27.10.1981
Sameinað þing: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

321. mál, húsnæðismál

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Byggingarsjóður ríkisins hafði 2% af 3.5% launaskatti. Þetta hefur verið tekið af, en Byggingarsjóður verkamanna fengið 1%, þ. e. helminginn af þessum tekjustofni. Þetta kalla ég að stela af Byggingarsjóði ríkisins og fá Byggingarsjóði verkamanna, og vona ég að menn hljóti að geta verið sammála um það. Það er tekið af öðrum sjóðnum, sem á þó að sjá um verulegan hluta af öllum byggingum í landinu.

Það er út af fyrir sig ágætt að leysa vanda þeirra, sem komast undir ákvæði um verkamannabústaði og félagslegar íbúðir, — leysa þann vanda sem verður af verðtryggðum lánum, eins og hæstv. félmrh. talaði um. Það er út af fyrir sig gott og blessað og fleiri hafa lagt það til. En það leysir ekki vanda þeirra 70% af þjóðinni sem þá þurfa að byggja eða kaupa eftir öðrum leiðum. Þetta kerfi leysir aðeins vanda 30%. Á að skilja alla hina eftir úti í kuldanum? Á að skilja þá eftir úti í kuldanum sem hafa kannske 1000 kr. meiri laun eða kannske bara 100 kr. meiri laun á ári en má hafa til að fá lán samkv. reglum Byggingarsjóðs verkamanna?

Hæstv. félmrh. sagði að till. Alþfl. á sínum tíma hafi skilið Byggingarsjóð verkamanna eftir úti í kuldanum. Hið rétta í því máli er að það var talið af öllum sérfræðingum að ekki væri rétt að vera í húsnæðislánakerfinu, í þeim lögum, með skattlagningu, heldur ætti það að fara inn í skattalög. Í allri umfjöllun um það mál, í grg., í drögum að reglugerðum og í samþykktum hæstv. félmrh. sjálfs var tryggt, — það var með samþykki allra þeirra flokka sem stóðu að þeirri ríkisstj., — að ekki bara tekjustofnarnir væru óskiptir, heldur skyldu framlög ríkissjóðs vaxa allt upp í 30% á næstu 10 árum. Það var samþykki meira að segja af núv. hæstv. félmrh.

Ég endurtek að það er afskaplega gott að leysa vel vanda 30% þjóðarinnar, en það leysir ekki vanda hinna 70%. Við megum ekki skilja þau eftir úti í kuldanum.