08.02.1982
Neðri deild: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2278 í B-deild Alþingistíðinda. (1927)

172. mál, olíugjald til fiskiskipa

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og kemur fram í nál. 1. minni hl. sjútvn. var fulltrúi Alþfl. í nefndinni, hv. 6. landsk. þm., ekki viðstaddur fundinn. Ég vil aðeins að fram komi að ástæðan til þess var að hv. þm. Karvel Pálmason hafði fjarvistarleyfi þennan dag og daginn áður vegna samningafunda vestur á fjörðum og var þangað kallaður af sáttasemjara ríkisins. Þessi ástæða kemur ekki fram í nál. 1. minni hl., sem ég tel þó nauðsynlegt að fram hefði komið. Enn fremur teldi ég mjög æskilegt, þegar þm. hafa fjarvistarleyfi og það er tilkynnt formlega úr forsetastóli og mál af þessu tagi eru til meðferðar í nefndum þingsins, að þingflokkunum verði gert viðvart um að fundur sé haldinn til þess að þingflokkum gefist þá kostur á að senda annan fulltrúa til nefndarfunda í stað þess þm. sem fjarvistarleyfi hefur. Þessari ósk vildi ég koma á framfæri bæði við hæstv. forseta og við formenn nefnda hér í þinginu.

Um það mál, sem hér er til meðferðar, er það eitt að segja, að við ræddum það sérstaklega í þingflokki Alþfl. strax og frv. var lagt fram. Við skulum hafa það í huga, að hæstv. sjútvrh. gaf sjálfur á s. l. ári — og ekki einu sinni, heldur margoft — bæði yfirlýsingar og loforð um að þetta gjald yrði afnumið. Í desembermánuði, í sambandi við umræður um ákvörðun fiskverðs sem þá fóru fram, tóku bæði hann og þó sérstaklega hæstv. viðskrh. og formaður Alþb. það sérstaklega fram, að þeir vildu að þetta gjald yrði afnumið. Hins vegar virðist það vera svo með yfirlýsingar Framsfl., sem sérstaklega formaður flokksins er óspar á að gefa og raunar margir aðrir flokksbræður hans, að þær lýsa engu öðru en góðum vilja, það að þeir eru allra manna fyrstir til að sporðrenna öllum sínum yfirlýsingum og markmiðum ef Alþb. segir þeim að gera það. Hvort Alþb. hefur í þessu tilviki gefið Framsfl. tilskipun skal ég ekkert um segja, en ráðherrar og einstakir þm. Framsfl. — og þá nokkrir úr þeim hópi öðrum fremur — hafa undanfarin tvö ár ýmist úr þessum ræðustól, á fundum í flokki sínum eða í blaðagreinum, bæði í eftirmiðdagsblöðum og Tímanum, verið að gefa alls konar yfirlýsingar um hvað þeir hygðust gera, hvernig þeir hygðust framkvæma kosningaloforð sín, standa við orð sín við kjósendur og hvernig þeir ætla að framkvæma margumrædda niðurtalningarstefnu sina. En það hefur verið alveg föst regla, að þeir hafa aldrei reynst menn til að standa við þessar yfirlýsingar sínar og þessi loforð sín þegar á hefur reynt að ríkisstj. léti til sín taka. Í þessi tvö ár, hvern einasta mánuð í tvö ár hafa framsóknarmenn ekkert gert annað en að sporðrenna eigin yfirlýsingum. Þetta er farið að nálgast gamanleik, að ávallt þegar kemur upp einhver vandi í þjóðfélaginu geysast nokkrir Framsóknarþm. fram á völlinn með alls konar yfirlýsingar um að nú þurfi endilega að fara að taka á málunum eins og þeir hefðu lagt til fyrir kosningarnar 1979, nú þurfi endilega að fara að hefja niðurtalninguna, það eigi að gera það svona og svona og svona, og Framsfl. hafi lagt þessa tillöguna og hina tillöguna fram fyrir ríkisstj. En síðan ekki söguna meir, síðan gerist ekki neitt.

