24.02.1982
Neðri deild: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2641 í B-deild Alþingistíðinda. (2269)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. svaraði hér fsp. hv. 3. þm. Reykv., Alberts Guðmundssonar, varðandi tollafgreiðslugjaldið og þá útreikninga sem hér hafa verið til umr. og koma fram í frv. Ég verð að segja að það furðar mig sem hæstv. ráðh. sagði áðan, að sjálfsagt sé það rétt sem kemur fram í bréfi frá Verslunarráði, að heildartekjur ríkissjóðs verði hærri en þær 54 millj. kr. sem hefur verið talað um.

Í grg. með því frv., sem hér er til umr., er skýrt tekið fram að tollafgreiðslugjald sé lagt á til þess að mæta þeim tekjumissi sem ríkissjóður verður fyrir vegna fyrrnefndra gjaldalækkana. Þess vegna er spurning mín til ráðh. hvers vegna ekki sé hægt að fá um það upplýsingar þegar fjh.- og viðskn. biður um sundurliðun — eins og gert var í nefndinni — á því tekjutapi, sem ríkissjóður verður fyrir, og þeim tekjum, sem ætlað er að bæta upp tekjutapið.

Á fund nefndarinnar komu fulltrúar fjmrn. og þeim var ekki nokkur leið að gera nefndinni grein fyrir því, hvernig þessi útreikningur ætti sér stað. Það liggur alveg ljóst fyrir, sem sagt er í nál. meiri hl., að hér er afgreiðsla mála með þeim hætti að Alþingi fær ekki upplýsingar, ráðuneytið getur ekki gefið upplýsingar, ráðuneytið veit ekki hvað um er að ræða. Jafnvel í ræðu sinni áðan sagði hæstv. fjmrh. að það mætti nú ekki gera of mikið úr þessu og ekki of mikið úr hinu. Eðlilegast væri að forseti gerði hlé á umr. núna og fjh.- og viðskn. fengi málið aftur til meðferðar og ráðh. sæi svo um að fulltrúar úr fjmrn. kæmu og gerðu þingnefndinni fullkomlega grein fyrir þessu, eins og óskað var eftir í upphafi, til þess að Alþingi viti hvað er að gerast.

Það má vel vera að hæstv. ráðh. kæri sig ekki um að vita það, og það má vel vera að þeir í ráðuneytinu hafi engan áhuga á að vita hvað í raun og veru er hér um að ræða. Ef dráttur verður á því að leggja þetta á vörur samkv. samningum við EFTA og Efnahagsbandalagið, sem þeir eru ekki enn þá búnir að athuga hvort hægt er að gera, þá mun þetta ekki verða svona mikið, segja þeir. Mér finnst þetta ekki vera málflutningur sem þinginu sé boðlegur. Ég varpa þeirri spurningu því til hæstv. forseta, hvort ástæða sé til þess, að fjh.- og viðskn. fái þetta mál aftur til athugunar og þá grg. fjmrn. varðandi málið.

Hv. 12. þm. Reykv., Guðmundur G. Þórarinsson, kom hér í ræðustólinn eftir að hv. 6. þm. Reykv. hafði gert grein fyrir brtt. sem hann ásamt nokkrum þm. flytur nú við 3. umr. Mér er ekki ljóst eftir ræður hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar til hvers hann flutti sína brtt. í upphafi. Til hvers konar iðnaðar átti till. hv. þm. að ná? Hann kemur hér nú og ræðir um skilgreiningu á iðnaði og kveðst harla ánægður með það orðalag sem er orðið á greininni samkv. brtt. sem minni hl. fjh.- og viðskn. flytur. En ef hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson hefði lesið nál. meiri hl., þá er skýrt þar hvernig skilja ber þá till. sem hann flutti — úr því að hann vissi ekki hvernig átti að skilja hana. En af þeim ræðum, sem hann hefur flutt, liggur alveg ljóst fyrir að hann hvorki vissi né gat sagt mönnum hvernig ætti að skilja þessa brtt.

Í nál. á bls. 2 stendur þetta, með leyfi forseta:„Dragi þm.“ — það er hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson „till. til baka.“ — Þm. var ekki í salnum. Ég var að ræða við hann út af því sem hann sagði áðan, að það hefði ekki verið nokkur leið að skilja þá till., sem hann flutti sjálfur, hvorki hann né aðrir hefðu getað skilið hana. Þess vegna sætti hann sig sérstaklega vel við það orðalag sem komið er á greinina samkv. brtt. minni hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 365. Það getur verið hagstofuskilningur, það getur verið erlendur skilningur, alþjóðaskilningur o.s.frv. En í nál. meiri hl. er gerð nákvæm grein fyrir því, hvernig hann litur á að skilja beri till. Og ef hv. þm. hefði samþykkt till. hefði hún verið samþykkt með þeim skilningi sem fram kemur í nál. og ég ætlaði að fara að lesa upp þegar ég sá að hv. þm. gekk í salinn:

„Dragi þm. tillöguna til baka við 2. umr. munum við taka hana upp og flytja og er þá miðað við að launaskattur verði 2.5% hjá öllum iðnaði, sem greiðir iðnlánasjóðsgjald, svo og kjöt- og mjólkuriðnaði.“

Hér er nákvæmlega skilgreint hvað í raun og veru felst í till. þm. Þess vegna var enginn vafi á því, þegar átti að gefa út reglugerð um lækkun á launaskatti, hvernig átti að skilja þessa grein. Út frá þessu sjónarmiði er því ekki ástæða fyrir hv. þm. að skjóta sér á bak við þann texta sem er í greininni eins og hún er orðuð nú.

Ef hv. þm. litur svo á texta till. sinnar og till. eins og hún er í frv., þá er þar geysilegur munur sem hann virðist ekki hafa tekið eftir. Ef við lesum upp till. hv. þm. á þskj. 356, með leyfi forseta, þá stendur þar: „Þó skal aðeins greiða.“ Hvað stendur í greininni eins og hún er nú á þskj. 365: „Þó er heimilt að ákveða.“ Hv. þm. var svo ákveðinn þegar hann flutti till., að hann hugsar sér ekki að hér verði nein geðþóttaákvörðun ráðh., heldur skuli þetta vera svo. En svo beygður er hann af sínum samstarfsmönnum að hann er látinn fallast á að þetta verði aðeins heimildarákvæði, sem hann vildi að yrði skylda.