18.12.1981
Sameinað þing: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1847 í B-deild Alþingistíðinda. (1508)

1. mál, fjárlög 1982

Frsm. samvn. samgm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Samvn. samgm. hefur að venju fjallað um erindi þau sem Alþingi hafa borist um fjárframlög til stuðnings við rekstur flóabáta vegna vöru- og fólksflutninga á hinum einstöku svæðum, svo sem Faxaflóa, Breiðafirði, Ísafjarðardjúpi og til Vestmannaeyja, um Eyjafjörð allt til Grímseyjar og vegna samgangna milli Mjóafjarðar og Neskaupstaðar. Enn fremur hefur nefndin fjallað um erindi er borist hafa vegna flutninga á landi, svo sem til rekstrar snjóbifreiða eða vegna mikils snjómoksturs þar sem erfitt reynist viðkomandi byggðarlögum að standa straum af þeim kostnaði er þau verða að bera samkv. snjómokstursreglum Vegagerðarinnar. Þrátt fyrir að reglurnar hafi verið rýmkaðar á síðustu árum verða íbúar í snjóþungum héruðum fyrir verulegum kostnaði umfram aðra þegna þjóðfélagsins við að halda uppi nauðsynlegum samgöngum. Til að minnka þennan aðstöðumun hafa verið veitt á fjárlögum hvers árs fjárframlög til þeirra aðila, sem að dómi nefndarinnar eru verst settir að þessu leyti.

Nefndinni bárust umsóknir frá 54 aðilum. Halldór S. Kristjánsson deildarstjóri í samgrn. og Guðmundur Einarsson forstjóri Skipaútgerðar ríkisins mættu á fundum nefndarinnar og veittu henni margvíslegar upplýsingar sem komu nefndinni að verulegu gagni. Færir nefndin þeim sérstakar þakkir fyrir þeirra störf.

Í mörgum þessum umsóknum kemur glöggt fram hve aðstöðumunurinn er mikill hvað kostnað við allar samgöngur varðar, og er nefndinni fullkomlega ljóst að full ástæða væri að hafa þessa styrki verulega hærri til að minnka þennan mun. En á hitt ber að líta, að margir munu þeir vera sem eru ekkert eða litið betur settir, en enga umsókn um slíka styrki hafa sent Alþingi.

Á þskj. 233 er ítarlega skýrt frá rekstri flóabátanna og rökum fyrir því að veita þessa styrki og fer ég ekki að greina frá því hér, en mér þykir ástæða til að vek ja athygli á því, að t. d. skuld Akraborgar við Ríkisábyrgðasjóð var um síðustu mánaðamót orðin 12.3 millj. kr., en var 8.3 millj. í byrjun ársins, og hjá Herjólfi var þessi staða þannig að skuld var orðin um síðustu mánaðamót 36.6 millj., hafði hækkað um nálægt 16 millj. á þessu ári. Það urðu verulegar umr. um þetta í samvn. samgm. og var mér falið sem formanni nefndarinnar að ræða þessi mál við hæstv. fjmrh. Niðurstaða þeirra viðræðna er sú, að í 6. gr. fjárl. hefur hæstv. ráðh. lagt til að komi inn heimild til að sem ja við Herjólf hf. og Skallagrím hf. um vanskil fyrirtækjanna hjá Ríkisábyrgðasjóði, m. a. niðurfellingu vaxta og dráttarvaxta að hluta, með þeim skilyrðum sem talin eru nauðsynleg.

Við umfjöllun málsins kom fram, að æskilegt væri að samgrn. reyndi að fylgjast með því, hvernig þeir fjármunir nýtast þeim byggðarlögum sem fá styrki eftir till. nefndarinnar, til að fá vísbendingu um hvort þessir fjármunir mundu geta komið byggðarlögunum að meiri notum eftir öðrum leiðum.

Mjög ítarlega var fjallað um hverja umsókn og náðist full samstaða í nefndinni um hverja fjárveitingu.

Vil ég nú greina frá hverjir þessir styrkir voru. Þessi fjárlagaliður var á fjárl. yfirstandandi árs 12 millj. 483 þús., en eftir till. nefndarinnar yrði hann 17 millj. 296 þús. og hefur þá hækkað um 38.55%.