Ýmsir þeirra framsóknarmanna, sem mest tala um þessi mál og þá sérstaklega hæstv. viðskrh. og hv. þm. Halldór Ásgrímsson ásamt hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni, halda að það sé alveg nóg að það komi fram einhvers staðar á prenti, annaðhvort í þingtíðindum eða þá í Tímanum eða í grein í Dagblaðinu, hvað þeir mundu hafa viljað gera ef þeir hefðu fengið að ráða. M. ö. o.: þeir láta sér nægja yfirlýsingar, annaðhvort héðan af Alþingi, í Tímanum eða í Dagblaðinu og Vísi, um hvað Framsfl. hefði viljað ef einhver í ríkisstj. hefði tekið mark á vilja flokksins. Síðan gera þessir menn ekki nokkurn skapaðan hlut til þess að fylgja því eftir, að tillögum þeirra sé sinnt.

Staðreyndin er nefnilega sú, herra forseti, að þegar Framsfl. þarf að velja annars vegar á milli eigin tillagna og hins vegar þjónkunarinnar við Alþb., þá kastar hann jafnvel eigin tillögum og vilja alltaf fyrir björg. Þeir framsóknarmenn eru svo sannfærðir um að þeirra verkefni í pólitíkinni sé að vera nokkurs konar gólftuska handa Alþb. til að þurrka af sínum óhreinu fótum á, að þegar að því kemur að framsóknarmenn þurfi að velja á milli eigin stefnu, milli eigin yfirlýsinga annars vegar og vilja Alþb. hins vegar, þá skal vilji Alþb. ávallt fá að ráða. Núverandi foringjar Framsfl. hafa staðið í því svona fjórum sinnum á ári að meðaltali, ávallt þegar kemur að vísitöluútreikningum, sem eru gerðir þriðja hvern mánuð, að skiptast á um það að mæta til leiks í fjölmiðlunum með allar yfirlýsingarnar, með öll loforðin, með öll hástemmdu lýsingarorðin um hvað felist í niðurtalningunni. En þar við er látið sitja. Síðan gerist ekki neitt, ekki nokkur skapaður hrærandi hlutur. Það má því eiginlega ganga út frá því sem gefnu að það sé nokkurn veginn vitað fyrir fram, um leið og framsóknarmenn kveðja sér hljóðs um vanda í efnahagsmálum, að það, sem þeir leggja til, verði ekki gert. Menn geta eiginlega bókað jafnsnemma og framsóknarmenn taka til máls í Tímanum, hér á Alþingi eða í Dagblaðinu og Vísi um einhver efnahagsúrræði, að það, sem þar kemur fram, er það sem ekki verður gert.

Nú er verið að ræða um að átakspunktur hafi verið fluttur til um nokkra mánuði. Nú er verið að tala um ýmis vandamál í okkar þjóðarbúskap, samning um álver og fleira slíkt. Og nú ræða framsóknarmenn um það sin á milli að þeir þurfi endilega að fara að skrifa greinar í Dagblaðið og Tímann, nú þurfi þeir endilega að fara að koma með yfirlýsingar, nú þurfi þeir endilega að fara að baktryggja sig, svo að hægt sé að segja eftir á þegar kemur að því að framsóknarmenn ganga á vit kjósenda sinna: Það lá þó alltaf ljóst fyrir hvað við vildum gera. Það var bara ekkert farið eftir því.

Það er nákvæmlega sama með það gjald sem hér er verið að ræða um að framlengja. Það liggur fyrir margítrekað af hæstv. sjútvrh. að hann vill fella þetta gjald niður. Það er hans vilji. En hann framkvæmir ekki vilja sinn. Það er reglan. Um leið og yfirlýsingarnar komu frá ráðh. um að hann væri á móti olíugjaldinu og vildi fella það niður, þá var auðvitað alveg ljóst að olíugjaldið yrði framlengt, vegna þess að þetta er það lögmál sem framsóknarmennirnir starfa eftir í núv. ríkisstj. Síðan ætlar hæstv. sjútvrh. að koma á vit kjósenda sinna vestur á fjörðum, þegar næst verður gengið til kosninga, og segja: Olíugjaldið, ég hef alltaf verið á móti því. Menn þurfa ekkert að fara í grafgötur um mína skoðun á málinu. Hún liggur fyrir í margítrekuðum yfirlýsingum frá sjálfum mér í Tímanum og í ræðum á Alþingi frá árinu 1981. Það fer þess vegna enginn í grafgöturnar um hvað ég vildi í málinu, segir sjútvrh. Hins vegar gerði ég þveröfugt, það er allt önnur saga. Það er allt öðrum að kenna. Það er ekki mér að kenna, það er einhverjum allt öðrum að kenna.

