08.02.1982
Neðri deild: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2289 í B-deild Alþingistíðinda. (1933)

135. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Aðalefni þessa frv., sem ég flyt hér um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt, er að 53. gr. núverandi laga falli niður og orðatagi 14. gr. laganna verði breytt nokkuð og sömuleiðis 44. gr. laganna. Ákvæði til bráðabirgða er sömuleiðis í frv. mínu.

Þegar lög voru sett á árinu 1978 um tekju- og eignarskatt var mjög vandað til undirbúnings þeirrar lagasetningar. Bæði var löng og mikil vinna á bak við þá lagasetningu og henni var yfirleitt vel tekið þó að menn drægju í efa réttmæti einstakra breytinga sem þar var gert ráð fyrir. En þeim lögum var fljótlega breytt og þær breytingar komu margar hverjar illa við og menn töldu nauðsyn að endurskoða sérstaklega þær breytingar og ýmislegt annað í skattalögunum sem sett voru 1978. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar og fjh.- og viðskn. Ed. lögðu mikla vinnu í undirbúning að breytingum á lögunum um tekju- og eignarskatt á síðasta þingi og þar varð mjög víðtækt samstarf þannig að öll nefndin stóð að viðamiklum tillögum til breytinga á löggjöfinni, þó að einstakir nm. væru ekki ánægðir með allar breytingarnar eða réttara sagt ekki ánægðir með að hafa ekki komið fleiri breytingum inn í það nál. og tillögur. Það var skoðun fulltrúa Sjálfstfl. í þessari nefnd, að þó að við hefðum viljað fara lengra og inn á nokkuð aðrar leiðir í einstökum tilfellum vildum við reyna eins og hægt væri að halda samstarfi og ná samstöðu innan nefndarinnar. Því varð niðurstaða af starfi nefndarinnar sú, að við stóðum að tilteknum brtt., sem náðist samkomulag um í nefndinni og meira að segja breytingum sem voru gerðar á frv. því sem hæstv. fjmrh. lagði fram. Meðal þeirra greina, sem gerðar voru breytingar á, var 59. gr. laganna, sem var af fjölmörgum skattþegnum þessa lands illræmd. Orðalag þeirrar greinar var mjög bætt þannig að hún er skaplegri núna en hún var, enda er ekki eins mikill styrr um hana og áður var.

Höfuðatriði þessa frv. er að 53. gr. laga um tekju- og eignarskatt verði með öllu afnumin. Þessi grein er um tekjur og gjöld vegna verðbreytinga og samkvæmt henni segir að hjá lögaðilum skuli árlega tekið tillit til þeirra áhrifa sem almennar verðbreytingar hafa á eignir þeirra og skuldir, eftir því sem nánar er ákveðið í þeirri grein. Það sama á við hjá þeim mönnum sem hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi varðandi þær eignir þeirra og skuldir sem rekstrinum eru tengdar. Það eru ákvæði um að árlega skuli reikna tiltekinn hundraðshluta af mismun eigna, þeirra sem um ræðir í 3. málsgr., og skulda þeirra sem um ræðir í 4. málsgr., og færa þá fjárhæð, er þannig reiknast, til gjalda samkvæmt 1. málsgr. 1. tölul. 31. gr., séu eignirnar hærri, en til tekna samkv. b-lið 7. gr., séu skuldirnar hærri. Síðan eru nánari ákvæði um hvað telja skuli til eigna og skulda. Skal ég ekki lengja mál mitt með því að lesa upp alla þessa grein, heldur vil ég reyna í sem stystu máli að gera grein fyrir því, hvernig þessi grein skattalaganna hefur verið í framkvæmd.

Víða hef ég heyrt hjá mönnum, sem ég hef rætt við um þessi mál, að tekjubreytingafærsla, sbr. þessa grein, komi ekki illa við menn sökum þess að eignir séu hækkaðar upp árlega og afskriftir hækki þar með. Þetta er vart hægt að skilja sem sterk rök því að eignir hækka jafnt hjá öllum sem atvinnurekstur stunda, sama hvort viðkomandi skattþegn er skuldum vafinn eða ekki, þannig að þungi skattaálagningarinnar lendir þyngst á ungu fólki, sem er að hefja atvinnurekstur og fá fé lánað til þess, og á þeim aðilum sem orðið hafa fyrir áföllum og tekið lán til að bjarga sér og eignum sínum.

