10.02.1982
Efri deild: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2352 í B-deild Alþingistíðinda. (1968)

188. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Um miðjan janúar var ákveðin 12% breyting eða lækkun á gengi íslensku krónunnar samkv. ákvörðun Seðlabanka Íslands með samþykki ríkisstj. Þessi ákvörðun var nauðsynleg til að treysta rekstrargrundvöll atvinnuveganna.

Þegar gengi hefur verið lækkað, þ. e. verið fellt að verulegu leyti, sem sagt höfð önnur aðferð en gengissig, hefur langoftast verið ákveðið um leið að gengismunur af birgðum útflutningsafurða skyldi tekinn í gengismunarsjóð. Fé gengismunarsjóðs hefur svo verið ráðstafað á ýmsan veg, aðallega í sambandi við sjávarútveginn, ýmist vinnslu eða veiðar. Í þetta sinn var annar háttur hafður á. Að vísu var ákveðið í þeim brbl., sem gefin voru út 14. jan., að dreginn skyldi frá 6% gengismunur, en ríkisstj. skyldi kveða nánar á um til hvaða afurða þetta skyldi taka. Var strax í byrjun ákveðið að frystingin og allar hennar greinar skyldu undanþegnar þessu, þannig að fyrirtækin skyldu sjálf njóta þessa gengishagnaðar. Hins vegar var ákveðið vegna betri afkomu ýmissa annarra greina vinnslunnar að þær skyldu greiða þennan gengismun, en ekki njóta hans að fullu, og átti þetta við um söltun, herslu, loðnumjöl og lýsi. Þó var ekki sá háttur hafður á nú, að þetta fé skyldi sett í sérstakan gengismunarsjóð sem síðan skyldi ráðstafað á ýmsan hátt til hagsbóta fyrir sjávarútveginn, heldur ákveðið að þetta fé skyldi allt renna beint og eingöngu í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og renna þar óskipt til hlutaðeigandi deilda sjóðsins.

Í sambandi við gengisbreytinguna, sem er, eins og kunnugt er, samkv. lögum ákveðin af Seðlabanka með samþykki ríkisstj., þurfti vegna þessarar ráðstöfunar og ákvarðana um gengismuninn að gefa út brbl. Eru það þau lög sem liggja hér fyrir til staðfestingar.

Ég legg til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. Þó að þetta mál snerti að sjálfsögðu mjög sjávarútveg byggist það á gengisbreytingu og því spurning hvort ætti fremur að vísa frv. til fjh.- og viðskn. Ég veit ekki, hvort hæstv. forseti hefur nokkuð við það að athuga að sá háttur verði hafður á að vísa því til fjh.- og viðskn., og geri það að tillögu minni.