18.02.1982
Efri deild: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2506 í B-deild Alþingistíðinda. (2158)

209. mál, sveitarstjórnarkosningar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um breytingar á lögum um sveitarstjórnarkosningar, nr. 5 1962, er fylgifrv. þess frv, sem við vorum að ræða áðan.

Frv. hefur inni að halda tvö efnisatriði:

Annars vegar er það, að tilkynningar um aðsetursskipti, sem berast sveitarstjórn eftir að kjörskrá er samin, skuli skoðaðar sem kjörskrárkærur og að menn skuli samkv. þeim fá rétt til þess að komast inn á kjörskrá og samkv. þeim verði sem sagt kjörskrárstofni, sem miðaður er við 1. des. næst á undan, breytt.

Í öðru lagi er mikilvægt ákvæði, sem hefði mátt komast fyrr í okkar lög. Þar er gert ráð fyrir að kjörseðlar við hreppsnefndarkosningu verði öðruvísi á litinn en við kosningu sýslunefndarmanna, því að stundum hefur það víst viljað brenna við að menn hafa ekki getað greint glögglega á milli þess, hvort verið væri að kjósa í sýslunefnd eða hreppsnefnd. Hér er sem sé sú skylda lögð á sveitarstjórnir í landinu, að þær hafi tvo liti á kjörseðlum á kjördag til sýslunefndar og hreppsnefndar.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.