01.02.1982
Neðri deild: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2104 í B-deild Alþingistíðinda. (1763)

Umræður utan dagskrár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Hinn 28. okt. s. l. urðu talsverðar umr. utan dagskrár hér á þingi vegna fiskverðsákvörðunar. Inn í þær umr. spunnust niðurstöður rannsókna á hrygningarstofni loðnunnar. Þá sagði hæstv. sjútvrh. orðrétt m. a.:

„Það er rétt, að niðurstöður af rannsókn fiskifræðinga nú í okt. eru ákaflega atvarlegar. Niðurstaða þeirra er sú af mælingum, að loðnustofninn, sem þeir mældu, sé um 144 þús. lestir, en þeir mældu í fyrra á sama tíma hátt í 700 þús. lestir eða 677 þús. lestir. Ef þetta er rétt boðar það náttúrlega ekkert annað en hrun loðnustofnsins.“ Þetta sagði hæstv. sjútvrh. þá, en loðnuveiðunum var haldið áfram engu að síður. Við fyrrnefnda umr. sagði ég m. a.:

„Ég verð að segja það sem mína skoðun, að deilur um loðnuverð eru hjóm eitt miðað við hversu alvarlegar fréttir hér eru á ferðinni. Mín skoðun er sú, að þær upplýsingar, sem nú hafa borist frá fiskifræðingum, hljóti að vera af því tagi að það sé rökrétt ákvörðun í framhaldi af þeim upplýsingum að loðnuveiðar verði stöðvaðar þegar í stað, a. m. k. á meðan verið er að skera úr um hvort þessar upplýsingar eru réttar eða ekki.

Mér er ljóst að það standi mörg spjót á hæstv. sjútvrh. þessa dagana af ýmsum tilefnum og vegna ýmissa mála. En þetta mál finnst mér alvarlegra en nokkuð annað sem hér hefur borist inn í þingsali í langan tíma. Menn verða að gera svo vel að gera sér það ljóst, að loðnan er undirstöðufæðutegund þorskfisksins í hafinu. Ef við erum að veiða upp þennan stofn eru svo alvarleg tíðindi á ferðinni að við því verður að bregðast af fyllstu hörku.

Ég vænti þess, að hæstv. sjútvrh. taki þetta mál eins föstum tökum og honum er framast unnt.“

Þetta var sagt hinn 28. okt. s. l. Ekkert gerðist, loðnuveiðunum var haldið áfram.

Í framhaldi af þessum orðum mínum ráku nokkrir loðnuskipstjórar upp ramakvein og einn skipstjóranna sagði að loðnusjómenn fengju hroll í sig þegar þeir heyrðu orð af þessum toga spunnin. Ég sagði þá í blaðagrein að ég vonaðist til þess, að sá hrollur breyttist ekki í hrollvekju.

Herra forseti. Dagana 11.–22. jan. s. l. voru hafrannsóknaskipin Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson að bergmálsmælingum á síld og loðnu. Á Bjarna Sæmundssyni hófust mælingar á loðnugöngunni út af Suðausturlandi hinn 11. jan., en frá 15.–22. jan. voru bæði skipin við mælingar á stærð loðnustofnsins og endurvarpsstuðlum. Niðurstaða þessara mælinga gefur m. a. til kynna um 150 þús. tonna hrygningarstofn. Þessi niðurstaða er í mjög góðu samræmi við athuganir sem gerðar voru fyrri hluta nóvembermánaðar á fyrra ári, eftir að mælingarnar í okt. höfðu verið reyndar og þær ekki taldar geta staðist. Þá mældust um 325 þús. tonn af hrygningarloðnu, sem að frádregnum afla og afföllum af völdum ránfisks jafngildir því að átt hefðu að mælast 170 þús. tonn, ef öll hrygningarloðnan hefði gengið austur fyrir land. Staða loðnugöngunnar og bermálsmælinganna fyrir áramót benda ákveðið til þess, að sú hafi raunin orðið. Finnist ekki meiri hrygningarloðna er stærð þessa hluta stofnsins hin langminnsta sem mælst hefur á seinni árum og langt undir þeim mörkum sem Hafrannsóknastofnunin hefur miðað við, er gerðar hafa verið tillögur um hámarksafla, og virðist skila viðunandi seiðafjölda.

Þessa dagana er hafrannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson að mæla hugsanlegar hrygningargöngur fyrir Vestfjörðum og Norðurlandi. Þá verður einnig reynt að mæla ókynþroska hluta stofnsins á sömu slóðum og auk þess út af Austurlandi eftir að hrygningarloðnan er gengin af því svæði. Það verður þó að segjast, að fiskifræðingar eru ekki bjartsýnir á að þarna finnist umtalsvert magn, en það mun koma í ljós.

