02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2150 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

179. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Fyrirspyrjandi (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin og hans mál. Ég efast ekkert um góðan hug ráðh. í þessu efni. Ég þekki Ingvar Gíslason að því að þykja vænt um bækur og blöð og um íslenska menningu og þess vegna vil ég vænta alls hins besta af honum í þessu máli.

Hins vegar fannst mér koma fram — ég get ekki neitað því — harla lítill skilningur á þessum vanda, hvað hann er orðinn stór. Þvert ofan í það sem ég upplýsti um hillumetrana, sem talar nokkuð ljósu máli um þörfina á auknu húsnæði, telur hæstv. ráðh. að með tilkomu þjóðarbókhlöðu muni þetta verða vel viðunandi þegar Landsbókasafnið hverfur burt og Þjóðskjalasafnið fær allt gamla safnahúsið. Þetta er afskaplega fjarri lagi.

Ég er ekki, og þjóðskjalaverðir ekki heldur, að fara fram á að byggt verði í snarhasti heilt hús, en þeir fara fram á og krefjast þess, að það verði gengið í að setja ný lög og nýja reglugerð um varðveislu og umfram allt grisjun skjalanna til að bjarga frá frekara öngþveiti þessum menningarverðmætum sem vissulega eru þarna annars vegar. Að sjálfsögðu kostar peninga að byggja hús. Þetta hús, sem við stöndum í núna og er 100 ára í ár, var byggt fyrir öld, tók tvö ár að byggja eftir að ákvörðun var tekin um að það skyldi byggt. Gamla safnahúsið við Hverfisgötu, sem komst úr jörðu 1905, tók þrjú ár að byggja frá því að ákvörðun var tekin um að það skyldi gert. Kannske er skýringin sú, að þá vorum við undir danskri stjórn. Nú erum Íslendingar ráðandi okkar málum, í menningarmálum sem annars staðar, og það er dálítið hryggilegt, eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir tók fram, hvað menningarmálin koðna niður mikið á hv. Alþingi í eilífu og endalausu þrasi um efnahagsvandamál og vísitöluleik. Vissulega kemur þetta mál ekki beint inn í vísitöluna, eins og kjöt og kartöflur, en það hefur sína þýðingu samt. — Og að því er Þjóðarbókhlöðuna varðar: Hvar væri hún stödd ef ekki hefði verið haft nokkuð hátt um hana á Alþingi fyrir einum fjórum árum? Vanefndir Alþingis í því máli voru dapurlegar. Því er á þetta minnst nú, að Alþingi vakni til meðvitundar um að hér er úrbóta þörf og hér er ekkert hégómamál annars vegar. Það er fleira matur en feitt kjöt. Það er fleira, sem við þurfum að huga að, en smíði og kaup á skuttogurum og hraðfrystihúsum. Það veit ég að hv. alþm. er ljóst, og því er þessu máli hreyft hér, að það er alveg óumflýjanleg nauðsyn að hér verði gert myndarlegt átak, fyrst með því að hv. menntmrn. og hæstv. menntmrh. taki á sig rögg og fari í gegnum þessi miklu plögg og ágætu tillögur og semji lagafrv. og reglugerð sem henti nútímaaðstæðum.

Ég þakka fyrir að ég hef fengið orðið hér. Við verðum að hefja róðurinn strax í þessu máli ef við ætlum ekki að verða alveg úti á gaddinum að því er varðar vörslu okkar embættisskjala, sem mörg hver hafa bæði menningarlegt og sögulegt gildi. En hitt er ekki síður mikilvægt, að við fleygjum því sem fleygja má. — Við fiskum ekki nema við róum og þess vegna þurfum við að fara strax af stað í þessu máli.