03.02.1982
Sameinað þing: 47. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2205 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

354. mál, efnahagsmál

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er rík ástæða til að taka undir þau orð sem ræðumenn hafa látið falla fyrr í dag um viðveru ráðh. í þessum virðulega sal. Það er sannast að segja til háborinnar skammar fyrir þingið hvernig hæstv. ráðh. gegna þingskyldu sinni. Ráðh. jafnt sem þingmenn hafa viðveruskyldu í þessum sal þegar hér eru fundir og umr. fara fram. Ég held, í ljósi þeirra orða sem hafa verið sögð í dag úr þessum ræðustól, að óhjákvæmilegt sé að hæstv. forseti minni ráðh. á þá tvímælalausu skyldu sem þeim ber til að sitja hér í þingsal þegar þingfundir eru haldnir. (Gripið fram í: Þeir eru að bjarga virðingu Alþingis.) Ég held að virðingu Alþingis verði hvergi bjargað af þeim ágætu mönnum sem nú skipa ráðherrasæti í þessari ríkisstj. Það má vera að þeir hafi uppi einhverja tilburði til þess, en ég held að þar muni þeir ekki hafa árangur sem erfiði.

Herra forseti. Það er kannske ekki ástæða tif að halda mjög langa tölu um þá skýrslu frá ríkisstj. um aðgerðir í efnahagsmáum sem er til umr. á þessum fundi. Það má vitna til greinar sem hv. 12. þm. Reykv., Guðmundur G. Þórarinsson, einn af gleggri stuðningsmönnum þessarar hæstv. ríkisstj., skrifar í Dagblaðið í dag, en greinin ber fyrirsögnina: „Hvað þýða efnahagsráðstafanirnar?“ Mér finnst sannast að segja ekki nema von að hv. þm. spyrji.

Það er auðvitað löngu orðið lýðum ljóst, að framsóknarmenn innan þessarar ríkisstj. eru ekki aðeins ráðalausir, heldur ráðvilltir. Þeir töluðu um árið mikið um niðurtalningu. Niðurtalning var á oddinum, hét það. Nú hefur reyndar komið rækilega í ljós að framsóknarmenn geta ekki talið niður. Raunar kom í ljós þegar þeir höfðu prófkjör til borgarstjórnarkosninga hér í Reykjavík að þeir gátu ekki heldur talið upp. Kom það mönnum kannske aðeins meira á óvart, en hitt var vitað fyrir.

Niðurstaðan í grein hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar um efnahagsráðstafanir ríkisstj. er sú, að nú hafi átakspunkturinn færst til. Það er það sem vannst við allt það sem unnið var. Átakspunkturinn færðist til! Hann segir líka, og það eru hans lokaorð í þessari grein: „Það verður að endurmeta alla stöðuna eftir þrjá mánuði.“ Telst nú til tíðinda að einn af ráðh. Alþb., hæstv. félmrh. Að vísu er hann ekki kominn í salinn, en er þó í sjónmáli og heyrir væntanlega það sem hér fer fram. (Gripið fram í: Komdu blessaður.) Ég er búinn að heilsa hæstv. ráðh. og bjóða hann velkominn, en hins vegar ítreka ég það sem ég sagði áðan, að það er til skammar fyrir Alþingi og ráðh. hvernig þeir gæta þingskyldu sinnar og vissulega ástæða til að forseti vandi um við þá þegar þeir gæta ekki skyldu sinnar.