Í frv. til laga um tekju- og eignarskatt, sem lagt var fyrir Alþingi 1977 — 1978, var tekið upp það nýmæli að leggja skatta á skuldir aðila og manna sem höfðu með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og nutu frádráttar vegna fyrninga. Áður en þessi lög tóku gildi var þeim breytt með lögum nr. 7 1980. Í 27. gr. þeirra laga segir svo, að inn í lögin bætist ný grein sem verði 53. gr. Þessi 53. gr. kemur að hluta til efnislega í stað 44. gr. laganna, en að nokkru breytt. Í grg. með frv. frá 1978 kemur fram hjá höfundum þess, að ekki hafi þótt rétt að heimila fulla fyrningu af endurmetnu stofnverði í þeim tilvikum sem fyrnanlegar eignir eru fjármagnaðar að einhverju eða öllu leyti með lánsfé, þar sem frv. gerir ráð fyrir að fjármagnskostnaður, þar með taldar verðbætur eða gengistöp af lánum, sé gjaldfærður óháð fyrningum. Einnig segir þar að ótakmarkaður fjármagnskostnaður muni í reynd auka mismun milli þess atvinnurekstrar, sem fjármagnar fyrnanlegar eignir með eigin fé, og hins, sem fjármagnar þær með lánsfé.

Það er ljóst að lögin heimila öllum, sem í atvinnurekstri eru, að endurmeta eignir og fyrna þær, óháð því hvort þeir skulda af eignum þessum eða ekki. Þessi regla gengur því jafnt yfir alla þá skattþegna sem eins er ástatt um. Ákvæði 53. gr. laganna gefa skattþegnum rétt til að færa til gjalda eða tekna á rekstrarreikningi, þannig að þeir, sem skulda umfram ákveðnar eignir í atvinnurekstri, skuli færa tiltekinn hundraðshluta teknanna, en þeir, sem aftur á móti eiga meira af ákveðnum eignum umfram skuldir, geta fært til gjalda á rekstrarreikningi ákveðinn hundraðshluta eignanna. Þetta skulda- og eignauppgjör miðast við stöðuna um áramót eða 1. janúar.

Því skal ekki mótmælt, að höfundar þessa frv. færðu fram ákveðin rök fyrir þeirri breytingu sem gerð var á skattalögunum þá, en hins vegar verður þeirri staðreynd ekki breytt, að sá, sem skuldar mikið og þarf að greiða í fjármagnskostnað, á miklu erfiðara uppdráttar en sá sem kominn er yfir mesta skuldabaslið. Ákvæði sem þessi kalla á það, að sá, sem hyggst fara í atvinnurekstur, reyni að afla sér fjár áður, t. d. með því að koma sér upp eignum sem hann getur síðar selt án þess að greiða skatt af hugsanlegum söluhagnaði eða verðhækkunum á eignunum. Þetta þýðir það, að ungt fólk sem áhuga hefur á atvinnurekstri, þyrfti að fara fyrst í vinnu til annarra, t. d. ríkisins, þar er helst auðgunar von, og ef því tekst að eiga eftir eitthvað af tekjunum leggja það í framangreindar eignir þar til það er búið að ná sér í einhvern höfuðstól. Hitt er miklu almennara, að fæstir fara út í eigin atvinnurekstur eftir að vera búnir að eyða e. t. v. bestu árum ævinnar við störf hjá öðrum. Þetta eykur m. a. hættuna á því, að eðlileg endurnýjun verði á fólki í atvinnurekstri. Er hægt að búast við að ungt fólk, sem af bjartsýni hefur stofnað til skulda vegna kaupa á eignum til atvinnurekstrar, geti auk annarra byrjunarörðugleika greitt af skuldum þess opinber gjöld sem geta numið verulegum fjárhæðum?