Þetta, herra forseti, er sem sé orðin regla, að ef framsóknarmenn opna munninn um einhver efnahagsúrræði og koma fram með einhverja hugmynd, þá geta menn bókað að það verður ekki gert. Það er með þetta eins og annað af því tagi.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Matthías Bjarnason sagði áðan, að það var ekkert samráð haft við Alþini um framlengingu þessa olíugjalds. Það var ekkert samráð heldur haft við sjútvn. Alþingis allan þann tíma, sem deilan út af fiskverðsákvörðuninni stóð, og hefur þó áður verið haft samráð við þær nefndir af minna tilefni. Af orðum hv. þm. Garðars Sigurðssonar mætti ætla að hæstv. ríkisstj., þ. á m. hæstv. sjútvrh., hefði ekki einu sinni haft neitt samráð við eigið þinglið um þau loforð sem ríkisstj. gaf um lagasetningu frá Alþingi í tengslum við afgreiðslu fiskverðsákvörðunar á sínum tíma. Er það út af fyrir sig alveg fráleitt, ef hæstv. ráðh. lofar einhverri tiltekinni lagasetningu án þess að hafa borið það loforð áður undir þá þm. á Alþingi sem eiga að tryggja að hann hafi þingmeirihluta fyrir slíkum loforðum. Af ræðu hv. þm. Garðars Sigurðssonar áðan mátti ekki marka annað en að slíkt hefði ekki veríð gert. Það verður þá væntanlega leiðrétt, ef það er rangt.

Aðstaða okkar Alþfl.-manna er sú sama og annarra hér. Okkur er með sama hætti og hv. þm. Garðari Sigurðssyni stillt upp frammi fyrir hlut sem þegar hefur verið ákveðinn og er liður í víðtæku samkomulagi um ákvörðun fiskverðs. Hver sem afstaða manna kann ella að vera til olíugjaldsins geta menn ekki annað en horft á málið frá þeim sjónarhóli, að verði málið ekki samþykkt á Alþingi og við loforð hæstv. sjútvrh. staðið eru allar forsendur fiskverðsákvörðunar, sem kom flotanum á ný af stað, brostnar. Við þm. Alþfl. höfum þess vegna tekið þá ákvörðun, eins og mér heyrðist hv. þm. Matthías Bjarnason vera að lýsa fyrir hönd síns flokks, að við munum ekki beita okkur gegn því, að þetta frv. nái samþykki.

Ég vil aðeins að lokum spyrja hæstv. sjútvrh. einnar spurningar í tilefni af þeirri bensinhækkun sem hv. þm. Matthías Bjarnason gerði grein fyrir í máli sínu áðan. Eins og allir vita var um að ræða tvær hækkanir á bensínverði með nokkurra daga millibili. Síðari hækkunin kom til framkvæmda s. l. laugardag. Okkur var sagt í fjh.- og viðskn., þegar við ræddum annað mál að viðstöddum hagstofustjóra, að verðhækkanir, sem kæmu fram í síðasta lagi á föstudaginn, yrðu teknar með í útreikning framfærsluvísitölu 1. febr. og í útreikning verðbótavísitölu 1. mars til hækkunar á kaupgjaldinu. Til þeirra verðhækkana, sem kæmu ekki fram fyrr en eftir föstudaginn, væri hins vegar ekki hægt að taka tillit við útreikning framfærsluvísitölunnar. Það var strax eftir að þessi föstudagur var liðinn sem bensínhækkunin kom til framkvæmda. Nú vildi ég gjarnan fá að vita hjá hæstv. sjútvrh. — hann hlýtur að hafa verið viðstaddur þann fund í ríkisstj. sem tók þessa ákvörðun — hvenær þessi fundur ríkisstj. var haldinn sem tók þá ákvörðun að heimila bensínverðshækkun á laugardegi. Vart hefur hann verið haldinn þann hinn sama dag. Væntanlega hefur hann verið haldinn einum eða tveimur sólarhringum fyrr. Hafi svo verið, hvernig stóð þá á því, að því var frestað fram til laugardags að hækkunin kæmi til framkvæmda? Var það aðeins til þess að útilokað væri að launþegar gætu fengið bensínhækkunina bætta í launum 1. mars n. k., eins og verið hefði ef bensínverðshækkunin hefði komið til framkvæmda 5–6 klukkutímum fyrr?