Það eru nú senn tvö ár síðan þessi hæstv. ríkisstj. settist á valdastóla og hún hefur lifað tvö gamlárskvöld. Ég hygg að það hafi ekki farið fram hjá nemum manni með hve ólíkum hætti þessi tvö gamlárskvöld þessarar ríkisstj. voru. Hið fyrra skiptið kom hæstv. forsrh. og las landsmönnum langloku í sjónvarpi þar sem upp voru talin ein þrjátíu atriði efnahagsmálaáætlunar, sem svo var kölluð. En af þeim atriðum stendur næsta fátt eftir. Hið eina, sem eftir stendur, eru þau 7% sem launafólki var gert að fórna á altari þessarar ríkisstj. Ég hygg að menn geti leitað með logandi ljósi í þessum lista um efnahagsaðgerðir ríkisstj. og þeir finni þar næsta fátt sem framkvæmt hefur verið eða gert hefur verið. Ég vitna til upptalningar sem birt var í janúarhefti tímarits Seðlabankans. Þar stendur sem 1. liður: „Gengissigi verður hætt um áramót og gengi krónunnar haldið stöðugu næstu mánuði.“ Í þessu sama riti, Hagtölum mánaðarins, sem út kom í desember 1981, segir: „Á þessu ári hefur gengi krónunnar verið lækkað fjórum sinnum.“ Var þá eftir fimmta gengisbreytingin á tólf mánuðum, sem var þeirra miklu mest.

Í stjórnarsáttmála þessarar hæstv. ríkisstj. segir auðvitað sitthvað sem hér væri ástæða til að vitna til og verður gert hér á eftir, þó svo að heldur hafi verið hljótt um að ráðh. og stuðningsmenn ríkisstj. hafi vitnað í þennan sáttmála. Gengið var fellt fimm sinnum á tólf mánuðum, en í stefnuræðu sinni 22. okt. 1981 sagði hæstv. forsrh. orðrétt, með leyfi forseta: „Gengi íslensku krónunnar hefur ekki verið jafnstöðugt um langt árabil. Ríkisstj. stefnir áfram að stöðu gengi íslensku krónunnar.“ — Þetta heitir líklega að standist á orð og efndir. Stangist á, ætti líklega frekar að segja.

Það stendur sem sagt næsta fátt eftir af því sem hæstv. forsrh. las yfir landslýð á gamlárskvöld 1980. En þegar svo rann upp gamlárskvöld 1981 og hæstv. forsrh. birtist þjóðinni á skjánum, þá stund sem flestir landsmenn hlusta líklega á sinn leiðtoga, varð niðurstaðan sú, að hæstv. forsrh., aldrei þessu vant, var orða vant. Hann hafði ekkert að segja. Ég lái honum það svo sem ekki því innan ríkisstj. var ekki samkomulag um eitt eða neitt. Þegar hæstv. forsrh. var búinn að tala í 12 mín. kom hlé. Síðan leið og beið og ríkisstj. lagði fram tillögur sínar í efnahagsmálum: Skýrsla frá ríkisstj. aðgerðir í efnahagsmálum. Það er svo sem eins og fyrri daginn að þar er ákaflega lítið og kannske minna en nokkru sinni sem hönd verður á fest. Hér er þokukennt orðalag sem segir nánast ekki neitt. Ég vil mælast til þess við hæstv. forsrh., að hann skýri nánar hvað felst í þeirri setningu, sem ég nú vitna til, en hún er svona, með leyfi forseta: „Með sérstökum aðgerðum í peningamálum mun ríkisstj. reyna að tryggja, að þessi þáttur efnahagslífsins“ — þ. e. peningamál — „stuðli að auknu jafnvægi og hjöðnun verðbólgu. Áætlanagerð um peningamál verði notuð í því skyni, að þróun helstu peningastærða miðist við þann ramma, sem efnahagsstefna og markmið ríkisstj. mynda.“

— Hvernig ber að skilja þetta, hæstv. forsrh.? Síðan segir: „Aðhald í peningamálum verði aukið með ýmsum ráðstöfunum og látið ná til allra þátta, sem áhrif hafa á þróun útlána og peningamagns.“

Í kafla um erlendar lántökur segir: „Stefnt verður að því að auka innlendan sparnað til þess að draga úr þörf á erlendum lánum“. — Ég beini því til hæstv. forsrh., að hann upplýsi þingheim og þjóðina um hvernig þetta verður gert.

