08.02.1982
Neðri deild: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2284 í B-deild Alþingistíðinda. (1930)

172. mál, olíugjald til fiskiskipa

Frsm. 1. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Ég er út af fyrir sig engu bættari þó að ég fylli fleiri dálka í þingtíðindum. Ég ætlaði aðeins að koma með örfáar aths.

Vegna þess að það er rétt að gera aths. við ræður manna eftir „rang“, eins og þeir segja á útlensku, ætla ég að byrja á hæstv. sjútvrh. þar sem hann afsakar fjarveru sína frá minni göfugu ræðu með því að ég hafi tilkynnt forseta að ég væri ekki tilbúinn með mína ræðu. Ég undirbjó enga ræðu. Ég þarf þess alls ekki. Menn kunna þetta mál aftur á bak og áfram, enda er búið að tala um þetta hér oft á ári og lög sett ýmist á þingtíma eða utan þingtíma, brbl., aðallega þó af hæstv. fyrrv. ráðh. Kjartani Jóhannssyni. Þá var samráðið ekki mikið. Það er ekki furða þó að kratarnir býsnist yfir því, að samráðið sé lítið nú. Allt er það eins.

Það er ákaflega gott fyrir slaka ræðumenn eins og mig að koma upp á eftir slíkri bullræðu sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson flutti. En ég var hins vegar tilbúinn með mína ræðu. Ég þurfti bara að fara í símann nauðsynlega og var kominn hér 2–3 mínútur yfir tvö.

Hæstv. ráðh. segist hafa rætt við mig á tímabilinu meðan þetta var í bígerð. Það er alveg rétt. Ég hringdi auðvitað í manninn. Ég tel það skyldu mína að reyna að fylgjast með þessum málum eftir mætti og gróf hæstv. ráðh. upp úti á Arnarnesi til að hafa samband við hann. Það var auðvitað vegna þess að ég þurfti að hafa samband við hann, en hann telur sig ekki þurfa að hafa samband við mig. Þannig liggur í málinu.

Um það, að þessi mál hafi verið ítarlega rædd í þingflokkunum, þá getur vel verið að þingflokkur framsóknarmanna ræði þetta svona ítarlega undir stjórn hæstv. ráðh. Það er ekki óeðlilegt að hann tali um það í sínum þingflokki. En ég minnist þess ekki að alvarleg umr. hafi farið fram um þetta í mínum þingflokki, enda varla efni til. Það eru aðrir menn sem gera þetta, eins og hefur komið hér fram.

Það, sem við finnum að í þessu títt nefnda nál., sem er auðvitað ekki hárrétt vegna þess að þarna er talað um meiri hl., en þrír af sjö er auðvitað minni hl. ef þannig er á litið, var að það hefði ekki verið haft samráð við sjávarútvegsnefndirnar. Það var alls ekki gert. Það er auðvitað mál hæstv. ráðh., en við í nefndinni, og þar á meðal flokksbræður hans, gerðum aths. við þetta í prentuðu þskj. svo að það fer ekkert á milli mála að við fundum allir að því.

Herra forseti. Það er kannske óþarfi að tala um það sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson segir hérna. Hann er í stjórnarandstöðustuði, svo að maður tali góða íslensku, og telur sér skylt og nauðsynlegt að koma hér ævinlega upp og finna að því sem vitlaust er gert af ríkisstj. og hér á hinu háa Alþingi. Hann um það.

En það er svolítið skrýtið, að allt frá því að þessir hv. þm. fóru úr ríkisstj., og það skiptir um ríkisstj. hér auðvitað eins og gengur og gerist, skuli allir þessir menn skipta um skoðun um leið og þeir ganga út úr rn. Ég sé að þetta olíugjald hefur verið til meðferðar eftir að aðrar ríkisstjórnir tóku við, en þá hafa hv. Alþfl.-menn staðið hér upp og hamast sem allra mest gegn olíugjaldinu, þarna sé verið að hafa fé af sjómönnum. Hvað varðar þá um kostnaðinn af olíunni og hvort togskipin stöðvast eða ekki. Það síðasta, sem menn þurfa að gæta í Alþfl., er að vera samkvæmur sjálfum sér. „Lógik“ eða eitthvað af því tagi skiptir auðvitað engu máli og á þeim grundvelli þarf alls ekkert að ræða við þessa menn. Það er þeim framandi, gersamlega framandi. Þeir hamast á móti olíugjaldi, frv. upp á 2.5% á sínum tíma, á móti 5% á öðrum tíma, á móti 7.5% á þeim þriðja. En sjálfir stóðu þeir að því að koma þessu olíugjaldi á og sjálfir stóðu þeir að því að setja lög um 12% olíugjald. Um leið og þeir svo fara úr ríkisstj. grenja þeir hér í hverju horni hver um annan þveran á móti olíugjaldinu. Auðvitað er ekkert samræmi á þessu, og auðvitað á ekkert að ansa þessu. Þetta er bara það sem má eiga von á, eftir þeim persónum sem þannig tala. Ég nenni satt að segja ekki að elta ólar við það. Og svo segir þessi hv. þm. í lokin: „Það verður sjálfsagt leiðrétt hér á eftir ef ég hef farið rangt með.“ — Menn mega svo sannarlega hafa sig alla við.