Á s. l. ári nam tekjufærsla þessi 54.1% af skuldunum. Sá, sem er að byrja atvinnurekstur eða sá, sem er að endurnýja atvinnutæki sín, verður til viðbótar því að greiða fjármagnskostnað, vexti og verðbætur, að greiða skatt af þessari skuld. Fé til að greiða þessa skatta fær hann ekki á annan hátt en að selja eignirnar. Ber að líta á það, að öllum atvinnurekstri fylgir ákveðin áhætta, að vísu mismunandi eftir atvinnugreinum og af ýmsum öðrum ástæðum, þannig að ekki liggur fyrir hvort þessi sjálfstæði atvinnurekandi fær nokkurn tíma til baka það fjármagn sem hann hefur lagt fram. Það sést ekki fyrr en sala hefur farið fram á eigninni, en þá er búið að skattleggja hann.

Ég held að það sé rétt að gera sér nokkra grein fyrir hvernig framkvæmdin hefur verið á 53. gr. skattalaganna. Skattþegn, sem verður fyrir því óláni að hann fær ekki tekjur sínar af eigin atvinnurekstri, t. d. vegna slæms veðurfars, grasleysis, aflaleysis eða vegna verkefnaskorts, tæki hafa bilað o. fl., hann verður af þeim sökum að taka lán til að missa ekki allt út úr höndunum á sér. Hann fær á sig opinber gjöld vegna meintra tekna af þessum skuldum. Maður, sem fær lán hjá kunningjum eða ættmennum til að kaupa tæki sem hann vonast til að greiða næstu mánuði, fær á sig skatt vegna þessa. Skattþegn gerir kaupsamning um eignir í lok árs. Hann fær lánað, eins og vanalegt er, hluta af andvirðinu, t. d. fram á næsta ár vegna þess að skuldin stendur yfir áramót. Þá ber honum að reikna sér tekjur af þessu. En ef þessi sami aðill hefur gert kaupsamning í byrjun árs og greitt kaupverðið fyrir áramót lendir hann ekki í tekjufærslu og skattgreiðslum af þessum viðskiptum. Af þessari framkvæmd, sem fyrir liggur, fæ ég ekki annað séð en skattbyrði lendi mest á þeim sem eru að byrja atvinnurekstur, eru í framkvæmdum eða hafa orðið fyrir áföllum og lent í greiðsluþroti og skuldasöfnun af þeim sökum. Skattbyrðin lendir með of miklum þunga á þeim sem síst skyldi. Þetta ákvæði verkar því sem hemill á að ungt fólk hefji atvinnurekstur og eðlileg endurnýjun eigi sér stað. Þetta getur leitt til þess, að fólk fer í ríkara mæli að leita starfs hjá öðrum og þá sennilega ekki síst að leita á náðir hins opinbera um atvinnu.

Allt til þessa hafa aðstæður hér á landi boðið upp á það, að menn stunduðu sjálfstæðan atvinnurekstur. Þeir urðu að gera það. Það var í fáum tilfellum hægt að leita á náðir annarra um vinnu. Þetta er algilt úti um hinar dreifðu byggðir landsins. Menn eiga atvinnutæki sín og ekki hægt að koma öðru við. Ég hef víða orðið var við það hjá skattþegnum, að þeir trúðu því ekki, að skatta ætti að leggja á skuldir, því að þeim fannst, sem eðlilegt er, alveg nóg að standa við greiðslur afborgana og vaxta. Í allt of mörgum tilfellum gátu menn ekki einu sinni staðið við það. Þegar svo er komið eru gerðar almennar ráðstafanir til að útvega lán úr opinberum sjóðum til að greiða fyrir því að breyta lausaskuldum heilla atvinnugreina í föst lán til langs tíma. Það er því ekki óeðlilegt að margur furði sig á að hið opinbera sé að skattleggja þessa menn umfram aðra og e. t. v. af skuldum sem þeir stofnuðu til að tilhlutan hins opinbera til að losna við aðrar skuldir. Hjá sumum atvinnurekendum er dæmið orðið það dökkt og skattar orðnir það miklir af skuldum þessum að menn sjá sér ekki annað fært en að selja þessar eignir og hætta. Og þá kemur upp vandamálið: Eru til aðrir sem vilja kaupa þessi atvinnutæki og lenda fyrr en varir í sama forarpyttinum? Mér sýnist að ríkisfyrirtæki standi ekki undir sínum rekstri. Þó þurfa þau ekki að greiða skatta og allra síst af því fjármagni sem þau hafa í rekstrinum. Fækkun manna í eigin atvinnurekstri kallar því á aukna skatta á hinn almanna borgara til að standa undir ríkisreknu fyrirtækjunum.

