02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2151 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

179. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Sannleikurinn er sá, að ég tel nú að ég sé róinn, að við séum á leiðinni til þess að leysa þessi mál sem hér hafa sérstaklega verið til umr.

Ég vil undirstrika það, sem ég var að segja áðan, að ég tel að það sé markvisst að því unnið að bætt verði úr húsnæðisvanda Þjóðskjalasafnsins. Aðalþátturinn í því er vitanlega sá, að við komum upp Þjóðarbókhlöðunni á eðlilegum tíma. Ég er reyndar ekki bjartsýnni en svo, að ég reikna varla með að það verði fyrr en eftir fjögur ár. Það eru nú hvorki meira né minna en upp undir þrjátíu ár síðan byrjað var að tala um að reisa þyrfti Þjóðarbókhlöðu. Dálítið kann ég fyrir mér í sögu þess máls, og það er ekkert sérstaklega glæsileg saga. Alþingi og ríkisstj. þurfa ekkert að státa sérstaklega af því hvernig á þeim málum var haldið lengi vel. Þrátt fyrir mjög góðan og ákveðinn vilja margra þeirra, sem reynt hafa að leiða það mál, bæði innan ríkisstjórnar og annars staðar í þjóðfélaginu, hefur því miður allt of mikið skort áhuga á þessu byggingarmáli. Þjóðarbókhlöðunni hefur oft verið skotið til hliðar þegar mönnum hefur fundist illa ára eða eitthvað slíkt. Því er nú það, að hún er miklu seinna á ferðinni en til stóð. Og það er m. a. ein ástæðan fyrir því að ekki er komið lengra í málefnum Þjóðskjalasafns. Ég undirstrika það og ég tel að það sé höfuðnauðsyn að alþm. átti sig á því, að að málum þessara tveggja stofnana, Landsbókasafns og Þjóðskjalasafns, verður að huga í sameiningu og að við leysum þessi mál nokkuð í sameiningu. Þó að hv. fyrirspyrjandi af einhverjum ástæðum sé svartsýnn á að dugi Þjóðskjalasafni mikið að fá allt safnahúsið er ég honum ekki sammála um þetta. Ég held að menn verði að gæta sín nokkuð í fullyrðingum um að það muni ekki um það þegar Þjóðskjalasafnið, sem hírist þarna í horni í húsinu, eins og menn vita, fær allt þetta fallega og myndarlega hús til afnota með þeim möguleikum, sem fyrir hendi eru að auki, að leigja þokkalegt geymslupláss hér í borginni.

Ég vil að það komi alveg skýrt fram, að mitt álit er að við getum allvel við það unað, þegar losnar um þetta húsnæði þannig að Þjóðskjalasafn fái það allt til sinna afnota. En ég endurtek það líka, að það er ekki víst að það húsnæði, sem kemur til með að losna eftir 4–5 ár í Safnahúsinu, endist von úr viti eða um aldur og ævi. Það getur vel farið svo, að eftir vissan tíma, segjum 10, 12 eða kannske 15 ár, verði að fara að huga að nýbyggingu fyrir Þjóðskjalasafnið. Svo má vel vera, en ég held að eins og horfir nú séu tiltölulega bjartar horfur, a. m. k. ef miðað er við mörg undanfarin ár og áratugi, í málefnum þessa safns. Hitt er líka alveg rétt, að það þarf að huga að fleiru en byggingunni. Það er nauðsynlegt, eins og fyrirspyrjandi og reyndar aðrir ræðumenn sem hér hafa talað hafa lagt mikla áherslu á, að endurskoða sjálf lögin sem um Þjóðskjalasafnið gilda. Eins og hætt er nú við um löggjöf á svona hraðfleygum tímum sem við lifum eru þessi lög orðin ansi mikið úrelt. Það er hverju orði sannara. Og hitt er líka satt, að það hefur aldrei verið samin í menntmrn., frá því að lögin voru sett 1969, reglugerð um starfsemi safnsins. Þetta er auðvitað annmarki á framkvæmd laganna og engin ástæða til annars en að menn finni að því þegar um þessi mál er rætt. Mér er því fyllilega ljóst að það þarf að endurskoða þessi lög. Þó góð hafi verið vafalaust á sinni tíð þarf að endurskoða þau. Það var einmitt markmiðið með skipun nefndarinnar haustið 1980 sem skilaði svo af sér nú á haustdögum 1981, að hún ynni að uppkasti að löggjöf um þetta, og það hefur verið gert. Þessi drög nefndarinnar eru til athugunar. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan tel ég að í þeim drögum eða því áliti, sem frá nefndinni er komið, sé að finna mjög margar góðar tillögur um framtíðarrekstur Þjóðskjalasafnsins. Þetta vil ég að komi fram. Eigi að síður held ég að það þurfi að hyggja þarna betur að, og ég hef talið eðlilegt að leita út fyrir landsteinana um ráðleggingar í þessu efni og m. a. viljað fara eftir ábendingum nefndarinnar sjálfrar um, hvaða menn kæmu þar til greina, og þá ekki síst Harald Jörgensen, sem nefndin hefur haft góð kynni af og mælt með að legði á ráð um framtíðarlagasetningu í þessum efnum.

Ég tel að þessi mál séu í góðri athugun og að innan ekki allt of margra ára muni verulega rætast úr um húsnæðismál Þjóðskjalasafns. Við skulum vona að áður en sú stund kemur, segjum að það verði 4–5 ár, verði líka búið að setja lög sem hæfa þessum rekstri. Vona ég satt að segja að okkur gefist góður tími til að vinna það verk. Þau mál eru í undirbúningi.