11.02.1982
Sameinað þing: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2381 í B-deild Alþingistíðinda. (2002)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég tel að þær ræður, sem hér hafa verið fluttar, og þau svör, sem hér hafa verið gefin af hálfu hæstv. ráðh., séu með miklum endemum.

Ég ætla ekki að taka upp tímann með því að ræða efnisatriði þess lagafrv. sem hér um ræðir. Til þess er annar vettvangur. Þess vegna þarf ekki að fara mörgum orðum um ræðu hæstv. sjútvrh.

Ég ætla ekkí heldur að endurtaka það sem ég sagði í fyrstu ræðu minni um það, að til þess að lög öðlist gildi verða þau að birtast í Stjórnartíðindum. Það vita aðrir alþm. jafnvel og hæstv. viðskrh. Um það fjallaði ekki málið. Málið fjallaði um það, hvers vegna ríkisstj. hefði látið undir höfuð leggjast að gera almenningi kunnugt um lög sem hún hefði sett.

Svarið við þeirri fsp. er, liggur mér við að segja: Af því bara. — Það var eiginlega það sem fólst í ræðu hæstv. forsrh. Ekki var talað um það í ræðu hæstv. forsrh. að hér hefði verið um handvömm að ræða. Ekki var talað um að það væri eðlilegt að almenningur, þjóðin, fengi að vita um lagasetningu af þessu tagi, heldur var gert litið úr því, að menn gerðu að umræðuefni að sú venja að gera þjóðinni grein fyrir lagasetningu af þessu tagi, sem er gerð fyrir luktum dyrum, skuli hafa verið brotin. Nei, hæstv. forsrh. flutti langa ræðu um hvað fréttatilkynning;n frá Seðlabankanum um gengisskráningu hefði verið ítarleg. Um það vissum við allt. Um það var ekki spurt. Ég held að það hefði verið betra ef hæstv. forsrh. hefði getað haldið sér við efnið. Það hefði þá lýst málefnalegri stöðu hans og ríkisstj. og hæstv. forsrh. hefði þá í leiðinni getað sparað sér ýmsa útúrsnúninga og frýjunarorð vegna þess að það skiptir máli hvernig með svona mál er farið.

Hæstv. forsrh. reyndi meira að segja að gera því skóna, að fullnægjandi svör hefðu fengist í gær varðandi þetta mál þegar hann tók til máls. Ég skal nú lesa aftur yfir hv. Sþ. hver þessi svör voru og hve fullnægjandi þau eru. Þau voru svona:

„Ég veit ekki betur en þetta hafi verið gert heyrinkunnugt um leið og brbl. voru gefin út.“ — Kannske hæstv. forsrh. telji það að gera heyrinkunnugt að birta í Stjórnartíðindum sem þm. hafa ekki einu sinni séð, fréttamenn hafa ekki tekið eftir og almenningur les ekki. Framhaldið er svona: „Hvort formleg fréttatilkynning var gefin út skal ég ekki segja, það skal að sjálfsögðu kannað, en ég held að þetta hafi ekki farið fram hjá neinum sem hlut eiga að máli.“

Það hefur komið fram í því, sem hér hefur verið rætt um þetta efni, að setning brbl. hefur vissulega farið fram hjá mörgum sem hlut eiga að máli, þ. á m. alþm. almennt, þ. á m. vafalaust mjög mörgum fiskverkendum, sem þetta snertir beint, og obbanum af þjóðinni kemur það við í lýðræðisþjóðfélagi þegar lög eru sett. Það var um þetta sem málið snerist.

Það, sem hefur bæst við síðan í gær, er að það er staðfest, sem mig grunaði í gær, en forsrh. treysti sér ekki til að staðfesta í gær einhverra hluta vegna, að engin fréttatilkynning var gefin út. Maður hlýtur að spyrja sig hvað ráði því, að ríkisstj. bregður nú á það ráð að gefa ekki út fréttatilkynningu. Var hún hrædd við eitthvað? Kom þetta henni eitthvað illa? Á það að vera svo í sambandi við setningu brbl., að ríkisstj. segi bara frá þeim brbl. sem henni líkar vel, en ekki hinum, sem kannske skipta almenning enn þá meira máli?

Ég verð að segja það, herra forseti, að mér urðu svör hæstv. forsrh. mikil vonbrigði. Mér urðu þau sérstök vonbrigði að því leyti, að það gekk eins og rauður þráður í gegnum málflutning hæstv. forsrh.ríkisstj. liti ekki á það sem skyldu sína að gera þjóðinni grein fyrir því, þegar hún setti lög með þessum hætti, hún liti ekki á það sem skyldu sína. Hæstv. forsrh. reyndi að tína til einhver dæmi ótiltekin um að einhvern tíma hefðu verið gefin út brbl. án þess að senda út fréttatilkynningu. Það er röng aðferð, jafnvel þó að það hafi einhvern tíma komið fyrir áður. En ég er sannfærður um að venjan hefur verið sú að segja frá þessu, og það segja mér líka bæði þingreyndustu menn hér innandyra og eins þeir sem við fjölmiðla hafa starfað.

Meginatriðið er það, að almenningur á heimtingu á að fá að vita þegar svona lög eru sett, og ég tel að Alþingi eigi og hljóti að gera þá kröfu til ríkisstj., að hún stundi ekkert laumuspil í þessum efnum, heldur skýri frá því hverju sinni á opinberum vettvangi með almennri fréttatilkynningu þannig að allri þjóðinni geti verið ljóst þegar lög af þessu tagi eru sett. Þetta á ekki bara að vera regla, þetta á ríkisstj. að líta á sem skyldu sína.