20.01.1982
Neðri deild: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1908 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

167. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv., sem ég mæli hér fyrir, um breytingar á lögum um almannatryggingar, er samið í heilbr.- og trmrn. og er fram komið vegna nýrra barnalaga, nr. 9/1981, sem tóku gildi 1. jan. s. l.

Í barnalögum eru nokkur ákvæði er snerta lög um almannatryggingar. Samkv. 17. gr. barnalaga lýkur framfærsluskyldu er barn verður 18 ára í stað 17 eins og verið hefur. Þótt barnalög mæli fyrir um framfærslu barna samkv. einkarétti, en ekki gagnvart hinu opinbera, verður að telja eðlilegt að breyta aldursmörkum samkv. 1. mgr. 14. gr. almannatryggingalaga, 2. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 45. gr. almannatryggingalaga, nr. 67/1971, til samræmis við barnalög.

Það, sem hér er um að ræða, er að barnalífeyrir verði greiddur með börnum þar til þau verða 18 ára, að ekkju- eða ekkilsbætur verði greiddar til bótaþega, sem hafa börn að 18 ára aldri á framfæri sínu, og til viðbótar sjúkradagpeningum verði greitt fyrir hvert barn á framfæri bótaþega, þar til það verður 18 ára. Að öðru leyti eru nefndar greinar óbreyttar.

Auk þess sem ég greindi frá hér að framan er að finna í barnalögum ýmis nýmæli er leggja auknar fyrirgreiðsluskyldur á Tryggingastofnun ríkisins. Í 19. gr. barnalaga er heimilað að úrskurða um sérstök framlög vegna tiltekinna útgjalda, og í 30. gr. 2. mgr. segir að foreldri eða eftir atvikum framfærandi samkv. 31. gr. eigi aðgang að Tryggingastofnun ríkisins um slíkar greiðslur. Í 25. gr. barnalaga er heimilað að úrskurða föður til að greiða framfærslueyri í allt að þrjá mánuði, og í 30. gr. segir að um aðgang barnsmóður að Tryggingastofnun ríkisins vegna þessa framfærslueyris fari svo sem segir í 73. gr. almannatryggingalaga.

Í 25. gr. barnalaga er heimilað að úrskurða barnsföður til að greiða móður mánaðarlega hjúkrunar- og framfærslustyrk í allt að níu mánuði. Í 30. gr. barnalaga segir svo að barnsmóðir eigi aðgang að Tryggingastofnun ríkisins um greiðslur þessar.

Loks er í 26. gr. ákveðið að úrskurða skuli barnsföður til að greiða kostnað af meðgöngu og fæðingu þegar um það er að ræða að faðir barnsins hafi sætt dómi fyrir brot samkv. XXII. kafla almennra hegningarlaga gagnvart móður barnsins. Í slíkum tilvikum er barnsmóður einnig veittur aðgangur að Tryggingastofnun ríkisins um greiðslur þessar.

Hvað snertir þessa upptalningu taka núgildandi ákvæði almannatryggingalaga eingöngu til greiðslu meðlags, þ. e. framfærslueyris barns, sem skýrt er kveðið á um í 23. gr. barnalaga að tilheyri barni. Slíkar greiðslur falla undir 73. gr. núgildandi laga um almannatryggingar, en aðrar ekki.

Þess skal sérstaklega getið, að 1. jan. 1981 tóku gildi lög nr. 47/1980 um fæðingarorlof. Þá var numin úr gildi 74. gr. almannatryggingalaga um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar ríkisins samkv. úrskurði á barnsfararkostnaði ógiftrar móður sem fella varð niður vinnu og missti tekjur vegna barnsburðar. Með tilkomu almenns fæðingarorlofs 1. jan. 1981 var talið að bættur væri slíkur tekjumissir móður.

