu stríði inn á við. Hana varðar ekkert um aðra þætti þjóðmála.

Mín niðurstaða er einfaldlega þessi: Forusta flokks, sem lítur einfaldlega á sig sem forustu nokkurra flokkseigenda, sem vaknar þá fyrst til lífsins, þegar barið skal niður innan flokks, en sefur þess á milli rótt, er auðvitað engin forusta. Menn geta kallað þetta persónulegar árásir ef þeir vilja. En þetta eru ekki persónulegar árásir. Þetta er kalt pólitískt mat. Þessir menn eru að reyna að breyta Alþfl. í pólitíska sjálfsmorðssveit.“

Það væri fróðlegt að fá að heyra hér frá formanni þingflokks Alþfl. hvaða manni í þingflokknum var bannað að vera meðflm. að þessu frv.

Ég tel sem sagt og segi: Væri nú ekki nær fyrir hv. þm. Vilmund Gylfason að láta verkalýðshreyfinguna um sín innri skipulagsmál í friði, en flytja þess í stað á Alþingi lög um lýðræðið í Alþfl. og innra skipulag hans, sem er samkv. lýsingum flm. allt í hinu mesta skralli, því að hv. flm. þessa frv. er þó alltént félagsmaður Alþfl. og á sæti í þingflokki hans. Kannske yrði einhver von til þess með löggjöf frá Alþingi að Alþfl. yrði einhvern tíma starfshæfur og foringjum hans einhvern tíma treystandi fyrir landsstjórninni.

En miðað við lýsingu á lýðræðinu og ástandinu í Alþfl. frá eigin forustumönnum hans hafa síðustu vikurnar — og það er ómaklegt — dunið á forustumönnum verkalýðsfélaganna ásakanir þar sem þeim er beinlínis borið á brýn að svíkja hagsmuni félagsmanna sinna í eiginhagsmunaskyni. Í ræðu hv. þm. Vilmundar Gylfasonar í þessum stól á mánudaginn var kom fram sú skoðun, að það sé skylda Alþingis að skipta sér af innri málum verkalýðshreyfingarinnar, svo sem hvort í hreyfingunni skuli viðhafa hlutfallskosningar eða ekki, vegna grunsemda um, „að verkalýðsforustan gangi ekki erinda umbjóðenda sinna af hagsmunaástæðum“, og það sé einmitt af þessu að nauðsynlegt sé að flytja þetta frv.

En er þetta ekki fullmikið sagt? Ég segi, að margt hefur verið fullyrt um forustumenn verkalýðsfélaganna á liðnum árum, meira að segja að þeir fari í verkföll ánægjunnar einnar vegna. Ekki þekki ég þá foringja. Ég hef haft af því náin kynni í rösk 15 ár, að foringjar Alþýðusambandsins og verkalýðsfélaganna beita ekki verkfallsvopninu nema í brýnustu þörf. (HBl: En útflutningsbanninu?) Það er meiri ábyrgðarhluti en svo að stöðva atvinnulífið og leggja niður vinnu að menn leiki sér að því. Hitt er aftur á móti til skoðunar, að ýmsir hópar hálaunamanna hafa á síðustu misserum notað heldur ógeðfelldar aðferðir til að knýja fram kjarabætur í krafti sérstöðu sinnar, og nægir í því sambandi að minna á læknadeiluna nú í vor. Engum verkalýðsforingja dytti í hug að haga sér með þeim hætti og aðgerðir læknanna gætu því miður orðið til að vanhelga verkfallsréttinn fyrir almennu verkafólki.

Það er mjög gróf ásökun, svo að ekki sé meira sagt, að menn á borð við Eðvarð Sigurðsson og Magnús L. Sveinsson, en þeir eru formenn í Verkamannafélaginu Dagsbrún og Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, þeim verkalýðsfélögum sem hv. þm. Vilmundur Gylfason hefur helst gagnrýnt fyrir lýðræðisskort, gangi ekki erinda umbjóðenda sinna til þess að halda góðum launum og glæstum skrifstofnum. Ég held að það verði ekki heldur sagt um Þórunni Valdimarsdóttur, formann Verkakvennafélagsins Framsóknar. En það er ákaflega athyglisvert, að gagnrýni Alþfl.- foringjanna og málgagna þeirra undanfarið hefur aldrei beinst að verkalýðsfélögum þar sem kratarnir sjálfir hafa forustuna. Hv. þm. Pétur Sigurðsson gaf í skyn hér í umr. á mánudaginn að auðvitað meinti hv. flm., Vilmundur Gylfason, forustusveit kratanna í verkalýðshreyfingunni þegar hann væri að tala um forustumenn VR, en ekki veit ég hvort það er rétt.

