15.02.1982
Neðri deild: 40. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2433 í B-deild Alþingistíðinda. (2055)

175. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Aðeins til þess að við nafnarnir misskiljum ekki hvor annan vil ég geta um ástæðuna fyrir því, að leigan var tekin inn. Það má að vísu deila um þann lið ekki síður en marga aðra, ég er sammála því. En ástæðan er einfaldlega sú, að ákveðinn hluti af húsnæðiskostnaði manna er frádráttarbær til skatts, þ.e. fjármagnskostnaðurinn, og sá kostnaðarliður er langstærsti hlutinn í húsnæðiskostnaðinum. Fólk, sem leigir, er með leigu sinni að greiða eiganda þess húsnæðis, sem það hefur á leigu, fjármagnskostnað að einhverju leyti. Þess vegna þótti eðlilegt að þetta fólk fengi nokkurn hluta af sínum húsnæðiskostnaði til frádráttar skattskyldum tekjum með sama hætti og sá aðill, sem á sitt húsnæði, fær fjármagnskostnaðinn til frádráttar. Ég held að það sé enginn vafi á því, að ungt fólk, sem þarf að byrja á því að leigja húsnæði og greiða fyrir það miklar fjárhæðir, á oft mjög erfitt með að ráðast í kaup á húsnæði vegna þeirra miklu útgjalda sem það innir af hendi vegna leigunnar. Þetta er vítahringur sem allir þekkja. Þetta vildi ég taka fram í sambandi við þetta atriði.

Varðandi það, að vel geti borgað sig fyrir menn að fara að stofna hlutafélög um íbúðir sínar, vil ég aðeins koma því á framfæri, að ég teldi ekki æskilegt að við mæltum með því hér á Alþingi, að menn færu að gera það í stórum stíl. Það eru til greinar í skattalögum sem fjalla um óvenjuleg skipti í fjármálum og annað slíkt, og þeim er hægt að beita ef menn reyna að fara í kringum lögin. Svo verða menn líka að hafa það í huga, að félög eru í öllum tilfellum sett undir svokallaða verðtryggingarfærslu, þannig að það yrði að reikna tekjur af lánum þeirra á móti vaxtagjöldunum, sem ekki þarf varðandi einstaklinga. Ég er því hræddur um að hv. þm. mundi fljótlega reka sig á það atriði við slíka hlutafélagsstofnun.