Gallar á ákvæðum 53. gr. skattalaganna eru miklir, og það sem verra er: Þeir skapa mikinn ójöfnuð og leiða til verulegrar þyngingar á skattbyrði þeirra, er atvinnurekstur stunda, og þá sér í lagi ungu fólki, sem er að byggja upp eigin atvinnurekstur, og sömuleiðis hjá þeim sem koma hart niður og verða fyrir þungum áföllum.

Þó að það komi þessu máli ekki við langar mig til fróðleiks að rifja upp úr skýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins hlutfallslega skiptingu mannaflans á atvinnugreinar eftir kjördæmum, en þetta er reiknað samkvæmt slysatryggðum vinnuvikum árið 1979. Í þessari skýrslu kemur fram gífurlegur munur á atvinnugreinum fólks í hinum ýmsu kjördæmum landsins. Sem dæmi skal nefna að aðeins 3.1% mannaflans stunda fiskveiðar og fiskvinnslu í Reykjavík. Þetta hlutfall er hæst á Vestfjörðum, en þar stunda 43.1% þessa atvinnugrein. Meðaltal yfir landið er 14.3% í fiskveiðum og fiskvinnslu. Þegar komið er að mannafla við þjónustu er hún, þegar litið er á meðaltal yfir landið, 49% af mannaflanum. Reykjavík er með 67.2% í þjónustugreinum og þar næst kemur Reykjaneskjördæmi og þar með álverið með 44.4%. Lægstir eru Vestfirðir í þjónustugreinum með 27.7% og næst neðstir í þjónustugreinum eru Austfirðir með 29.9%. Flest önnur kjördæmi utan Reykjavíkur og Reykjaness eru með frá 30 og upp í 36.8%. Á þessu sést að þjónustugreinarnar eru fyrst og fremst á þessu svæði, suðvesturhorninu, en flestir landsmenn sem búa utan stór-Reykjavíkursvæðisins, eru fyrst og fremst háðir fiskveiðum, fiskiðnaði og landbúnaði. Þetta sýnir í sjálfu sér hvað hér er um einhæft atvinnulíf víðast hvar að ræða úti um byggðir landsins. Því hygg ég að það sé full ástæða til að fara varlega í þessar skattlagningar á atvinnureksturinn. Þær mega ekki ýta undir að menn hætti í stórum stíl og vilji komast í þjónustugreinarnar og vinna hjá öðrum.

Ég ætla að taka hér nokkur dæmi, sem ég hef viðað að mér í því sambandi, að færa rök fyrir því að 53. gr. skattalaganna verði felld niður. Þessi dæmi, sem ég nefni, eru úr nokkrum skattumdæmum landsins.

Fyrsta dæmið: Bóndi með frekar lítið bú og hefur aukatekjur utan búsins byggði fjárhús árið 1975 og stofnaði til skulda í því sambandi. Hann hefur auk þess lent í grasleysi vegna kals. Hluti skulda hans er við Bjargráðasjóð. Greiðslubyrði hans er það mikil að hann á varla annarra kosta völ en selja jörðina. Leigur voru kannaðar við væntanlegan kaupanda, jarðeignadeild ríkisins. Tekjufærsla inn á rekstrarreikning þessa manns var við álagningu 1981 í gkr. 2 millj. 988 þús. 44. gr. skattalaga, sem gilti vegna framtala árið 1980 vegna rekstrar 1979, heimilar að fyrna eignir framteljanda um 50%. Í þessu tilfelli er það helmingur upphæðarinnar. Ef maður þessi hefði ekkert skuldað snerist dæmið við. Þá yrði gjaldfærsla 45.51% af 2 millj. 533 þús. eða helmingur af matsverði bústofns. En í því tilfelli mætti hann færa 1 millj. 53 þús. inn á gjaldahlið rekstrarreiknings. Hvort sem við tölum um skuldugan mann eða skuldlausan fara allir eftir sömu reglunni í sambandið við endurmat eigna og fyrningar. Ég vil þó benda á að sá sem skuldar gengur fyrr á eignir sínar með fyrningu vegna heimildar í 44. gr. skattalaganna. Fyrningarheimild þeirrar greinar var skert, en þó var henni breytt með þeirri breytingu sem gerð var við meðferð laganna á s. l. ári.

