19.12.1981
Sameinað þing: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1893 í B-deild Alþingistíðinda. (1616)

1. mál, fjárlög 1982

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Í 7. gr. fjárlagafrv. er skattvísitala ákveðin 150. Samkv. nýjustu upplýsingum munu tekjur hækka milli áranna 1980 og 1981 um a. m. k. 52%. Þetta þýðir það, að í tekjuáætlun fjárlagafrv. skortir 30–40 millj. kr. á að áætlað sé fyrir þeim tekjusköttum sem lagðir verða á á árinu. Þetta þýðir því að óbreyttri skattalöggjöf verulega íþyngingu tekjuskatta. Milli umr. kom í ljós að ætlunin var að afla meiri skatta heldur en tekjuáætlun frv. gerði ráð fyrir og gert var ráð fyrir við 2. umr. Þar var um að ræða hækkun á sköttum vegna innflutningsgjalds á sælgæti og kex og tollum á innfluttum húsum. Þessir skattar bættust við þá skatta sem fyrir voru.

Ég hef áður gert grein fyrir því, að síðan 1978 hafa skattar á almenning hækkað um sem svarar 930 millj. kr. eða 20 þús, nýkr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. Þetta eru skattaálögur sem eru á ábyrgð núv. ríkisstj. og vinstri stjórnarinnar.

Við þm. Sjálfstfl. flytjum ekki brtt. við skattvísitölu þessa frv. nú vegna þess að við hyggjumst flytja tillögur í skattamálum sem miða að því að létta af mönnum þessum sköttum síðar á þessu þingi. Með vísun til þessarar grg. greiði ég ekki atkv.