25.01.1982
Neðri deild: 33. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1963 í B-deild Alþingistíðinda. (1687)

155. mál, námslán og námsstyrkir

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að efna til karps um minni háttar atriði við hæstv. menntmrh., en ég beindi til hans fsp. og gerði nokkrar aths. við fram komið frv. þótt, eins og komið hefur fram, við séum í flestöllum og má segja langflestum atriðum sammála um frv. Hæstv. ráðh. kaus að segja ekkert um deilur eða ágreining innan hæstv. ríkisstj. um efnisatriði frv., enda skiptir það í sjálfu sér ekki mestu máli. Það, sem skiptir auðvitað máli, er að frv. er lagt fram í nafni hæstv. ríkisstj. Telja verður að hún hafi um það fjallað og lagt blessun sína yfir framlagningu frv. Eftir þá ítarlegu skoðun, sem frv. hefur fengið í hæstv. ríkisstj., má því gera ráð fyrir að hún sé nú sammála um efnisatriði. Þessa ályktun dreg ég af orðum hæstv. ráðh., þótt hann hafi ekki beinlínis látið þau falla.

Í öðru lagi minntist hæstv. ráðh. á að ég hefði sagt að frv, væri ekki í öllum efnisatriðum eins og nefndin gekk frá því á sínum tíma. Hér er að sjálfsögðu um hártogun að ræða, hjá okkur báðum kannske, því að það má alltaf deila um hvað séu efnisatriði. Eru tímasetningar efnisatriði? Auðvitað má deila um það. Eru tölur efnisatriði? Er það efnisatriði ef einhver tala er öðruvísi en önnur í frv.? Ég hugsa að það megi líka deila um það. Það skiptir í sjálfu sér ekki mestu máli hvort um er að ræða efnisatriði eða ekki.

Ég sagði að námsmenn hefðu talið sig hafa gert samkomulag við ráðh., sem hæstv. ráðh. hefur reyndar mótmælt að verið hafi, og í þessu samkomulagi hafi það verið, sem jafnframt var efnisatriði í frv. eins og það var lagt fram af nefndarinnar hálfu á sínum tíma, að lán úr Lánasjóði ísl. námsmanna yrðu 90% af umframfjárþörf strax haustið 1980. (Menntmrh.: Sem varð.) Það varð, en þau skyldu síðan hækka í 95% haustið 1981, sem ekki varð, og í 100% af svokallaðri umframfjárþörf haustið 1982, sem hugsanlega verður ef frv. verður breytt því að samkv. frv. var þessu ýtt til. Deila má um hvort það séu efnisatriði eða ekki, og skal ég ekki hirða um það. Hvort samningur hefur verið á borðum eða samkomulag hefur ráðh. skýrt út, og ég tek auðvitað orð hans trúanleg. Eitt sinn var sagt að öruggasta leiðin til að semja ekki af sér væri að semja ekki, og það er áreiðanlega alveg rétt.

Þá vék hæstv. ráðh. að þeim drætti, sem orðið hefði á því að þetta frv. væri lagt fram á hv. Alþingi, og gerði lítið úr því og nefndi það til rökstuðnings m. a. að nefndin hefði ekki skilað honum nál. sínu með frv. fyrr en þing var hafið. Nú vill svo til að ég er með þetta bréf til hæstv. ráðh. Það er dags. 11. okt. eða daginn eftir að þingsetning fór fram. Á þingsetningardegi gera menn lítið annað en fara til kirkju og koma hingað stutta stund, þannig að það er varla hægt að segja að þing hafi a. m. k. verið langt komið með sín störf daginn eftir þingsetningardag. Það var ekki einu sinni búið að kjósa í nefndir. Þetta vildi ég að kæmi fram, því að mér þótti dálítið langt til seilst að nota þetta atriði til að skýra drátt, sem ég tel að hafi verið óeðlilega mikill, á því að þetta frv. væri lagt fram á hinu háa Alþingi.

Allt um það, frv. er hér. Við höfum rætt um örfá stærstu atriði þessa máls við 1. umr. Hv. menntmn. fær frv. til meðferðar og við erum sammála um það, þeir sem hér hafa talað í dag, þeir nm. í þeirri nefnd sem samdi frv., hæstv. menntmrh. og þá væntanlega öll hæstv. ríkisstj., að það sé augljóslega hagur allra að þetta frv. verði að lögum á yfirstandandi þingi.