03.03.1982
Neðri deild: 48. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2845 í B-deild Alþingistíðinda. (2396)

217. mál, jarðalög

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Þau tvö frumvörp, sem hér hafa verið lögð fram af hæstv. landbrh., eru svo nátengd að það er í raun og veru ekki hægt að ræða ákvæði annars þeirra nema koma inn á svið hins.

Út af fyrir sig get ég ekki í fljótu bragði séð verið með gagnrýni á efni þessu frv. eins og þau liggja hér fyrir. Breytingin á ábúðarlögum er fólgin í því, að það sé við fleiri aðstæður en nú er hægt að undanþiggja jarðir byggingarskyldu. Byggingarskyldukvöðin, sem er í ábúðarlögunum, er í raun og veru fyrst og fremst sprottin af því, að það gangi ekki of á tekjur sveitarfélaganna þegar byggilegar jarðir falla úr ábúð og þar á enginn lengur lögheimili sem greiðir gjöld til síns sveitarfélags. Með því móti hafa æðimörg sveitarfélög orðið vanmegnug að sinna sínum verkefnum vegna þess að jarðir hafa um of farið í eyði og byggð orðið gisin af þeim sökum. Ég hygg að þetta ákvæði mundi ekki svo mjög skerða tekjur sveitarfélaganna ef það hefði ekki verið gert áður með öðrum lögum.

Það er tilefni þess fyrst og fremst að ég kem hér upp, að ég tel fullkomna ástæðu til, þegar þessi ákvæði eru víkkuð út, sem ég geri ekki athugasemdir við eins og ég tók fram áðan, að athuga þá um leið tekjustofnalög sveitarfélaga þar sem sumarbúðir stéttarfélaga eru undanþegnar skattskyldu til sveitarfélaganna og það hefur gengið svo langt, jafnvel þó að slík félög hafi mikinn atvinnurekstur innan sinna vébanda, að þau eru eigi að síður ekki skyldug til að greiða fasteignaskatta til sveitarfélagsins. Það er á þessu stigi til athugunar, finnst mér, fyrir hv. Alþingi að taka þetta til athugunar í samhengi. Ég tel eðlilegt að þéttbýlisbúunum og stéttarfélögunum sé gefinn kostur á að fá sína hvíldarstaði og orlofsstaði. En það má ekki algjörlega ganga á svig við þá nauðsyn sem það er í okkar landi að halda uppi nokkuð traustum sveitarfélögum.

Ég held að ég þurfi ekki á þessu stigi að hafa öllu fleiri orð um þetta viðhorf mitt, en ég vænti þess, að sú nefnd, sem fær frumvörpin til umfjöllunar, taki þessi orð mín til athugunar og hugleiði með hverjum hætti væri hægt að ráða bót á þeim vanda sem ég hef bent á.