04.02.1982
Sameinað þing: 49. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2259 í B-deild Alþingistíðinda. (1905)

151. mál, landgræðslu- og landverndaráætlun 1982--86

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í deilur um gróðurnýtingu og ofbeit sem hér hafa farið fram, reyndar út af annarri till., milli ýmissa góðbænda hér á hv. Alþingi og Grænlandssérfræðings Alþfl. hins vegar. En ég verð að segja það, að mér líkaði miklu betur þessi ræða hv. 3. þm. Vestf. en Grænlandsrímur hans um daginn, enda las hann núna upp úr skýrslum og fór þar vel með, þó að ég vilji undanskilja tilvitnunina í þann ágæta mann Hákon Bjarnason sem mér skildist að hefði viljað leggja honum lið, en engu að síður ætlað að leggja á hann þá refsingu fyrir ummæli sín að láta hann hafa leiðinlegustu lesningu, sem hann hefur látið frá sér fara, og skylda hann til að lesa hana, og er þó af miklu að má þar. (SighB: Ég las ekkert úr henni.) Nei enda forðaðist hann að taka út refsinguna í þessum ræðustól.

Hins vegar hefði verið skemmtilegt að fá þann hluta. Ég segi það og vil taka það skýrt fram, að ég undanskil þessa tilvitnun í Hákon Bjarnason eingöngu af einni ástæðu, ekki af því að ég viti ekki og viðurkenni að hann sé hinn mætasti maður okkar varðandi ákveðinn þátt gróðurverndar og gróðuraukningar, heldur einfaldlega af því að ég treysti honum ekki og hef aldrei treyst sem hinum hlutlausa dómara þegar sauðkindin er annars vegar. En þökk sé honum fyrir störf hans að öðru leyti. Það er önnur saga og úr henni dreg ég ekkert.

Ég vona hins vegar að miðað við þessa síðustu ræðu og þá skýrslugerð, sem hv. þm. las upp, fari það nú svo, að áður en lýkur afgreiðslu þessarar till. muni allir þessir aðilar ná saman, svo sem menn hafa náð saman um þessa till. hér. Ég held nefnilega að það sé full ástæða til að fagna þeirri eindrægni allra flokka, sem fram kemur í þessari till., því að oft hafa um gróðurnýtingu og gróðureyðingu staðið miklar deilur, og ég er ekki að rekja þær hér. Hér er leitast við að ná saman öllum þeim aðilum sem hvort tveggja gildir um að eiga í raun og veru að hafa samleið, en hafa um leið átt í nokkrum hnippingum á árum áður. Hv. 3. þm. Vestf. gerði mér einmitt þann greiða að koma nokkuð inn á þær hörðu hnippingar áðan þegar hann vitnaði í þann ágæta mann Hákon Bjarnason.

Það er óumdeilt þjóðarverkefni að vernda gróður, verja hann eyðingu, bæta landið, auka fjölbreytni í gróðri, klæða landið þeim skógi einnig sem unnt er og þar sem árangur næst. Um það þarf því engin orð að hafa við þessa umr. Það hefur verið tekið fram áður. Það er svo sjálfsagt að ekki þarf um það að hafa nein frekari orð.

Ég tek undir það með hv. 2. þm. Norðurl. e., að ég fagna sérstaklega 5. lið þessarar till. Þar er komið inn á verkefni sem eru sannarlega á réttum stað hér, þ. e. framkvæmdir til að verjast landbroti og landskemmdum vegna ágangs vatna eða sjávar. Þar hafa menn ekki gætt að sér sem skyldi á undanförnum árum og jafnvel tekið önnur verkefni fram yfir sem hefði átt að leggja til hliðar eða a. m. k. geyma um stund meðan að því stóra verkefni er unnið. Það er náttúrlega hlálegt að horfa á að verið sé að reyna að vinna land á einum staðnum á meðan það eyðist annars staðar af völdum vatnaágangs.

Ég legg mikla áherslu á samvinnu allra þeirra aðila sem till. fjallar um. Það er höfuðnauðsyn að verkefni þeirra séu sem best samræmd og þjóni sem best þeim aðaltilgangi sem till. lýtur að. Ég veit um góðan vilja margra okkar, og ég vænti þess því, að rn. tryggi að samstaða og samvinna allra þessara aðila verði sem raunhæfust. Þannig nýtist þetta fjármagn sem best. Og ég segi það alveg hiklaust hér, að ég hygg að fáir séu vænlegri til að leiða þessa aðila saman og laða þá saman til samvinnu en einmitt hæstv. núv. landbrh.

Í framhaldi af þessu hlýtur svo að koma upp fjármagnshliðin sem kemur auðvitað inn í myndina og hefur verið rædd hér og ég ætla ekki að fara inn á nánar. Sumum þykir, e. t. v. með réttu, að fjármagnið sé of lítið. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það kann að vera satt og meira en satt. En mestu gildir þó hvernig fjármagnið er nýtt, hversu því er varið. Um það, hvort fjármagn liðinna ára í sambandi við landgræðsluáætlanir hafi nýst í öllum greinum sem allra best, vil ég ekki fullyrða neitt, en um það hefur stundum verið deilt og inn á það var komið áðan af hv. síðasta ræðumanni. Það er áreiðanlegt, að því fjármagni hefði á margan hátt mátt verja betur. Ég vænti þess, að svo verði því fjármagni varið sem till. gerir ráð fyrir, að um það þurfi engar deilur í framtíðinni, svo ótvírætt verði um skynsamlegustu nýtingu að ræða. Þó að fjármagnið sé miðað við þjóðartekjur okkar og miðað við okkar fjölþættu verkefni nokkuð ríflegt, þá er það ekki meira en það, að full ástæða er til að nýta það þarna eins vel og annars staðar þar sem við þurfum að huga ekki síður að því, hvernig við förum með fjármagnið, en til hvers við veitum það.

Frumhvatar þessarar till. eru landgræðsla, landvernd og gróðurvernd, og fjármagnið, sem hér er ráð fyrir gert að renni til þessara verkefna, er mikils virði. Það getur orðið og það verður án efa mikilvægur áfangi í átt til þess meginmarks að gera land okkar gróðursælla en það nú er, gera gróðurlendið enn stærra, stækka gróðurlendið enn, gera það enn betra en það er og skila framtíðinni þannig betra og dýrmætara landi en nú er. Það er mark þessarar till. og þar af leiðandi, einmitt af þeim ástæðum, held ég að Alþingi allt sé sammála tillögunni.