09.03.1982
Sameinað þing: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2907 í B-deild Alþingistíðinda. (2464)

187. mál, framkvæmd orkumálakafla stjórnarsáttmálans

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Hér er hreyft máli sem oft hefur verið til meðferðar á Alþingi. Þetta er eitt af þeim málum sem er hægt að flokka undir mikinn ójöfnuð í okkar þjóðfélagi. Íbúar á stórum svæðum búa þarna við óréttlæti sem ekki verður lengur við unað. Ég tek undir það sem hæstv. ráðh. sagði áðan, að mismunur á orkuverði í sambandi við húshitun er algjörlega óviðunandi.

Það hefur oft verið rætt um hvað væri til ráða í sambandi við þessi mál, og margar nefndir hafa starfað og margvíslegar hugmyndir verið reifaðar og er ekki um það nema gott að segja. En það er ekki nóg að ræða um þessi mál og viðurkenna vandann. Það verður að fara að takast á við hann. Við erum sjálfsagt öll sammála um að það er eðlilegt að miða þessa lausn við að innlendir orkugjafar séu fyrst og fremst notaðir til bæði upphitunar húsa og annarra þarfa okkar þjóðfélags, ýmiss rekstrar. Við erum ekki ósammála um það.

Ég hef oft verið að velta því fyrir mér, hvernig við gætum náð viðunandi árangri á þessu sviði án þess að úr því þurfi að verða of flókið kerfi. Ég get tekið undir það með hæstv. ráðh., að náðst hefur ótrúlega fljótt árangur í sambandi við jöfnun á almennu orkuverði, sem er eins og hér kom fram um 24% nú, og þetta hefur gerst án mikilla átaka. Ég vil taka undir það, því að ég tel alveg sjálfsagt að Rafmagnsveita Reykjavíkur og Hitaveita Reykjavíkur fái þá hækkun sem um er beðið. Það leysir að hluta til þennan vanda. En mér finnst að við hljótum að átta okkur á því, að nú er búið að taka í notkun hitaveitur víðs vegar um landið, og tvær stærstu hitaveitur utan Reykjavíkur, Hitaveita Akureyrar og Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar, miða nú orkuverð á sínu svæði við 60% af olíuverði. Þetta tel ég að sé mark sem væri hægt að nota til að miða við jöfnun á hitunarkostnaði, að þeir, sem væru fyrir ofan 60%, fengju kostnaðinn lækkaðan, og ég sé ekkert athugavert við að gera það með niðurgreiðsluforminu. Þetta mundi kosta, eftir því sem ég hef látið athuga lauslega, um 90 millj. kr., og í því er talinn með olíustyrkur um 30 millj. Hér er því um 60 millj. kr. nýtt fjármagn að ræða og með því ætti að vera hægt að leggja að baki einn áfanga í því að jafna kostnaðinn.