Sé nú vikið að erlendum lántökum er komið að sérstökum kafla í starfi þessarar ríkisstj., sem ástæða er til að fara nokkrum orðum um. Ég sagði áðan að ástæða væri til að vitna í stjórnarsáttmálann. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens segir svo, með leyfi forseta, á bls. 6:

„Erlendar lántökur verði takmarkaðar eins og kostur er og að því stefnt, að greiðslubyrði af erlendum skuldum fari ekki fram úr um það bil 15% af útflutningstekjum þjóðarinnar á næstu árum. Efri mörk erlendrar lántöku verði þó ákveðin nánar með hliðsjón af eðli framkvæmda með tilliti til gjaldeyrissparnaðar og gjaldeyrisöflunar.“

En hver er staðan í þessum efnum í dag? Jú, það stefnir í að greiðslubyrði af erlendum skuldum nálgist 20% af útflutningstekjum Íslendinga. Ég held að það fari ekkert á milli mála að þessi þróun er hættuleg, og er þá vægt til orða tekið. En það, sem er þó öllu alvarlegra og ískyggilegra er hvernig sívaxandi hluti hinna erlendu lána fer til eyðslu og minnkandi hluta til framkvæmda til þjóðhagslega arðbærra framkvæmda. Ef erlendu lánin á þessu ári verða 2250 millj. eða þar um bil, þá fara rétt innan við 1000 millj. í afborganir af eldri lánum, 980. Eftir standa þá 1270 millj. eða þar um bil. Til framkvæmda fara 820 eða því sem næst, en í eyðslu og rekstur fara 444 millj. Þetta hefur ekki gerst áður né heldur hefur það gerst að greiðslubyrði erlendra skulda verði svo hátt hlutfall af útflutningstekjum sem nú stefnir í. Þetta gerist þrátt fyrir þá staðreynd, að í stjórnarsáttmálanum segir allt annað.

Þetta er bara eitt dæmi um að á mis fari orð og efndir hjá núv. ríkisstj. Það er af nógu að taka í stjórnarsáttmálanum. Það má víða bera niður. Það má t. d. minna á upphafssetningu stjórnarsáttmálans um hjöðnun verðbólgu, sem þessi ríkisstj. samkv. yfirlýsingum hæstv. forsrh. var mynduð til að vinna að. „Ríkisstj.,“ segir hér, með leyfi forseta, „mun vinna að hjöðnun verðbólgu, þannig að á árinu 1982“ — þ. e. þessu herrans ári — „verði verðbólgan orðin svipuð og í helstu viðskiptalöndum Íslendinga“. — Það er nú aldeilis öðru nær.

Framan af árinu 1981 miðaði nokkuð í viðureigninni við verðbólguna, en það má segja sem svo, að það hafi verið þrátt fyrir ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens, en ekki vegna hennar, vegna þess að allt, sem gerðist í verðbólgumálum, ef undan eru að vísu skilin 7% sem tekin voru af launþegum, var fyrir tilstilli utanaðkomandi áhrifa og var kannske ekki síst fyrir tilstilli jafnaldra hæstv. forsrh. fyrir vestan haf, Reagans Bandaríkjaforseta, þegar Bandaríkjadollar styrktist og hafði þar með mjög hagstæð áhrif á efnahagsþróun hjá okkur. Það var sem sé ekki vegna eins eða neins sem þessi ríkisstj. gerði sem gekk í haginn framan af ári. En ég hygg að menn hiki við að hugsa þá hugsun til enda, hvernig farið hefði hér ef þessarar styrkingar dollarans hefði ekki notið við. Það væri fróðlegt að fá sundurgreiningu hinna færustu hagfræðinga á því, hver hefði orðið þróunin hér ef dollarinn hefði ekki haldið áfram að styrkjast með þeim hætti sem hann gerði einkanlega fyrri hluta ársins 1981.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, herra forseti, er svo sem ekki mikil ástæðu til að fara mörgum orðum um þessa skýrslu frá ríkisstj. um aðgerðir í efnahagsmálum því hún er svo sem hvorki fugl né fiskur. Þar er með almennu orðalagi vikið að ýmsum vandamálum, en það er alveg hárrétt, sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson segir í Dagblaðinu í dag, að þetta eru bráðabirgðaráðstafanir til þriggja mánaða og eftir þrjá mánuði verður að endurmeta allt. Það er nákvæmlega eins og þessi ríkisstj. hefur til þessa starfað. Þar hefur ekki verið eining um eitt eða neitt. Enginn er að tala um að það sé hægt að leysa þessi vandamál í eitt skipti fyrir öll. Auðvitað dettur engum í hug að halda slíku fram. En svolítið lengra fram á veginn mætti þó horfa en tekist hefur í þessari ríkisstj., þar sem hæstv. ráðh. virðast sammála um það eitt að sitja og að sitja sem lengst.

