22.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Eftir að hafa hlýtt á ræður stjórnarandstæðinga hér í kvöld mætti ætla að stjórnarandstaðan telji það hlutverk sitt að draga kjark úr þjóðinni með svartnættishjali í stað þess að benda á jákvæðar leiðir til úrbóta á ýmsum vandamálum þ jóðfélagsins.

Kjartan Jóhannsson talaði að vísu um að við hefðum hlotið búhnykk vegna gengishækkunar dollarans. Þessi búhnykkur var þó ekki meiri en svo, að viðskiptakjör þjóðarinnar eru nú 11—12% lakari en 1978.

Karvel Pálmason talaði um kaupmátt kauptaxta. En kaupmáttur ráðstöfunartekna er nú með því hæsta sem verið hefur eða nálega eins og var 1979.

Hver vinnufús hönd hefur að kalla haft verk að vinna meðan hlutfall atvinnulausra í sumum nágrannalöndum okkar er allt að 30–40 sinnum hærra en hér á landi. Gjaldeyrisstaða og viðskiptajöfnuður við útlönd hefur farið fremur batnandi og jöfnuður hefur verið á ríkisfjármálum. Breytt hefur verið um stefnu í gengismálum og gengi krónunnar stöðugra en um langt skeið. Það er rangt, sem Geir Hallgrímsson sagði, að forsrh. hafi gefið í skyn gengislækkun eða gengisbreytingu á næstu mánuðum. Verðbólga er nú talin munu lækka um þriðjung á þessu ári. Innlendur sparnaður hefur mjög aukist og umskipti orðið í stöðu peningamála hjá innlánsstofnunum. Staða atvinnuveganna er á hinn bóginn of veik og afkoma einstakra fyrirtækja misjöfn. Það er í sjálfu sér ekki ný saga í okkar landi.

Geir Hallgrímsson talaði um 19 togara sem þyrftu sérstakrar athugunar við. Hann talaði ekki um það, að útgerðin er talin hafa verið rekin með halla í heilan áratug og að þessi halli er talinn minni á þessu ári heldur en allan þennan tíma, eða í sept. s. (. um 3.2%, en hallinn var t. d. 12–14% öll árin 1974–1976.

Verðbólgan hefur um árabil átt drýgstan þátt í að grafa undan afkomuöryggi atvinnuveganna, og margar ríkisstjórnir hafa átt í stöðugri baráttu við að verja rekstrargrundvöll þeirra þótt misjafnlega hafi til tekist. Þessi barátta sendur enn og er auðvitað háð í ljósi þess, að atvinnuvegirnir mynda undirstöður þjóðfélagsins og allrar byggingar þess. Lækkun verðbólgu og aukin sparifjármyndun eru áhrifaríkustu leiðirnar til að tryggja framtíðarheill atvinnuveganna, en á þessu sviðum hefur verulega áunnist á þessu ári.

Meðal þeirra leiða, sem til greina koma nú til að létta stöðu atvinnuveganna, tel ég vera að slaka á vöxtum, einkum dráttarvöxtum og refsivöxtum, og eru þau mál öll ásamt ýmsum fleiri til athugunar.

Engum skal til hugar koma að það gangi án átaka og erfiðleika að ná verðbólgunni niður um 20% á einu ári og síðan áfram í samræmi við fyrirætlanir ríkisstj. En þær aukaverkanir, sem gert hafa vart við sig hjá okkur, eru smávægilegar hjá því sem gerst hefur annars staðar þar sem harðari ráðstófunum hefur verið beitt, svo sem í Bretlandi, og kostað hafa fyrirtækjadauða og gífurlegt atvinnuleysi.