Á mánudaginn tók þó alveg steininn úr þegar formaður þingflokks Alþfl., hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, flutti ræðu sína. Hann ræddi nánast ekkert um það frv. sem hér liggur fyrir, enda kom ekki fram í ræðu þm. hvort hann er meðmæltur því eða ekki. Sennilega hefur hann í ræðu sinni verið að reyna að spilla fyrir frv., ég býst frekar við því, enda tekið þátt í því að banna þm. Alþfl. að flytja það. En hann fjallaði síðan um stöðu Alþýðusambandsins og verkalýðshreyfingarinnar af furðulegri vanþekkingu. Hann sagði m. a. í ræðu sinni, að svo virtist sem Alþýðusamband Íslands væri að stefna í algera upplausn. Þetta finnst mér ákaflega skrýtin fullyrðing h já hv. þm. Sighvati Björgvinssyni. Ég hef fylgst nokkuð náið með Alþýðusambandi Íslands á undanförnum árum. Ég tók sæti í miðstjórn þess árið 1966 og sat þar í 10 ár og ég get alveg fullyrt að á þessum tíma hefur Alþýðusamband Íslands verið að styrkja sig stórlega sem þjónustustofnun verkalýðshreyfingarinnar í landinu og þar ber mjög margt til.

Ég vil þá í fyrsta lagi nefna alveg sérstaklega að það hefur komið sér upp hagdeild sem er ákaflega þýðingarmikil stofnun fyrir verkalýðsfélögin og verkalýðshreyfinguna alla. Það hefur á þessum tíma sett á fót Menningar- og fræðslusamband alþýðu sem er mjög merkileg stofnun og hefur rutt brautina fyrir mjög merkilegu starfi innan verkalýðssamtakanna. Það hefur sett á fót félagsmálaskóla sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason hefur um lengri tíma veitt forstöðu og einmitt þessa dagana að halda námskeið vestur á fjörðum, vestur í Vatnsfirði. Og það hefur einmitt á undanförnum árum leitast við að auka mjög úfbreiðslu og fræðslu meðal allra félagsmanna verkalýðshreyfingarinnar. Núverandi forseti Alþýðusambandsins hefur verið mjög ötull í erindrekstri fyrir Alþýðusambandið. Þannig er auðvitað fjarstæða að fara að halda því hér fram, að Alþýðusamband Íslands sé núna í einhverri upplausn og það hafi gerst á nokkrum undanförnum árum. Þessu er algerlega öfugt farið. Alþýðusamband Íslands — ég fullyrði það — hefur ekki í mjög langan tíma, a. m. k. ekki meðan ég hef þekki til, gegnt stöðu sinni sem þjónustustofnun verkalýðsfélaganna eins vel og það gerir núna. Á þessum tíma hafa landssamböndin einnig verið að styrk ja sig ákaflega mikið í sessi og þau eru félögum sínum ákaflega mikill stuðningur, bæði í kjarabaráttu og öðrum hagsmunamálum.

Það var fjölmargt annað, sem kom fram í málflutningi hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, sem sýnir að hann er ekki vel að sér um þróun verkalýðssamtakanna. Hann sagði t. a. m. að flestöll sambönd faglærðs fólks innan ASÍ hefðu nú tekið þá ákvörðun að vera ekki með í þeim kjarasamningum sem nú fara í hönd. Hvaðan hefur þm. þetta, með leyfi? Hvar liggur sú niðurstaða fyrir? Hann nefndi að vísu til Rafiðnaðarsamband Íslands, en það er ekkert nýtt. Rafiðnaðarsamband Íslands hefur ekki á undanförnum árum verið með í samfloti Alþýðusambandsins, þannig að það er ekkert nýtt. Ég sé ekki betur en að á fundi þeim, sem Alþýðusambandið gekkst fyrir í gær, þeim 73 manna nefndarfundi sem er einmitt að gera kjarakröfur fyrir Alþýðusambandið, hafi komið fram sú skoðun, að menn ættu einmitt að standa saman í þessum samningum um nokkur grundvallannál.

