27.10.1981
Sameinað þing: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

321. mál, húsnæðismál

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður. — Hæstv. félmrh. taldi að heildarlán til íbúðabygginga hefðu farið vaxandi — það má vel vera — og vísaði í lífeyrissjóðslán um það. En nú er það bara svo að það eiga ekki allir rétt á lífeyrissjóðslánum. Sumir eiga rétt á tveimur, önnur hjón eiga engan rétt. Langskólafólk á engan rétt, alls engan. Það eiga ekki allir heldur aðgang að bankakerfinu. Með því að vísa meira og meira á lífeyrissjóðskerfið og meira og meira á bankana er því verið að mismuna fólki herfilega, vegna þess að það eru ekki allir sem eiga aðgang að þessum kerfum. Og ég vil benda á það, að þar að auki er búið að þrautpína lífeyrissjóðina svo — og það á að auka það enn — að þeir eru að draga saman efndir. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er búinn að taka fyrir öll þau loforð og allar þær reglur sem hann var búinn að setja. Það er búið, engar hækkanir. Þau loforð, sem menn voru búnir að fá skrifleg fyrir nokkrum mánuðum, eru dregin til baka í dag.