18.12.1981
Sameinað þing: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1865 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

1. mál, fjárlög 1982

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt., sem ég flyt á þskj. 263 við 4. gr. fjárlagafrv., um að liðurinn Bygging grunnskóla o. fl., Vestmannaeyjar, nýr skóli hækki úr 1 millj. 125 þús. í 2 millj. 125 þús.

Það eru ákaflega augljósar ástæður fyrir flutningi þessarar till. Bygging þessa grunnskóla er þegar komin af stað. Það er rúmt ár síðan byggingarframkvæmdir hófust og bygging hefur gengið vel og fylgir verkið áætlun. Bæjarsjóður hefur þegar lagt í þessa byggingu 2.5 millj. kr. Það er nauðsynlegt að 1. áfangi þessa skóla verði tekinn í notkun á næsta hausti. Vegna þess að skólinn er staðsettur í nýju hverfi í bænum, sem er mjög barnmargt, mun þarna skapast hreint öngþveiti ef ekki fæst fjármagn til að ljúka þessum áfanga fyrir næsta haust. Sú er ástæðan fyrir flutningi þessarar tillögu.