10.10.1981
Sameinað þing: 1. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Forseti Íslands setur þingið

Forseti Íslands (Vigdís Finnbogadóttir):

Hinn 14. sept. s. l. var gefið út svofellt bréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hef ákveðið samkvæmt tillögu forsrh., að Alþingi skuli koma saman til fundar laugardaginn 10. okt. 1981. Um leið og ég birti þetta, er öllum, sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni sem hefst kl. 13.30.

Gjört í Reykjavík, 14. sept. 1981.

Vigdís Finnbogadóttir.

Gunnar Thoroddsen.“

Samkv. bréfi því, sem ég hef lesið, lýsi ég yfir því, að Alþingi Íslendinga er sett.

Það er ávallt merkur atburður í þjóðarsögunni, þegar Alþingi Íslendinga er sett. Sú athöfn hefur fyrir löngu fengið á sig hefðbundið snið látleysis, í samræmi við eðli okkar Íslendinga sem ekki er um það gefið að flíka tilfinningum okkar um of á hátíðarstundum.

Alþingi hefur um langan aldur búið við þá gæfu, að virðing fyrir málum, sem þar eru til umræðu, á sér djúpan hljómgrunn í hugum þegnanna. Menn láta sig í þessu landi meira skipta orð og athafnir lýðræðiskjörinna þingmanna sinna en títt er um almenning í öðrum löndum, enda flýgur orðið hratt á Íslandi og nær vegna fámennis okkar eyrum svo til allra sem í landinu búa. Þjóðmálaumræða er hér og víðtækari en annars staðar tíðkast og gagnrýni hins almenna borgara varðandi ákvarðanir fyrir þjóðarbúið oft harðskeyttari en efni standa til. Við það tapar hún iðulega gildi sínu og slævir fremur en að hvetja. Stóryrði eru ekki alltaf sterkasta vopnið. Menn gleyma oftar en ella að þakka það sem vel er gert og sýnist þeim eitthvað fara miður fría þeir sjálfa sig ábyrgð og falla í þá gryfju að kenna öðrum um. Skal þó á það minnt að við erum öll samábyrg við rekstur þessa þjóðfélags, hver í sinu starfi, — öll siðferðilega bundin af hagsmunum heildarinnar fremur en okkar eigin, sem kunna að vera tengdir líðandi degi. Framtíðin er alltaf á næsta leiti við hvert augnablik sem líður og til hennar verðum við fyrst og síðast að líta með enn gæfuríkara líf fyrir alla í huga.

Mörg ámælisorð hafa fallið úr dómarasæti undanfarið um forfeður okkar Sturlungana, sem áttu landið fyrir 700 árum, og óeiningu þeirra innbyrðis verið líkt við ósætti okkar Íslendinga nútímans. Satt er að margt má læra af sögunni. En við megum ekki láta það blekkja okkur né gleyma því, að hver öld býr við sinn sannleika og við söguskoðun verður einatt að taka tillit til þeirra hugmynda um heiminn, sem ríktu hverju sinni. Við vitum nú meira um heiminn altan en þessi þjóð á jaðri heimsmenningarinnar hefur nokkru sinni áður vitað. Án þess að flíka eigin hagsmunum, er það og verður aðalsmerki okkar að vera sameinuð og sjálfstæð í hugsun og gjörðum, til fyrirmyndar öðrum þjóðum, sem veita þjóð okkar athygli. Engum Íslendingi vil ég ætla að kunna ekki fótum sínum forráð þegar þjóðfrelsi og þjóðarheill er í húfi í heiminum eins og hann er byggður upp á okkar tímum. Engin lifandi vera á annað betra en líf sitt að leggja til þjóðarbúi. Engin lifandi vera fær heldur neins notið nema eiga sér samferðarmenn, — og lánsömust er hún þegar samfylgdin fer fram í einhug, öllum til farsældar og heilla. Það kýs enginn að vera einn og vinalaus, hvorki í nánasta umhverfi sinu né í heiminum. — Hitt er svo annað mál, að við erum ekki svo deig að við séum einatt sammála um alla hluti, og við fáum aldrei fullþakkað lýðræðið, að þurfa ekki að lúta skoðanakúgun. Frjáls skoðanaskipti eru lyftistöng hugsunar hverju sinni. Affarasælast hlýtur það þó að vera að gera samkomulag um ósamkomulag og búa þannig við heimspeki séra Jóns Prímusar.