Ekki þarf að deila um það, að með samþykki 1. mgr. 25. gr. barnalaga, þ. e. um aðgang barnsmóður að Tryggingastofnun ríkisins vegna greiðslu framfærslueyris, ætlaðist löggjafinn til þess, að svipuð fyrirgreiðsluskylda Tryggingastofnunar ríkisins stofnaðist á ný, þótt svo illa hafi til tekist að ekki sé sagt með berum orðum í barnalögum, heldur vísað til 73. gr. almannatryggingalaga, en eins og áður hefur komið fram getur sú grein óbreytt engan veginn heimilað greiðslu framfærslueyris, hvað þá verið grundvöllur að endurheimta slíkra greiðslna.

Um aðrar greiðslur, sem rætt hefur verið um hér að framan, svo sem barnsfararkostnað og fleiri greiðslur er standa í tengslum við barnsburð og meðgöngu, má segja að í barnalögum séu tæmandi fyrirgreiðslu- og endurkröfuheimildir fyrir Tryggingastofnun ríkisins. Eðlilegast er þó að sjálf löggjöfin um almannatryggingar sé á hverjum tíma tæmandi heimild um skyldur og réttindi á þessu sviði. Niðurstaðan er því sú, að ýmis ákvæði barnalaga hafi átt meira erindi í lög um almannatryggingar en barnalög. Með það í huga að nauðsynlegt sé að fulls samræmis gæti í ákvæðum almannatryggingalaga og annarra lagaákvæða, er leggja skyldur á Tryggingastofnun ríkisins, er lagt til að ný 73. gr. taki til allrar fyrirgreiðslu stofnunarinnar samkv. IV. og V. kafla barnalaga og í samræmi við VI. kafla sömu laga.

Þá er enn fremur lagt til að reglur um endurkröfu á hendur Innheimtustofnun sveitarfélaga fyrir hönd framfærsluskylds foreldris og framfærslusveitar og á hendur ríkissjóði, þar sem það á við, komi í sérstaka grein, 74. gr. Í þessari grein kemur það fram berum orðum, að allar greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins vegna ákvæða barnalaga og 73. gr. almannatryggingalaga skuli vera endurheimtanlegar framvegis sem hingað til hjá 1nnheimtustofnun sveitarfélaga og hjá ríkissjóði.

Kostnaðarauki ríkissjóðs af framangreindum breytingum er áætlaður um 1.5 millj. kr. á ári, að svo miklu leyti sem nokkur vegur er að áætla þennan kostnað, og er hann aðallega til kominn vegna barnalífeyris sem greiddur yrði með börnum yngri en 18 ára ef annað hvort foreldri er látið eða er örorkulífeyrisþegi. Hér er um hreinan kostnaðarauka hjá ríkissjóði að ræða þar sem endurgreiðslur koma ekki til í þessu tilviki. Þá er þetta kostnaðarauki ríkissjóðs en ekki atvinnurekenda, þar sem þeir greiða til lífeyristrygginga fast gjald sem nemur 2% launagreiðslna sinna.

Í stuttu máli má segja að breytingar þær, sem hér eru lagðar til, séu þrenns konar: Í fyrsta lagi að framfærsla barna að einkarétti og gagnvart hinu opinbera miðist við sömu aldursmörk. Í öðru lagi nauðsynlegar breytingar þannig að barnalög og almannatryggingalög stangist ekki á. Í þriðja lagi að sjálf löggjöfin um almannatryggingar sé tæmandi heimild um skyldur og réttindi á því sviði er hún tekur yfir.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fara fleiri orðum um frv. þetta, enda er frv. í sjálfu sér stutt og skýrir sig að flestu leyti sjálft auk þess sem góð grg. fylgir því.

Ég vil að lokum leggja til að frv. þessu verði að 1. umr. lokinni vísað til hv. heilbr.- og trn. um leið og ég bendi á að mjög brýnt er að frv. hljóti skjóta afgreiðslu þar sem barnalög hafa þegar öðlast gildi, eða frá 1. jan. s. l.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til heilbr.- og trn. og 2. umr.