08.03.1982
Neðri deild: 49. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2886 í B-deild Alþingistíðinda. (2439)

170. mál, flutningssamningar

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. á þskj. 274 og 381 um flutningssamninga og ábyrgð við vöruflutninga á landi.

Snemma á árinu 1980 var athygli mín vakin á því, að um flutninga á landi gilda engin lög eða reglugerðir, og sömuleiðis að ekki hefur þar skapast nein sú hefð, sem unnt er að fylgja, og jafnframt að sú óvissa, sem af þessu leiðir, hefur iðulega valdið verulegum vandræðum. Var farið fram á að samgrn. beitti sér fyrir að slíkar reglur yrðu settar. Ég skipaði því í mars 1980 þriggja manna nefnd til að fjalla um þetta mál. Í þeirri nefnd áttu sæti Ólafur Steinar Valdimarsson skrifstofustjóri samgrn., sem var formaður nefndarinnar, Jónas Þór Steinarsson framkvæmdastjóri Félags ísl. stórkaupmanna og Stefán Pálsson hrl., framkvæmdastjóri Landvara. Þessir þremenningar fjölluðu ítarlega um málið og komust fljótlega að þeirri niðurstöðu, að um flutninga á landi þyrfti að setja lög, það yrði ekki hægt að koma við neinum reglum sem hefðu ekki nauðsynlega stoð í lögum. Ég bað því um að slíkt lagafrv. yrði samið. Þetta frv. er nú flutt eins og nefndin varð ásátt um að það yrði.

Frv. er e.t.v. einna best lýst með því að nefna þá kaflaskiptingu sem fram kemur í því. I. kafli fjallar um gildissvið þessara laga, ef samþykkt verða, II. kafli um flutningssamninga, þ.e. hvernig þeir skuli gerðir, III. kafli um ábyrgð flytjanda og IV. kaflinn um ábyrgð sendanda, V. um ábyrgð móttakanda, og svo er loks kafli, Ýmis ákvæði, sem fyrst og fremst fjallar um hvernig fara skuli með deilur sem rísa á grundvelli þessara laga.

Frv. þetta hefur verið afgreitt frá hv. Ed. óbreytt nema 24. gr., þar sem bætt hefur verið við einni setningu. Þessi grein fjallar um að eyðileggja megi vöru eða gera óskaðlega ef hún hefur verið flutt undir röngum forsendum, þ.e. ekki upp gefið að um hættulegan varning væri að ræða. Bætt var í þessa grein í meðferð Ed. setningu sem er svohljóðandi: „Þess skal ávallt gætt í slíkum tilvikum, að sendandi verði fyrir sem minnstum skaða.“ Þetta er sjálfsagt ákvæði og með fullu samþykki mínu gert.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv., ég hygg að það skýri sig mjög vel sjálft, og ég endurtek að það er flutt með fullu samkomulagi og reyndar að ósk þeirra aðila sem hagsmuna eiga að gæta um flutninga á landi. Leyfi ég mér því að leggja til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.