Á síðasta ári varð afkoma landbúnaðarins hagstæð. Á aðalfundi Stéttarsambands bænda skýrði fráfarandi formaður þess frá því, að samkv. úrtaki úr búreikningum skorti aðeins rúm 2% til þess að bændur hefðu náð þeim tekjum sem þeim voru ætlaðar samkv. verðlagsgrundvelli. Þessi mismunur hafði ekki verið svo lítill alla hans formannstíð eða í 18 ár. Rétt er að rifja upp að oft hafi áður vantað 15–20%. Skil við lánastofnanir landbúnaðarins höfðu einnig verið betri á árinu 1980 en oftast áður. Góðærið 1980 átti auðvitað sinn mikla þátt í þessari niðurstöðu. En það þykir e. t. v. athyglisvert, að svo hagstæð útkoma skyldi nást einmitt á því ári sem teknar voru upp allharðar aðgerðir til þess að hafa hemil á vissum framleiðslugreinum með kjarnfóðurgjaldi. Tæplega er nokkur von til þess, að sambærileg niðurstaða náist á þessu ári, sem hefur verið meðal hinna erfiðustu hvaða árferði og veðurfar snertir. Ríkisstj. hefur nú til athugunar bráðabirgðatillögur fóðurbirgðanefndar sem ekki liggur enn fyrir hvað kosta mikið fé. Ég hef einnig ákveðið að láta fram fara athugun á tjóni kartöflubænda við Eyjafjörð sem misstu verulegan hluta af uppskeru sinni undir fönn.

Á síðasta verðlagsári vantaði enn miklar fjárhæðir, eða 45 millj. kr., svo að útflutningsuppbætur dygðu til að mæta halla af útflutningi búvara. Í lánsfjáráætlun, sem ríkisstj. hefur nú lagt fyrir Alþingi, er gert ráð fyrir að útvega 20 millj. kr. til að mæta hluta af þessum halla. Ákveðið hefur verið að verja af kjarnfóðurgjaldi 12 millj. kr. í þessu skyni. Má því búast við að vanti á fullnaðaruppgjör ársins 13 millj. kr.

Á þessu ári hefur verið ráðstafað um 7 millj. kr. til nýrra tekjuöflunarleiða í sveitum og hagræðingar í landbúnaði umfram það fjármagn sem áður hefur runnið til þessara hluta. Ljóst er að ötullega þarf að halda áfram á þessari braut, m. a. til að mæta þeim samdrætti sem óhjákvæmilegur var í mjólkurframleiðslunni. Okkur er mikil nauðsyn að halda framleiðslu hinna hefðbundnu búgreina sem næst því marki sem hún nú er. Verði enn samdráttur sem nokkru nemur er afkoma bændastéttarinnar og byggðin í sveitum landsins í hættu.

Ýmis mikilvæg viðfangsefni hafa verið og eru í gangi á sviði landbúnaðarmála. Ég læt mér nægja að nefna einn atburð sem mér finnst öðrum ánægjulegri, en það er setning Bændaskólans á Hólum á þessu hausti. Eftir tveggja ára hlé í starfi er skólinn nú fullsetinn nemendum. Nýtt og áhugasamt starfslið hefur ráðist að skólanum og framkvæmdir hafa verið miklar. Ég vona að heill fylgi starfi á því höfuðbóli.

Á þessu ári hefur orðið meiri friður um landbúnaðarmál en um alllangt sekið. Bændastéttin hefur hlotið aukna virðingu af því að taka á eigin vandamálum og leysa þau svo sem gert hefur verið, þótt deila megi um einstök framkvæmdaatriði. Aðgerðir stjórnvalda og skarpari túlkun á þýðingu landbúnaðarins fyrir þjóðarheildina hafa einnig aukið skilning í garð bænda. Við eigum mikið undir því komið að rækta aukinn skilning milli framleiðenda og neytenda, milli undirstöðugreina og þjónustu, milli atvinnuvega og vinnuafls. Hagsmunir, sem í fljótu bragði virðast ólíkir, fara oft í stórum dráttum saman þegar betur er að gáð. Því læt ég þá ósk í ljós að skilningur í þjóðfélaginu megi fara vaxandi, stéttaátök verða hófleg og niðurstöður hagsmunadeilna með þeim hætti, að farsæld fylgi í framtíðinni. — Góða nótt.