Það hefur aldrei verið neitt sérstakt kappsmál Alþýðusambandsins að það eitt ætti að fara með samningamálin. Við skulum átta okkur á því, að Alþýðusambandið hjá okkur er þannig uppbyggt að það hefur ekki mjög sterki miðstjórnarvald, öfugt við t. d. alþýðusambönd í nálægum löndum. Hér eru það hin einstöku verkalýðsfélög sem fara með samningsréttinn. Það eru þau ein sem geta gert samkomulag og þau geta hvenær sem þeim sýnist farið algerlega með samninga á eigin vegum.

Það hefur verið sjónarmið forustumanna Alþýðusambandsins, að það ætti að beita þeim aðferðum í kjarasamningum sem best dygðu hverju sinni. Niðurstaðan hefur orðið sú, að til stóru samflotanna hefur verið stofnað, m. a. til þess að styrkja hin smærri og veikari verkalýðsfélög vítt og breitt um landið. Það hefur nefnilega komið í ljós að hin litlu verkalýðsfélög úti um landið eiga mörg hver mjög erfitt með að annast þessa samningagerð ein og sér. Ég er mjög hræddur um það, alveg eins og kom fram hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni í hans ágætu ræðu á mánudaginn, að ef við færum með valdboði að skipta upp smærri félögum úti á landi mundu þau eiga enn þá erfiðara með að rækja þetta hlutverk sitt.

Samflot er ekkert kappsmál Alþýðusambands Íslands, en það hefur sýnt sig að þegar stóru samflotin hafa tekist hvað best hefur góður árangur náðst. Mér er vel kunnugt um að enginn var eins ákafur talsmaður stóru samflotanna og Björn Jónsson þegar hann var forseti Alþýðusambands Íslands, vegna þess m. a. að hann gerði sér ljóst að ef verkalýðshreyfingin stæði saman á þennan hátt, eins og gerist í stóru samflotunum, að Alþýðusambandið fer með meginkröfur, sérsamböndin semja um sérkröfur, væri mun auðveldara að ná árangri á hinu félagslega sviði.

Í stóru samflotunum hafa einmitt stórir sigrar verið unnir á hinu félagslega sviði. Ég nefni t. d. þegar samið var um lífeyrissjóðina 1970. Það var ákaflega merkilegt. Í slíku samfloti var síðast samið hér um fæðingarorlof í sérstökum félagsmálapakka. Hinir almennu lífeyrissjóðir hafa reynst þeim stoð og stytta og sem betur fer hefur nú tekist að tryggja — við skulum segja: verkamönnum, sem hafa 20 ára rétt í lífeyrissjóði eða 20 ára starfsreynslu, búnir að vera í lífeyrissjóði í 10 ár, — það er búið að tryggja þeim í ellinni hærri tekjur en þeir hafa fyrir dagvinnu í verkamannavinnu. Þetta er ákaflega mikilvægt félagslegt atriði.

Sighvatur Björgvinsson ræddi mjög oft í sinni ræðu um að það væru þessi stóru samflot sem hefðu átt stærstan þátt í því að kaupmáttur tímakaups verkafólks væri nú með þeim hætti sem við búum við í dag. Ég verð að segja að það er ákaflega hæpið af mönnum eins og hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að fara að kenna samflotum eða forustumönnum verkalýðshreyfingar um það að kaupmáttur tímakaups verkafólks er ekki meiri en hann nú er, því að einmitt þessi þm. hefur hvað eftir annað lagt til að kaup verkafólks í landinu lækki. Hann var einn ákafasti talsmaður Ólafslaganna sem gerðu það að verkum að vísitala var með þeim hætti að kaupmáttur verkafólks fór dvínandi, og hann vildi fara út úr vinstri stjórninni haustið 1978, þegar Alþb. neitaði að standa að frekari kauplækkunum, eins og Alþfl. gerði þá kröfur um. Margt fleira kom fram í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, sem sýndi að hann er ekki vel að sér um þróun verkalýðssamtakanna.