Næsta dæmi: Hér er um að ræða vörubifreiðarstjóra. Hann hefur unnið um nokkurra ára skeið með bifreið sína, aðallega hjá Vegagerðinni. Árið 1976 kaupir hann bifreið á 9.9 millj. og síðan aðra bifreið 1978, notaða, á 10.1 millj. í þeim tilgangi að fullnægja eftirspurn varðandi flutninga á því svæði sem hann býr á. Hluti af andvirði þeirrar bifreiðar var í erlendum lánum. Hann verður fyrir því óláni 1978 að bifreiðin veltur og skemmist mikið, og hann varð að bera sjálfur viðgerðarkostnaðinn, sem var verulegur. Auk þess varð hann fyrir töluverðu vinnutapi. Skuldir hans í árslok námu 15.3 millj. og þessar skuldir voru ýmist háðar verði á erlendum gjaldmiðli, víxilskuldir, viðskiptaskuldir vegna viðgerðarinnar og nokkrar skuldir í vanskilum og dráttarvöxtum. Vegna þessara skulda varð tekjufærsla þessa manns 6 millj. 969 þús. Hann notaði sér fyrningarheimildina vegna þessa, sem þá var 50%, en hækkun á skattskyldum tekjum vegna þessara skulda nam næstum því 3.5 millj. kr. Þegar litið er á að þessar ætluðu tekjur koma á toppinn á öðrum tekjum getur tekjuskatturinn orðið 50% og útsvarið tæp 12% og tekjuskattur og úrsvar því 2 millj. 160 þús. af þessari fjárhæð einni. Ef annar maður hefði farið út í sams konar fjárfestingu og ekki þurft að taka lán í því sambandi — þeir eru með jafnmiklar tekjur — verður niðurstaðan sú, að sá skuldugi verður að greiða rúmum 2 millj. meira í gjöld. Árangurinn af þessu er sá, að maðurinn, sem varð fyrir áfallinu, varð að selja annan vörubílinn til að reyna að bjarga sér til lands. Þannig gengur ríkið á menn, sem verða fyrir áföllum, með því að skattleggja áföllin í raun og veru. Menn, sem verða að taka lán, eru ekki farnir að sjá neinn árangur. Þeir hafa engar tekjur af því sem þeir hafa verið að taka lán fyrir.

Við skulum taka sem dæmi: Er réttlætanlegt að bóndi, sem verður fyrir grasleysi og tekur lán úr Bjargráðasjóði eða annars staðar, eigi að greiða skatt af þessum lánum umfram tekjutapið sem verður? Er réttlæti í því t. d. hvað varðar grásleppukarla í landinu, sem eiga nú verulegan hluta af starfi sínu liggjandi í skúrnum víðs vegar um landið, að ríkið ásælist taprekstur þeirra af því þeir hafa orðið að taka lán til að halda sér uppi, að það eigi að halda áfram á þessari braut með framkvæmd 53. gr.?

Eins og ég sagði í upphafi er aðalefni þessa frv. að leggja 53. gr. niður með öllu, og ákvæði er tekið inn til bráðabirgða: Hafi verið lagður tekjuskattur eða önnur opinber gjöld á skattþegn vegna tekjufærslu samkv. 53. gr. á skattaframtölum 1980 og 1981 skal skattstjóri endurreikna gjöld hans miðað við það að tekjufærsla þessi sé felld niður.

