27.10.1981
Sameinað þing: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

34. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 6. þm. Norðurl. e. fyrir að vekja máls á þessu máli hér. Ég vil skýra frá því, að við höfum haft þetta mál til athugunar sérstaklega í heilbr.- og trmrn. Þær ákvarðanir, sem við höfum tekið til þess að skapa betri forsendur fyrir þá heildarstefnumótun sem hér er spurt um, eru einkum tvær: Í fyrsta lagi að gera úttekt á starfi þeirra stofnana, sem þegar eru til á vegum löggjafans og félagasamtaka og starfa að áfengismálum, og reyna að meta árangur af starfi þessara samtaka og stofnana á undanförnum árum. Í annan stað að gera úttekt á starfsemi og árangri þeirra meðferðarheimila sem eru til í landinu fyrir áfengissjúklinga, sem eru allmörg bæði á vegum ríkisins og á vegum félagasamtaka.

Að hinu leytinu höfum við tekið ákvörðun um að kanna sérstaklega, hvaða áhrif afskipti og meðferð fíkniefnadómstólsins svokallaða hefur haft á þá einstaklinga sem þar hafa átt við ákveðin vandamál að stríða og lent í fangelsi af þeim sökum, og að kanna hvernig þessu fólki hefur vegnað úti í þjóðlífinu eftir að dómur hefur fjallað um mál þess. Ákvörðun um þessa könnun er m. a. tekin í tengslum við fund félags- og heilbrmrh. Norðurlandanna sem verður haldinn í janúarmánuði n. k., þar sem á þessum málum verður tekið í heild.

Mér fannst rétt, herra forseti, í tilefni af þessari fsp. hv. þm. Árna Gunnarssonar að greina frá þessum atriðum.