Það er mjög athyglisvert, að þeir kratar skuli aldrei ræða um skipulagsmál atvinnurekendasamtakanna og enginn í Alþfl. virðist hafa áhyggjur af því, hvernig ákvarðanir eru teknar þar á bæ, og ekki eru flutt um það frumvörp hér á Alþingi. Við vitum vel að Vinnuveitendasamband Íslands er nú ekki að hugsa mjög um að Vinnuveitendasamband Íslands er nú ekki að hugsa mjög um að lýðræðið sé í hávegum haft þegar þar er verið að taka ákvarðanir. Það hefur einmitt hvað eftir annað bannað sínum félagsmönnum að sem ja sérstaklega. Væri nú ekki réttara að flytja hér á Alþingi frv. um að snúa sér frekar að þeim aðilum en verkalýðshreyfingunni?

Hvernig hafa svo t. d. Alþfl.- menn brugðist við þegar einstakir atvinnurekendur hafa reynt að brjótast undan valdi heildarsamtakanna? Hvað gerðist t. d. 1961 þegar Samband ísl. samvinnufélaga og Kaupfélag Eyfirðinga sömdu við verkalýðshreyfinguna? Þá kom viðreisnarstjórnin til með alveg sérstakar hefndaraðgerðir á þá atvinnurekendur sem leyfðu sér að brjótast út úr samfloti atvinnurekenda og gera góða samninga við verkafólkið. (HBl: Var það núv. forsrh. sem gerði það?) Ég var að tala um að það hefði verið viðreisnarstjórnin og þar sátu kratarnir. (Gripið fram í: Einir?) Nei, það voru ýmsir fleiri þar á bæ, m. a. menn sem telja sig nú til leiftursóknarafla íhaldsins. (Gripið fram í: Í hvaða flokki varst þú árið 1961?) Ég var ekki genginn í neinn stjórnmálaflokk, Sighvatur Björgvinsson, árið 1961.

En við skulum líka átta okkur á því, hvernig atkvæðisrétturinn er í atvinnurekendasamtökunum. Þar er það fjármagnið í hlutafélögunum sem fer með atkvæðisréttinn. En atkv. eru þar líka greidd eftir því hvað menn framleiða mikið af fiski. Það er þessi þorskhausaréttur atvinnurekendanna sem við ættum frekar að beina spjótum okkar að en vera að blása upp að það sé skortur á lýðræði innan verkalýðshreyfingarinnar.

Ég vil sömuleiðis benda hér á það, að atvinnurekendasamtökin hafa í sinni þjónustu mjög harðar áróðursstofnanir sem hafa nær ekkert annað hlutverk en það eitt að reka áróður fyrir sínar greinar, en gegna ekki neinu öðru hlutverki, og þessar áróðursstofnanir atvinnurekenda eru í mörgum tilfellum kostaðar af ríkisvaldinu. Ef við berum þetta ástand innan atvinnurekendasamtakanna saman við lýðræðið í verkalýðshreyfingunni er auðvitað mjög mikill munur þar á. Ég er ekki að halda því fram, að það þurfi ekki að bæta lýðræðið innan verkalýðshreyfingarinnar. Auðvitað þarf að efla lýðræðið þar og þó sérstaklega að mínum dómi stéttarvitund fólksins og almenna þátttöku í öllu starfi stéttarfélaganna. En það gerist ekki með valdboði ofan frá, allra síst frá mönnum sem hafa afrekað það helst að eigin sögn að rústa eigin flokk.