Fyrsta spurningin, þegar frv. sem þetta er flutt, er: Hvað tapar ríkissjóður í sköttum, hvað lækka tekjur ríkissjóðs? Það er alltaf sama spurningin, sérstaklega hjá embættismönnum. En það er aldrei spurt: Er verið að leiðrétta það sem er rangt? Er verið að bæta fyrir það sem hefur verið ranglega tekið af fólki? Það er einmitt það sem við eigum að leggja til grundvallar þegar við metum störf okkar þm. Þegar við metum það, sem við höfum áður staðið að, og komumst að þeirri niðurstöðu, að þar hafi verið gengið of langt, þar hafi rangsleitni verið viðhöfð, þá eigum við auðvitað að viðurkenna það með því að breyta slíkum ákvæðum laga í réttlætisátt. (Forseti: Á hv. þm. langt eftir?) Nei, örstutt. Ég vil minna á að í umsögn til fjh.- og viðskn. í fyrra segir stjórn Stéttarsambands bænda að hún bendi á að ákvæði 53. gr., sem kveða á um tekjur og gjöld vegna verðbreytinga, leiði til gífurlegs óréttlætis og mismununar milli manna í tekju- og gjaldfærslu. Eins og ákvæðin eru nú sniðin leiða þau til þess, að hinir betur stæðu í þjóðfélaginu hagnast stöðugt, en efnaminna fólk og skuldugt verður hart úti og er gert að greiða veruleg gjöld af tilbúnum tekjum. Þetta á t. d. við um allmarga bændur. Sama gildir um vinnslustöðvar landbúnaðarins þar sem þeim er gert skylt samkv. samvinnulögum að greiða út allan reiknaðan tekjuafgang. Hér er því um að ræða óréttlæti sem verður tilfinnanlegra með hverju árinu sem líður á meðan ákvæði þessi eru látin standa óbreytt.

Ég reyndi mikið til að fá þessu ákvæði breytt í fyrra. Það þótti þá vera gerðar það miklar breytingar að menn fengust ekki inn á þetta. En þó að ég vitni hér í Stéttarsamband bænda nær þetta óréttlæti til allra annarra höfuðatvinnugreina okkar. Það er verið fyrst og fremst að ráðast á þá sem minna mega sín, en hinir njóta góðs af sem standa betur að vígi.

Ég hygg að álagning skatta sé komin eitthvað yfir 40 millj. nýkr. eða 4000 millj. gkr. Þar er aldrei talað um að breyta um vinnubrögð gera vinnubrögð skattstofanna einfaldari, hætta þeim sparðatíningi sem kemur við hinn almenna framteljanda. Mér er alltaf í fersku minni, og skal ég enda þessi orð mín á því, saga, sem ég heyrði fyrir allmörgum árum, af ekkju í kauptúni úti á landi. Þetta var um það bil sem reykskynjarar voru að koma til sögunnar. Ekkjan bjó í köldu húsi og hafði engar tekjur aðrar en lítil eftirlaun manns síns og eigin eftirlaun og hún lét gera við þetta hús. Það kostaði nokkuð. Hún taldi þetta viðhald til frádráttar á skattskýrslu sinni. Meðal þess, sem hún taldi til frádráttar, var reykskynjari. Þeir voru þá komnir fyrir nokkru. Hin haukfránu augu skattendurskoðandans störðu mjög á þetta orð: „reykskynjari“, í framtali ekkjunnar, svo að það var skrifað bréf til gömlu konunnar og spurt: Hvað er reykskynjari? Gamla konan þurfti að fara til kunningja síns til að svara þessum virðulegu embættismönnum og hrökk við að fá þetta bréf, því að hún hafði alltaf talið heiðarlega fram til skatts. Hún fær þennan kunningja sinn til að svara bréfinu. Og enn líður nokkur stund. Þá kemur annað bréf frá yfirvöldunum til ekkjunnar. Var reykskynjari fyrir í húsinu? Aftur verður gamla konan að fara til vinarins og svara því, að enginn reykskynjari hafi verið fyrir í húsinu, þetta hafi verið fyrsti reykskynjarinn sem inn í sitt hús hafi komið. Það líður enn og bíður og enn þá fær ekkjan bréf frá skattyfirvöldunum og þar stóð stutt og laggott: Reykskynjari telst ekki til viðhalds. Þetta er nýtt áhald og er því ekki leyfilegt að draga það frá til skatts. — Það þarf auðvitað ekki að taka það fram, að tekjur ekkjunnar voru svo lágar að hún þurfti ekki að borga neinn tekjuskatt. En má ekki spara í starfi skattstofa í þessu landi?

Ég legg til, herra forseti, að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.