Sjómenn hafa verið á móti því að hafa þetta olíugjald svona og segja að það sé tekið af þeim og þeir beri olíukostnaðinn einir. Þrátt fyrir að þessi samtök og sjómenn hafi sagt þetta hef ég ekki treyst mér til þess að berjast á móti þessu formi á meðan annað betra finnst ekki. Ég hef ekki gert það. Menn mega ekki og eiga ekki að segja sífellt það sem fellur best í eyru kjósenda. Menn verða að standa fyrir því að hafa sínar skoðanir og taka ábyrgð á málum, jafnvel þótt þeir kunni að verða óvinsælir. Hins vegar hef ég alla tíð fundið að þessu formi, ósköp einfaldlega vegna þess að þörf útgerðarinnar fyrir olíustyrk er ákaflega misjöfn svo sem eðlilegt er. Togskipin þurfa mest og netabátarnir minnst, svo ég tali ekki um síldveiðibátana sem keyrðu stundum ekki nema í 5 mínútur og fylltu sig á fjörðunum fyrir austan og fengu svo 7.5% af aflanum til að borga olíuna með. Þeir eyddu kannske nokkrum lítrum og háfuðu við bryggjuna, en stungu svo milljónum í vasann. Það er ekkert vit í þessu. Það sjá allir menn. Hæstv. ráðh. hefur einnig komið auga á þetta, ég hef tekið eftir því. (HBl: Er ekki þm. að mæla með samþykkt þessa alls?) — (Forseti hringir.) Herra forseti, mér finnst vera synd að berja í bjölluna þó að hv. þm. Halldór Blöndal vilji koma fram sínum gáfulegu athugasemdum.

En þá kemur að þeim kafla að fundið hefur verið að því sem segir í nál., hverjir hafi verið fjarverandi. Á því eru ýmsar skýringar, trúi ég. Það er fundið að því, að það stendur þarna að hv. þm. Karvel Pálmason hafi verið fjarverandi. En hann var fjarverandi. Ég er ekki hissa þó að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson finni að því að maður segi satt. Það er sagt að hann hafi fengið fjarvistarleyfi þennan dag. Jú, jú, kannske. Þingfundurinn, sem hann fékk fjarvistarleyfi fyrir, hófst kl. 14 eftir hádegi, en þessi fundur í nefndinni byrjaði kl. 9 um morguninn. Ég vissi þá ekkert um þetta fjarvistarleyfi.

Jóhannes Nordal og Sigurlaug Bjarnadóttir virðast vera bæði varaþm. fyrir hv. þm. Pétur Sigurðsson. Hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir var á þingfundi á þriðjudaginn, daginn áður en þessi morgunfundur hófst. Það vill nú svo til að ég bý ekki með Sigurlaugu Bjarnadóttur þannig að ég vissi ekki um að hún hætti að vera þm. þá um nóttina. Það er líka spurning: Hvenær tekur þm. aftur sæti? Tekur hann sæti um miðnættið? Hann var ekki kominn a. m. k. kl. 9.

Það er kannske rétt að segja frá því, herra forseti, af því að hæstv. forseti hefur fundið að óstundvísi þm. hér í deildinni, það er kannske rétt að ég laumi því að hæstv. forseta, hvernig menn mæta á nefndarfundum. Sjútvn. þessarar hv. deildar hefur fastan fundartíma, eins og nefndir hafa, og ég hef haldið mig við það að hafa fundi á þessum tíma, ef það er mögulegt, með samráði við alla aðila, og það vita þeir. Samstarf við þessa menn er mjög gott, ekki síst þá sjálfstæðismenn. Þeir koma á fundi meir og betur en aðrir í nefndinni. Hv. þm. Karvel Pálmason mætir einnig ákaflega vel. En það var sem sagt boðaður fundur vikuna áður kl. 1 og við komum tveir á þann fund, ég og hv. þm. Karvel Pálmason. Ég verð að geta þess, að hv. þm. Matthías Bjarnason hafði tilkynnt mér forföll, og það voru auðvitað eðlileg og lögleg forföll, með nægum fyrirvara. Aðrir komu ekki Við biðum þarna, við Karvel á fundarstað í 15 mínútur eða svo, gáfum þeim þetta akademíska korter, — sem verður til þess að mér verður litið á okkar ágæta akademíker, Vilmund Gylfason, — en það birtist engin sála og ekki heldur hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir og þaðan af síður Jóhannes Nordal sem von er.

Það, sem segir um fjarvistirnar þarna, er auðvitáð allt rétt og satt. Kannske verður að taka sérblað í það, þegar einhverja menn vantar á fund, af hverju þeir eru fjarverandi, en það hefur ekki verið siður. Ég leyfi mér því að þvo alveg hendur mínar af þeirri ákúru sem ég hef fengið fyrir þetta í þessum efnum.

Efnislega tel ég kannske ekki rétt að vera að segja miklu meira um þetta mál. Ég er alveg tilbúinn, ef menn ætla að fara eitthvað að rífast um það hér, að endurtaka það sem ég hef sagt og talað kannske marga klukkutíma um hér áður. En ef ekki gefast tilefni til þess hef ég hugsað mér að láta þessu lokið, herra forseti.