03.03.1982
Neðri deild: 48. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2840 í B-deild Alþingistíðinda. (2389)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég held að það sé ástæða til fyrir þm. almennt að ræða mál sem það sem hér er nú upp komið, því að mér sýnist að þetta sé enn eitt dæmið um að einstakir ráðh. og raunar fleiri í ríkiskerfinu ráðstafi fjármunum án þess að heimildir séu til. Ég skildi svo yfirlýsingu þá sem hæstv. ráðh. vitnaði hér til, ég tók svo eftir, en bið hæstv. ráðh. að leiðrétta ef ég hef tekið rangt eftir, að þeir fjmrh. hafi undirritað yfirlýsingu um þessa fjármuni með fyrirvara um samþykki Alþingis. Hafi hann talið sig hafa heimild til að ráðstafa þessu fjármagni hefði að sjálfsögðu ekki þurft neinn fyrirvara um málið. Sé rétt að yfirlýsingin sé undirrituð með fyrirvara um samþykki þess aðila, sem endanlega verður að samþykkja málið, þá held ég að slík heimild hafi ekki verið fyrir hendi. Ég skil málið svo og mér sýnist það ósköp einfalt. Hafi þessi fyrirvari verið á yfirlýsingunni hafa hæstv. ráðh. ekki talið sig hafa heimild til að ákvarða um málið. Ég held að það sé nauðsynlegt að vekja á því athygli, að í hvert skipti sem það kemur upp, að einstaklingar taka sér fjárveitingavald, hvort sem þar eiga hlut að máli ráðh. eða embættismenn í ríkiskerfinu, sem ótalmörg dæmi eru um að ráðstafa fjármunum án heimildar, þá sé full ástæða til að ræða það mál.

Hér var vitnað áðan í viðtal við hv. þm. Geir Gunnarsson, formann fjvn., og á engan hátt dreg ég í efa hans umsögn um málið, en ég vil ekki vera að vitna til umræðna við hv. þm. í hinni deildinni. Hér í okkar hv. deild situr varaformaður fjvn., þm. Framsfl., Þórarinn Sigurjónsson, og ég vildi gjarnan biðja hæstv. forseta að gera nú til þess ráðstafanir, að hv. þm. Þórarinn Sigurjónsson, varaformaður fjvn., gangi í salinn þannig að ég geti spurt hann um álit hans sem varaformanns nefndarinnar á þessu máli. Ég vil mjög gjarnan bíða þess, að hv. þm. gangi í salinn. (Forseti: Vill ekki hv. þm. nýta tímann og segja eitthvað meira?) Fyrst hæstv. forseti fer þess á leit, að ég tali á meðan þeir grennslast eftir hv. þm., þá get ég orðið við því. — Nú hefur hv. þm. gengið í salinn.

Ég var að vitna til þess, að ég vildi ógjarnan spyrja þm. úr hinni deildinni um mál er varðar okkur hér, af því það var í þessu tiltekna máli vitnað til hv. þm. Geirs Gunnarssonar sem formanns fjvn., og lýsti því jafnframt yfir, að ég drægi ekki í efa umsögn hans sem hér var frá skýrt. En þá vildi ég mjög gjarnan spyrja varaformann fjvn., hv. þm. Þórarin Sigurjónsson, hvort hann telur að í þessu tilviki hafi hinir hæstv. tveir ráðh. haft heimild samkv. fjárl. til að ráðstafa því fjármagni, sem hér um ræðir, á þann hátt sem þeir hafa nú gert. Ég vildi mjög gjarnan fá umsögn hv. þm. um þetta. Ég sé að hv. þm. ætlar sér að veita þá umsögn. Fleiri aðilar í hv. deild geta að sjálfsögðu tjáð sig um þetta mál. Hæstv. forseti á sæti í fjvn. líka og hefur verið nokkuð afgerandi í því starfi, og ég er viss um að hann muni vilja tjá sig um hvort hér sé rétt að málum staðið. En hvað sem öllu þessu líður, þó svo að hæstv. ráðh. hefðu talið sig hafa heimild til slíks, þá finnst mér a.m.k. óeðlilegt að slíkt sé gert án þess að það sé borið undir fjvn. t.d. áður en fjárveitingar eru ákvarðaðar. En ég ítreka að með þeim fyrirvara, sem mér skildist að hæstv. ráðh. hefðu gert á þessari yfirlýsingu, hafa þeir ekki talið sig hafa heimild til að afgreiða málið, það þyrfti samþykki Alþingis fyrir því.