Það hafa orðið villur hér. Það á að standa í 1. lið: Til vetrarsamgangna í Breiðavíkurhreppi og enn fremur til vetrarsamgangna í Dalahéraði. Ég les áfram: Til vetrarsamgangna í Breiðavíkurhreppi 20 þús., til vetrarsamgangna í Dalahéraði 20 þús., snjóbifreið í Austur-Barðastrandarsýslu 10 þús., til mjólkurflutninga í Vestur-Barðastrandarsýslu 40 þús., til vetrarsamgangna í Rauðasandshreppi 20 þús., til vetrarsamgangna í Ketildalahreppi 15 þús., til vetrarsamgangna í Auðkúluhreppi, Vestur-Ísafjarðarsýslu 20 þús., til vetrarsamgangna við Ingjaldssand 20 þús., snjóbifreið í Önundarfirði 8 þús., snjóbifreið um Botnsheiði 20 þús. og stofnstyrkur 30 þús., til mjólkurflutninga í Önundarfirði, Dýrafirði, Súgandafirði og Djúpi 110 þús., til vetrarsamgangna í Álftafirði, Norður-Ísafjarðarsýslu 20 þús., til vöruflutninga í Árneshreppi 80 þús., til vetrarsamgangna í Árneshreppi 30 þús., snjóbifreið á Hólmavík 14 þús., snjóbifreið í Austur-Húnavatnssýslu 7 þús., snjóbifreið í Skagafirði 14 þús., til vetrarsamgangna í Haganes- og Holtshreppi í Skagafirði 20 þús., Grímsey, vegna vetrarsamgangna og flugs 80 þús., til vetrarsamgangna í Ólafsfirði 15 þús., stofnstyrkur 30 þús., til snjóbifreiðar í Dalvíkurlæknishéraði 8 þús., til vetrarsamgangna í Svarfaðardal 20 þús., til snjóbifreiðar á Akureyri 14 þús., Flugbjörgunarsveitin á Akureyri 12 þús., snjóbifreið í Hálshreppi, Suður-Þingeyjarsýslu, 14 þús., til vetrarsamgangna í Fjallahreppi 30 þús., snjóbifreiðar í Öxarfirði og Kópaskeri 16 þús., til vetrarsamgangna á Bakkafjörð 15 þús., til vetrarsamgangna á Vopnafirði 27 þús., til vetrarsamgangna í Borgarfjörð eystra 38 þús., til póst- og vöruflutninga á Jökuldal 11 þús., stofnstyrkur 20 þús., til vetrarsamgangna á Jökuldal 20 þús, snjóbifreið á Fljótsdalshéraði 14 þús., snjóbifreið á Fjarðarheiði 140 þús., snjóbifreið á Oddsskarði 130 þús., stofnstyrkur 20 þús., snjóbifreið á Fagradal 20 þús., stofnstyrkur 15 þús.; snjóbifreið Stöðvarfjörður-Egilsstaðaflugvöllur 20 þús., til vetrarsamgangna á Breiðdalsvík 15 þús., til vetrarsamgangna Djúpivogur-Hornafjörður 40 þús., stofnstyrkur 40 þús., Svínafell í Nesjum 14 þús. og til vöruflutninga á Suðurlandi 120 þús. Þetta gerir 1 millj. 486 þús. kr.

Þá koma flóabátarnir. Það er fyrst Akraborg, til rekstrar 1 millj. og stofnstyrkur 800 þús. eða samtals 1.8 millj., Baldur 2.8 millj., Langeyjarnesbátur 16 þús., Mýrabátur 1 þús., Fagranes 2.2 millj., Dýrafjarðarbátur 13 þús., Hríseyjarferja, til rekstrar 400 þús. og stofnstyrkur 1 millj. 160, samtals 1 millj. 560 þús., Drangur, til rekstrar 1.5 millj., stofnstyrkur 1.4 millj., samtals 2.9 millj., en þannig stendur á að það er verið að kaupa nýtt skip fyrir gamla Drang og gengur gamli Drangur upp í þau kaup, Mjóafjarðarbátur 420 þús. og Herjólfur 4.1 millj.