09.02.1982
Sameinað þing: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2350 í B-deild Alþingistíðinda. (1962)

47. mál, ráðunautur í öryggis- og varnarmálum

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá að gera hér örstutta aths.

Í tilefni þeirra ummæla, sem komu fram hjá hv. þm. Geir Hallgrímssyni, þar sem hann lét að því liggja að Alþb. og ég værum talsmenn þess að kafbátar Sovétríkjanna fengju að sigla óáreittir um hafið, þá er það alger rangfærsla sem er alveg óþarfi að vera að hafa yfir hér í þingsölum. Það hefur komið fram skýrt og greinilega — gerði það fyrir nokkrum mánuðum — að við erum reiðubúnir að standa að flutningi till. þar sem sett væri löggjöf um kjarnorkuvopnalausa fiskveiðilögsögu Íslendinga sem banni umferð allra kjarnorkukafbáta um 200 mílna svæði. Það væri viss nýjung í alþjóðalögum að kveða á um slíkt. Við höfum áður rutt brautina í alþjóðalögum. Það er hægt að ræða hvernig mætti tryggja framkvæmd slíkrar till. En hitt vildi ég ekki láta hjá líða að ítreka hér að gefnu þessu tilefni, að við erum þeirrar skoðunar, að það eigi að setja slíka löggjöf um kjarnorkuvopnalausa fiskveiðilögsögu og þar með landhelgi, og við erum reiðubúnir til samvinnu við alla flokka um það efni.

Að lokum vil ég aðeins minna á að það er aðeins einn maður hér á Alþingi sem hvað eftir annað hefur gert kjarnorkuvopnastyrk Sovétríkjanna að jákvæðri uppistöðu í sínum málflutningi. Það er sá maður sem flutt hefur hér oftast og tíðast kenninguna um að ógnarjafnvægið sé trygging fyrir friði í heiminum, ógnarjafnvægið sem byggist á kjarnorkustyrk Sovétríkjanna og Bandaríkjanna, þar af leiðandi sé kjarnorkustyrk Sovétríkjanna einn af lykilþáttunum fyrir því að tryggja friðinn í heiminum. Ég er á móti þessari skoðun, tel hana ranga, en engu að síður er rétt að hafa það í huga, að hv. þm. Geir Hallgrímsson er og hefur verið þessarar skoðunar.