Í heiminum ríkir skálmöld, þar sem það er mikill munaður að vera Íslendingur, mega ganga frjáls og óttalaus um landið sitt án þess að vera varinn vopnuðum vörðum eða uggandi um að eiga þau örlög fyrir höndum að verða veginn úr launsátri.

Við upphaf 104. löggjafarþings Íslendinga er þess jafnframt minnst, að 100 ár eru liðin frá því að virðulegt Alþingishús okkar var reist. Það var gert af miklum stórhug og með ótrúlegum hraða — stórhýsið reis af grunni á aðeins tveimur árum. Erlenda sérfræðinga og steinsmiði þurfti að sjálfsögðu að kalla til starfa, en Íslendingar munu hafa átt drjúgan þátt í að svo einarðlega var unnið. Þeim var í fyrstu greitt lægra kaup en útlendingunum, en síðan fengu þeir að vinna í ákvæðisvinnu. Þá gengu þeir svo hraustlega til verks að þeir fengu rúmlega tvöfalt kaup á við starfsfélaga sína, en leiðst ekki slík ósvinna nema í skamman tíma. Húsið var reist með bjarta framtíðarhugsjón að leiðarljósi, — hugsjón, sem engan þó óraði fyrir að næði á einni öld svo háleitu marki sem raun ber vitni. Frá þeim tíma að þeir steinar voru tilhöggnir, sem mynda veggi þessa húss, hafa orðið meiri framfarir fyrir orð þeirra manna, sem látið hafa í ljós hugmyndir sínar og hugsjónir innan þessara veggja, en dæmi eru til annars staðar. Þegar húsið var reist var hér bændaþjóðfélag, sem aldrei hefði getað dreymt um þá velmegun, sem við búum við, með sívaxandi lífsgæðum. Við tileinkum okkur aukna þekkingu jafnt og þétt, og á vísinda- og tæknisviði eru Íslendingar síst eftirbátar annarra þjóða. Það er mér oft ofarlega í huga, þegar ég er innt eftir hver þessi þjóð er, að hér eru hlutfallslega fleiri skapandi hugir að verki en aðrar þjóðir hafa af að státa, fleiri sem láta sig mál þjóðarinnar skipta og sigla ekki um lífsins farveg í sinnuleysi með þá skoðun, að það sé hvort eð er einhver annar sem taki það að sér að sjá um að gera það sem framkvæma þarf hverju sinni. Þar fagna ég eðli og andans gjöfum þjóðar minnar best, því þegar til kastanna kemur bera allir velferð hennar fyrir brjósti.

Ég óska þess, að Íslendingar megi sem lengst fara með friði, glaðsinna og sáttir við sjálfa sig og með vinarþel hins frjálsa þegns lýðræðisins að fararnesti. Megi frelsishugsjónin ávallt ríkja í þessu húsi og þeir, sem í því starfa, bera gæfu til að taka heillaríkar ákvarðanir um allan aldur.

Að svo mæltu bið ég þingheim að minnast fósturjarðar vorrar með því að rísa úr sætum.

[Þingheimur stóð upp, og forsrh., Gunnar Thoroddsen, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Þingmenn tóku undir þessi orð með ferföldu húrrahrópi.]

Samkv. 1. gr. þingskapa ber nú aldursforseta að stjórna fundi þar til kosning forseta sameinaðs Alþingis hefur farið fram, og bið ég aldursforseta dr. Gunnar Thoroddsen, 8. þm. Reykv., að ganga til forsetastóls.