Í skýrslum þeirra Hjálmars Vilhjálmssonar og Páls Reynissonar eftir rannsóknarferðina 11.–22. jan. segir orðrétt:

„Þar til þeim athugunum lýkur“ — það eru þær athuganir sem nú standa yfir — „er aðeins hægt að ítreka fyrri tillögur um bann við loðnuveiðum, auk ábendinga um alvarlegt og síversnandi ástand stofnsins í heild.“

Herra forseti. Ég er enn þá þeirrar skoðunar, að hér sé á ferðinni eitt hið alvarlegasta mál sem hefur komið til umr. á hinu háa Alþingi. Ég vil í örstuttu máli renna nokkrum fleiri stoðum undir þessa skoðun mína.

Árið 1979 voru loðnuafurðir 17% af heildarframleiðsluverðmæti íslenskra sjávarafurða og jafngildir það um 3% þjóðarframleiðslunnar. Í fyrra var loðnan 8% af heildarframleiðsluverðmæti sjávarafurða og skilaði 1.5% af þjóðarframleiðslu. Hins vegar var loðnan 6% af öllum útflutningstekjum okkar það ár. Í blaðaviðtali nú fyrir helgi segir Ólafur Davíðsson forstjóri Þjóðhagsstofnunar orðrétt, með leyfi forseta:

„Ef loðnuveiðunum yrði alveg hætt hefði það því talsverð áhrif á viðskiptajöfnuð okkar. Það hefði auk þess ýmis óbein áhrif, því að það er talsverð starfsemi í kringum þetta. Áhrif loðnuveiðanna á þjóðarbúið eru því kannske heldur meiri en sýnist.“

Herra forseti. Á þessu máli er svo önnur hlið sem er ekki síður alvarleg, en það eru hugsanleg áhrif af hruni loðnustofnsins á afkomu þorskstofnsins. Vísindamenn tjá mér að loðna sé um helmingur af öllu fæðunámi þorsksins að vetrinum eða í a. m. k. 6 mánuði. Því má skjóta hér inn í, að í nóv. s. l. var óvenjulítið af loðnu í þorski veiddum hér við land. Auk loðnu er talið að þorskurinn éti mikið af karfa og kolmunna, en þorskurinn er mesta fiskætan af þeim fisktegundum sem við veiðum. Ekki er talið ólíklegt að þorskurinn éti svipað magn af loðnu ár hvert og við höfum veitt hin síðari ár.

Þá er þess að geta, að sveiflur í loðnustofni kunna að vera meiri en hjá öðrum fisktegundum. Loðnan er uppsjávarfiskur og verður því fyrir miklum áhrifum af hvers konar umhverfisbreytingum. Ef loðnustofninn er nú nánast hruninn, eins og margir óttast, er erfitt að spá fyrir um hvað gerist í sambandi við fæðuöflun þorsksins. Leitar hann í aðra fiskstofna eða verður hann aðgangsharðari við þann loðnustofn sem eftir er? Fari svo mun hann ekki aðeins ganga á hrygningarstofninn, heldur herja meira en áður á smáloðnuna og þar með klippa á þá möguleika endurnýjunar loðnustofnsins sem fyrir hendi hafa verið.

Árið 1973 var talið að hrygningarstofn loðnunnar hefði verið um 4.5 millj. lesta og í jan. 1980 um 800 þús. lestir. Á síðasta ári var leyfður 617 þús. tonna aflakvóti og af því magni hafa veiðst um 500 þús. tonn ef þeir bátar, sem ekki hafa enn veitt upp í kvótann, fá að ljúka þeim veiðum. Ef loðnuveiðar hefðu hins vegar verið stöðvaðar í október s. l. hefði verið unnt að minnka kvóta nær allra skipanna og draga þannig úr tjóni einstakra báta. Það hefði einnig verið hægt að stöðva veiðarnar með öllu og reyna að bæta tjónið með einhverjum ráðum.

Herra forseti. Ég er nú að ljúka máli mínu. Það hefur komið fram, að ýmsir stjórnmálamenn og sjómenn hafa gert lítið úr rannsóknum fiskifræðinga og viljað fara fremur eftir brjóstvitinu og þekkingu sem auðvitað byggir á talsverðri reynslu. Fyrir hvoru tveggja ber ég virðingu, en ég tek einnig mark á fiskifræðingum. Eða til hvers notum við mikla fjármuni til rekstrar Hafrannsóknastofnunar og annarra skyldra stofnana ef brjóstvit og stjórnmálalegar ákvarðanir geta nær eingöngu ráðið ferðinni? Ég vil að þessum orðum sögðum beina þeim ákveðnu spurningum til hæstv. sjútvrh., hvað hann hyggst gera vegna þeirra skipa, sem ekki hafa veitt upp í kvóta sinn, hvort hans rn. hafi gert athuganir á afleiðingum hugsanlegs hruns loðnustofnsins, hverjar framtíðarhorfur séu í sambandi við loðnuveiðarnar að hans mati og hvort farið verði að tilmælum fiskifræðinga um stöðvun loðnuveiðanna. Það þolir enga bið að taka ákvörðun. Þetta mál varðar ekki eingöngu fiskifræðinga, sjútvrh., stjórnmálamenn og sjómenn, heldur afkomu þjóðarheildar.

Svo vil ég, herra forseti, þakka fyrir og þakka um leið hæstv. sjútvrh. að hann léði máls á að þetta mál yrði tekið til umr. í dag.