Þeir hrósa sér af því að kaupmátturinn hafi haldist. Það hefur komið fram í þessum umr. og verið vitnað til óyggjandi talna frá Kjararannsóknarnefnd, að kaupmáttur hefur haldist með þeim hætti að vinnutími verkamanna hefur lengst um tvær klukkustundir á viku. Auðvitað er lengi hægt að halda kaupmætti ef vinnutíminn er lengdur. Þetta hefur verið sýnt fram á hér með tölum frá Kjararannsóknarnefnd og ég ætla ekki að fara að endurtaka það.

Ríkisstj. hefur gumað af því í hvert einasta skipti nánast sem ráðh. opna munninn í fjölmiðlum, að henni hafi tekist að halda fullri atvinnu. Það er út af fyrir sig rétt. Við eigum ekki við það böl að búa sem atvinnuleysið er í grannlöndunum í kringum okkur. En þetta er líka orðaleikur með nokkrum hætti, vegna þess að fólksflutningar úr landi hafa numið þriðjungi fólksfjölgunarinnar og stundum heldur betur. Við höfum því flutt atvinnuleysi okkar til grannlandanna hér í kring. Hvernig skyldi vera ástatt hér ef ekki hefðu verið þessir miklu fólksflutningar — þessi fólksflótti sem sumir vilja svo nefna? Hvernig væri þá ástandið í atvinnumálum hér? Ég er hræddur um að það væri ekki glæsilegt. Það er því þrátt fyrir þessa ríkisstj. sem hér hefur verið full atvinna, en ekki vegna hennar, vegna þess að ég geri ráð fyrir að margt af þessu fólki hafi einmitt flust úr landi kannske fyrst og fremst og ekki síst vegna stjórnarstefnunnar.

Ég hef vikið hér nokkrum orðum að efnahagsmálum almennt. En hvar er afrekalisti ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens í öðrum efnum? Hvar er afrekaskráin í virkjunarmálum? Hún hefur ekki séð dagsins ljós. Hvar er afrekaskráin í menntamálum, menningarmálum? Hvað hefur verið gert á því sviði? Jú, það má kannske minna á eitt. Þegar hver þm. á fætur öðrum kemur í þennan ræðustól og bendir ráðh. menntamála og dómsmála á að lögbrot séu framin með sýningum í heimildarleysi á alls kyns efni í svokölluðum myndbandakerfum, hvað gerist þá? Hæstv. ráðh. koma í þennan ræðustól og segja að það geti ekki verið því að það hafi enginn hringt í lögregluna! Síðan hefur það gerst, að nefnd, sem hæstv. menntmrh. skipaði, hefur lýst yfir að hér sé um margföld lögbrot að ræða, ekki á einum lögum, heldur tvennum, þrennum og kannske fernum.

Þegar saga þessarar hæstv. ríkisstj. verður skráð verður hún því ekki löng, þó svo að ríkisstj. auðnist kannske að sitja út þetta kjörtímabil. Það er aldrei að vita vegna þess að það virðist vera það eina sem verulegur einhugur er um, og hæstv. forsrh. hefur langa reynslu sem stjórnmálamaður, lengri reynslu en nokkur þeirra sem hér eiga sæti. Hann er vel til þess vís að halda þessu saman vegna þess að hér er nánast haldið utan um ekki neitt, eins og verið hefur fram til þessa, vegna þess að þessi ríkisstj. hefur hvorki gert eitt né neitt.