17.12.1981
Neðri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (1397)

136. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 6. landsk. þm., Karvel Pálmason, beindi til mín fsp. sem sjálfsagt er að svara, varðandi jöfnun á orkukostnaði í landinu. Eins og hann gat um er það mál náttúrlega margþætt. Einn þátturinn, sem kannske brennur mest á ýmsum landsmönnum, er olíukostnaðurinn.

Þegar hv. þm. ásamt fleiri fulltrúum Vestfirðinga kom til mín fyrir nokkru út af þessu máli skýrði ég þeim að sjálfsögðu frá því, að sérstök nefnd manna væri að verki til að gera tillögur um olíustyrkina og að öðru leyti væri þetta mikla mál til könnunar. Nú get ég skýrt frá því, að ríkisstj. hefur samþykkt allverulega hækkun á olíustyrknum. Sú fjögurra manna nefnd, sem hefur fjallað um það mál, hefur nýlega skilað tillögum og í samræmi við þær tillögur hefur ríkisstj. nú tekið ákvörðun um verulega hækkun á olíustyrknum fyrir þetta ár. Verður nánar skýrt frá því af hálfu viðskrh. í tilkynningu frá hans ráðuneyti.

Varðandi verðjöfnun á orku að öðru leyti er hv. fyrirspyrjanda eins ljóst og öðrum þm. að hér er um stórkostlegt vandamál að ræða sem snertir ekki aðeins Vestfirðinga, heldur meira og minna alla landsmenn. Sumir hafa kannske þær hugmyndir að það eigi að jafna þetta verð með því að hækka verulega orkuverð þar sem það er lægst. Ég býst við að aðrir telji það ósanngjarnt. Sumir telja að ríkissjóður eigi að verja fé til þess og þá kostar það náttúrlega miklar fjárfúlgur. Allt þetta mál er svo stórt í sniðum að það er ekki sanngjarnt að ætlast til þess — eins og mér virtist hv. þm. gera — að því sé svarað þegar á stundinni, hvernig þeim málum verði hagað. Þessi þáttur málsins, hækkun olíustyrksins, er leystur, a. m. k. í bili. Að öðru leyti er málið til nánari könnunar.