Áttum okkur t. a. m. aðeins á því hvernig kröfugerð verkalýðssamtakanna í komandi kjarasamningum fer fram. Hún á sér mjög langan aðdraganda og að því starfi koma fjölmargir aðilar. Það er þannig að haldnir eru félagsfundir í verkalýðsfélögunum sem eru algerlega opnir. Þangað kemur fólkið og hefur aðstöðu til að koma fram með sínar kröfur. Trúnaðarmenn félaganna á vinnustöðum leggja einnig fram við stjórnir og trúnaðarmannaráð sinar hugmyndir um kröfur. Einstök verkalýðsfélög halda oft og tíðum sérstaka fundi þar sem kröfugerðin er rædd. Síðna koma saman fundir og ráðstefnur sérsambandanna, Alþýðusamband Íslands boðar til ráðstefnu um kjaramál þar sem kröfur eru ræddar og fram settar. (HBl: Og í hóf stillt.) Síðan velja þessar ráðstefnur nefndir til þess að vinna að útfærslu einstakra þátta. Allt slíkt er síðan borið undir verkalýðsfélögin áður en heildarlokakröfur eru lagðar fram. Ef það hins vegar kemur í ljós, að menn vilja ekki standa saman, þá semja annaðhvort hin einstöku landssambönd eða einstök félög eða einstök héruð fyrir sig. Þessar ákvarðanir eru því allar teknar á mjög lýðræðislegan hátt. Hitt er aftur annað mál, og ég er sammála flm. þessa frv. um það, að auðvitað væri æskilegt, að miklu fleiri tækju þátt í þessu starfi, og auðvitað væri æskilegt, að miklu fleiri félagsmenn verkalýðshreyfingarinnar kæmu á fundi félaganna þegar endanlega er gengið frá kröfunum af hálfu félaganna — ég tala nú ekki um þegar samningarnir eru svo bornir upp á félagsfundum.

Ég held líka að það væri vissulega þörf á því að auka lýðræði í atvinnulífinu. Ég held að þm. Alþb. og Alþfl. ættu t. a. m. að taka höndum saman um að semja sérstakt frv. um atvinnulýðræði og efnahagslýðræði. Ég verð að segja það eins og er, að það eru ákaflega merkilegar hugmyndir t. a. m. sem koma fram í kosningaprógrammi sænskra sósíaldemókrata um þessar mundir, sem gerir ráð fyrir að séreignasjóðir verkalýðssamtakanna eignist smátt og smátt fyrirtækin. Ég er nefnilega sannfærður um að fullkomnu lýðræði í atvinnulífinu verður ekki komið á fyrr en fólkið sjálft á og stjórnar fyrirtækjunum. Að því þurfum við að stefna.

Varðandi þá hugsun, sem fram kemur í þessu frv., verð ég að segja að ég er sammála því, að vinnustaðurinn eigi að verða grunneining í verkalýðssamtókunum þar sem það getur hentað. Ég held að það hljóti að ýmsu leyti að vera rétt skipulag. Það hefur reyndar sýnt sig, þar sem reynt hefur verið á liðnum árum að færa þetta í þetta form á stóru vinnustóðunum, þar sem mörg verkalýðsfélög taka sig saman og semja sameiginlega fyrir sína menn, að það hefur gefið góða raun og sérstaklega í þá veru að launamunur innan fyrirtækjanna hefur minnkað, og það hefur skapað að mörgu leyti aukna virkni félagsmanna á þessum vinnustóðum. Þetta hefur gerst smátt og smátt í stóru fyrirtækjunum, þar sem þetta getur helst hentað, og ég held að þetta haldi áfram að þróast.

Þau fyrirtæki, sem svo háttar um, eru t. d. álverið, þar sem 10 félög standa að kjarasamningum. Þróunin hefur orðið sú á undanförnum árum, að þegar byrjað var með þetta fyrirkomulag var launamunur þar á milli efsta og neðsta manns yfir 100%, en er nú um 42%. Þetta hefur verið gert við önnur fyrirtæki, t. d. við Landsvirkjun vegna virkjunarframkvæmdanna, þar sem a. m. k. 8 verkalýðsfélög standa að sameiginlegum samningum. Við ríkisverksmiðjurnar er gerður sameiginlegur samningur og það eru 14 félög sem að honum standa, 6 félög við járnblendiverksmiðjuna o. s. frv. Þetta held ég að muni þróast áfram. En ég er á móti því, eins og ég sagði í byrjun, að löggjafinn sé að setja sérstök lög um stéttarfélög og vinnudeilur og vera með þeim hætti með íhlutun í innri skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar þegar hún hefur alls ekki eftir því óskað og vitað er að það er í andstöðu við hreyfinguna sjálfa. Ég tel enga þörf á því.

Ég held að bæði forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar og ýmsum almennum félagsmönnum hennar sé vel ljóst að það er nauðsynlegt að þróa skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar til réttrar áttar, það er nauðsynlegt að vekja stéttarvitund fólksins. En það er að mínu viti ástæðulaust fyrir löggjafann að vera að sletta sér fram í þessi mál eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.