11.02.1982
Sameinað þing: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2400 í B-deild Alþingistíðinda. (2016)

118. mál, alþjóðleg ráðstefna um afvopnun á Norður-Atlantshafi

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég hef í umræðum hér á þingi um utanríkismál lýst umtalsverðum áhyggjum vegna aukins vígbúnaðar á Norður-Atlantshafi og hef þar sérstaklega getið mikilla ferða kafbáta og herskipa af öllu taki frá Kólaskaga niður með Noregsströndum og inn á Atlantshaf. Ég hef sagt að Íslendingar ættu að láta í sér heyra um þessi mál og láta á alþjóðlegum vettvangi áhyggjur sínar í ljós vegna þessa mikla vígbúnaðar. Ég harma það raunar að t. d. á þingi Sameinuðu þjóðanna skuli Íslendingar ekki hafa tekið dýpra í árinni en þeir hafa gert. Satt best að segja tel ég að tillaga af þessu tagi hefði verið betur komið á þingi Sameinuðu þjóðanna en hér. Ég tel líka að það hefði verið grundvöllur til þess að ræða tillögu af þessu tagi innan Norðurlandaráðs, og það hefði ugglaust vakið meiri athygli á þeim málstað, sem við viljum koma á framfæri en þær umræður sem fara hér fram. Einnig sakna ég þess mjög, að í tillögu af þessu tagi skuli ekki vera rætt um samstarf við Grænlendinga og Færeyinga sem eiga nákvæmlega sömu hagsmuna að gæta í þessum efnum.

Ég ætla ekki að fara mögum orðum um þessa till., herra forseti. Mér finnst hún að mörgu leyti, með fullri virðingu fyrir flm., býsna laus í reipunum. Það er ekki skýrt tekið fram hvernig að þessari ráðstefnu skuli staðið. Ég vil m. a. benda á það sem fram kemur í lok grg. till.: „Kostnaður við eftirlit verði greiddur af alþjóðastofnun og niðurstöður eftirlitsstöðva tilkynntar reglulega alþjóðastofnun, sem veiti öllum, er óska, upplýsingar varðandi eftirlitið.“

Þarna er talað um einhverja alþjóðastofnun sem á að greiða kostnað við þetta eftirlit. Það koma ekki fram hugmyndir um hvaða stofnun það skuli vera, og fleira af þessum toga spunnið finnst mér vera í sjálfu sér andsnúið tillögunni að mörgu leyti. Engu að síður taldi ég fyllstu ástæðu til þess að hnykkja á þeim orðum sem ég hef viðhaft hér á þingi, að ég hefði áhyggjur af þessum aukna vígbúnaði. Hins vegar tel ég að gætt hafi nokkurs misskilnings hjá hv. frummælanda áðan þegar hann talaði um kjarnorkuvopnabúnað kafbáta og skip. Það er kannske ekki hin eiginlega hætta, heldur eru það kjarnorkuknúin skip sem okkur stafar hætta af. Það er t. d. geislavirkt vatn, sem er sleppt frá þessum skipum, sem okkur stafar mest hætta af. Sprengjurnar sem slíkar springa ekki svo glatt nema um stríð og um hernaðarátök sé að ræða.

Ég vil eingöngu láta þetta koma fram. Ég er þeirrar skoðunar og fylgjandi því, að við vekjum athygli á þessu máli þar sem við getum, vekjum athygli á áhyggjum okkar vegna sívaxandi hernaðarumsvifa á Norður-Atlantshafi. En einhvern veginn finnst mér þessi till. ekki beinlínis hitta í mark og það hefði átt að standa betur að henni. Hugsanlega hefði átt að flytja slíka tillögu á alþjóðlegum vettvangi, þar sem raunverulega hefði verið hægt að ræða um hana og að fjalla um hana og þar sem innihald hennar hefði komist betur til skila.