04.02.1982
Sameinað þing: 48. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2236 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

146. mál, nafngiftir fyrirtækja

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vildi þakka hv. 8. landsk. þm. fyrir að vekja athygli á þessu og bera fram þá fsp. sem þm. hefur nú gert um nafngiftir á fyrirtækjum. Ég vil líka segja frá því, að skömmu fyrir jól barst allshn. Nd. erindi þar sem vakin var athygli á sögu löggjafar í þessum efnum, efnislega mjög í þá veru sem hv. þm. gerði grein fyrir í framsögu með þessari fsp. Á vegum allshn. Nd., í framhaldi af því erindi sem nefndinni barst, hefur farið fram umræða og athugun á því, hvort mögulegt sé að á vegum nefndarinnar verði lagt fram lagafrv. sem feli í sér að komið verði í veg fyrir nafngiftir á atvinnustarfsemi sem falli ekki að málkerfi íslensks máls. Umr. um þetta hefur nú um nokkurra vikna skeið farið fram í nefndinni. En eins og hæstv. ráðh. gat um eru margháttaðir erfiðleikar á framkvæmd þessari. Hæstv. ráðh. nefndi það t. d., að skráð fyrirtæki, sem eru skráð með alíslenskum nöfnum, reka hins vegar atvinnustarfsemi sem ber erlend nöfn. Þetta hefur í framkvæmd valdið verulegum erfiðleikum. Um leið og ég greini frá þessari umræðu á vegum nefndarinnar vil ég láta það í ljós sem mína persónulegu skoðun, að mikil ómenning hefur hlotist af þessum erlendu nöfnum, enda ástæðulaust með öllu og oftar en ekki smekklaus.

Þessi umræða og athugun hefur farið fram á vegum nefndarinnar og eru til drög að frv. Von mín er sú, að á vegum allshn. verði hægt að leggja fyrir Alþingi frv. í þessa veru þar sem þessi sjónarmið komi fram.