16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2467 í B-deild Alþingistíðinda. (2095)

121. mál, rannsóknir og viðvörunarkerfi í Mývatnssveit

Fyrirspyrjandi (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Mér hefur verið tjáð að hæstv. menntmrh. hafi óskað eftir því að vera viðstaddur þessa umr. Væri þess vegna gott hans vegna að gera honum boð, hann mun vera í húsinu.

Herra forseti. Ég sagði hér í upphafi að hæstv. menntmrh. teldi ástæðu til að vera viðstaddur þessa fsp., en ef hann er ekki í húsinu held ég áfram máli mínu.

Herra forseti. Það er ljóst núna, að landris á Kröflusvæðinu er orðið umtalsvert miklu meira en það var þegar þar gaus síðast hinn 18. nóv. s.l. Áhyggjur íbúa af þessu ástandi eru miklar að vonum og hefur m.a. oddviti og sveitarstjóri í Mývatnssveit lýst miklum áhyggjum sínum vegna þessa máls og haft samband við viðkomandi rn. Það er mat vísindamanna á þessari stundu, að á 35 km langri sprungu á Kröflusvæðinu geti nú gosið nánast hvar sem er, og á það jafnt við um Leirhnjúk og Bjarnarflag sem og aðra staði á gossprungunni.

Frá árinu 1975 hafa farið fram rannsóknir vegna umbrota og eldvirkni í Mývatnssveit. Á þessu tímabili hefur tekist að afla dýrmætrar reynslu og ný tækni verið þróuð, m.a. varðandi viðvörunarkerfi sem nú myndar kjarnann í starfsemi Almannavarna á svæðinu. Þessar rannsóknir hafa verið gerðar á vegum Orkustofnunar, Raunvísindastofnunar Háskólans og Norrænu eldfjallastöðvarinnar, en sú síðast nefnda hefur hannað ofangreint viðvörunarkerfi. Kostnaðurinn við starf Norrænu eldfjallastöðvarinnar er greiddur af samnorrænu fé, nema hvað íslenska ríkið hefur greitt ferða- og dvalarkostnað vegna Kröflurannsókna fram á mitt ár 1980, en þá var þeim greiðslum skyndilega hætt. Samkv. þessu má ljóst vera að ríkissjóður hefur ekki verið þjakaður af þessum rannsóknum.

Vegna fjárhagsörðugleika er nú öllum rannsóknum á svæðinu og þar með öryggisgæslu stefnt í óvissu og hefur engin trygging fengist fyrir því, að rannsóknum verði haldið áfram. Af þessum sökum eru bornar fram eftirfarandi spurningar til hæstv. forsrh.:

1. Hvað hyggst ríkisstj. gera til að tryggja öryggi íbúa Mývatnssveitar, en áttunda og kröftugasta gosið í Kröflueldum hófst 18. nóv. s.l.?

2. Hyggst ríkisstj. veita Norrænu eldfjallastöðinni, sem að öðru leyti er kostuð af samnorrænu fé, það fjármagn sem sannanlega skortir á svo að unnt sé að reka viðvörunarkerfi í Mývatnssveit áfram og stunda rannsóknir því tengdar?