09.02.1982
Sameinað þing: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2299 í B-deild Alþingistíðinda. (1938)

128. mál, öryggismál sjómanna

Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svör hans og ég felli mig mjög vel við svar hans við 2. lið spurningar minnar. En í sambandi við fyrri liðinn finnst mér að svarið hafi verið svolítið langt frá því sem ég bjóst við að kæmi fram. Því miður hef ég ekki fylgst með skrifum siglingamálastjóra í sambandi við samþykktir Fiskiþings og veit því ekki hvað hann hefur upplýst í þeirri grein sinni, en mér finnst þögn þeirra Fiskifélagsmanna, það að þeir svara ekki þeirri grein, benda ótvírætt til þess, að þeir telji ekki æskilegt að þetta sé rætt á þeim vettvangi. Þess vegna hefði verið æskilegt að komið hefðu greinilegri svör við þessari spurningu eða 18. lið samþykktar Fiskiþings hér á hv. Alþingi. Mér finnst samþykktin vera þannig að hún sé alls ekki að vísa fram fyrir sig, hún sé alls ekki að benda á þá liði sem Fiskiþing nefnir á undan þessari samþykkt, heldur sé hún ábending á önnur mál sem liggja hjá þeim stofnunum sem þarna eru nefndar.

En það, sem manni finnst kannske alvarlegast þegar þessi samþykkt er lesin, er sá tónn sem kemur fram í samþykktinni, sérstaklega í þessu atriði, sem sé að ekki sé reglulegur trúnaður á milli þessara aðila, þ. e. þessara samtaka og Siglingamálastofnunar. Ef það er rétt, þá er mjög æskilegt að úr því verði bætt. Ég held að það sé ekki lausnin að fara með þessa umræðu inn á vettvang dagblaðanna. Upplýsingar um þessi mál hefði verið mjög æskilegt að fá hér, og ég vænti þess, að sú litla umræða, sem hér hefur átt sér stað, geti ýtt við og orðið þess valdandi, að umræður fari fram á milli þessara stofnana, þ. e. Siglingamálastofnunar ríkisins og þeirra aðila sem þetta snertir mest.

Ég vil aðeins benda á það til viðbótar, að um svipað leyti og Fiskiþing hélt sinn fund var Farmanna- og fiskimannasambandið á fundum og það sendi frá sér 32 samþykktir um öryggismál sjómanna. Það er því greinilegt að á þessum vettvangi er mikið verk óunnið og kannske aðallega í því að byggja upp fullan trúnað á milli þeirra aðila sem eru að vinna að þessum málum.