10.03.1982
Efri deild: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2951 í B-deild Alþingistíðinda. (2507)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Eins og hv. þdm. er kunnugt hafa orðið allmiklar umr. um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég ætla mér ekki að fara að tíunda hér ágæti Sinfóníuhljómsveitarinnar. Það hefur vafalaust verið nóg gert að því við þessar umr. og vafalaust oft áður. Hins vegar get ég ekki látið hjá líða að minnast í örfáum orðum á þá umfjöllun sem varð um Sinfóníuhljómsveitina á liðnu vori, en þá var, líklega í fjórða sinn, lagt fram frv. til l. um Sinfóníuhljómsveitina.

Frv., sem nú liggur fyrir, var lagt fram á liðnu hausti, líklega í fimmta skipti. Öll umfjöllun á liðnu vori bar svipmót þess, að frv. kom seint fram. Einnig er því ekki að neita, að umfjöllun, ekki síst í menntmn., bar svipmót þess, að fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins var mjög óljós og hún var vægast sagt slök. Raunar er það svo, að frv. eins og það liggur fyrir og var raunar afgreitt frá menntmn., enda þótt einstakir nm. áskildu sér rétt til að fylgja eða flytja brtt. er afrakstur fjölmargra aðila eftir margra ára umfjöllun þar sem leitast hefur verið við að samræma sjónarmið þeirra sem næst hafa staðið og standa næst starfi Sinfóníuhljómsveitarinnar, bæði að því er varðar reksturinn sjálfan og einnig að því er varðar faglega þekkingu. Þegar ég tala um rekstur á ég við fjármunahliðina.

Í ljósi þessa, sem ég hef sagt, tel ég vafasamt og e.t.v. varasamt að gera breytingar, a.m.k. efnisbreytingar að einhverju marki, á frv. eins og það var afgreitt frá nefndinni, enda þótt það væri með ákveðnum fyrirvörum.

Ég minntist áðan á umfjöllunina á liðnu vori. Það voru allir sammála um frv. þá, enda þótt fram kæmi efarödd þess efnis, að e.t.v. þyrfti ekki að setja lög um Sinfóníuhljómsveitina. Nú hefur niðurstaðan hins vegar orðið sú, að allir eru sammála um lagasetningu. Nú deila menn ekki um það í sjálfu sér, að Ríkisútvarpið skuli vera aðili að rekstrinum. Sem betur fer var fjárhagur Ríkisútvarpsins allgóður á árinu 1981, eftir því sem okkur er tjáð. Rekstur hljóðvarpsins virðist vera réttu megin við núllið, en aðeins virðist hafa hallað undan hjá sjónvarpinu, a.m.k. miðað við rekstur hljóðvarpsins. Þessir tveir rekstrarþættir virðast þó vega hvor annan upp. Reksturinn í heild virðist vera á núlli.

Í raun og sannleika er athyglisvert að í 32 ár skyldi vera eingöngu munnlegt samkomulag um rekstur Sinfóníuhljómsveitarinnar. Það er enginn skriflegur samningur til og hefur aldrei verið gerður um rekstur sinfóníuhljómsveitar. Í sjálfu sér var því kannske ekki einkennilegt að upp kæmi sú rödd, að það þyrfti nú allt í einu að fara að setja lög um Sinfóníuhljómsveitina. En þeir, sem gerst þekkja, hafa haldið því fram og það hefur verið knúið fastar á í því efni nú hin síðari ár og mönnum er fleiri og fleiri að skiljast að setning laga um Sinfóníuhljómsveitina er nauðsynleg. Ég tek undir það, að nauðsynlegt sé að um Sinfóníuhljómsveitina sé ákveðinn lagarammi.

Hins vegar er það kannske áhyggjuefni nú varðandi rekstur Sinfóníuhljómsveitar Íslands hversu margir erlendir hljóðfæraleikarar eru þar við störf, ef ég má svo að orði komast. (Gripið fram í.) Ég skal ekki dæma um það, en víst er það áhyggjuefni að svo margir erlendir hljóðfæraleikarar eru þar. Ef ég man rétt munu vera í starfi um það bil 19 útlendingar á vegum Sinfóníuhljómsveitarinnar. Samkv. frv. er gert ráð fyrir fjölgun stöðugilda í 65. Ég ætla mér ekki að fara að rekja þau rök sem færð hafa verið fyrir því, en í sjálfu sér hefði mátt spyrja hvort einhvers staðar hallaðist ekki á þegar þessir menn væru ráðnir, hvort það þyrfti þá ekki að bæta einni vers staðar annars staðar inn í hljómsmiðjuna, ef ég má svo að orði komast.

Ég sagði í upphafi máls míns að það væri í sjálfu sér óþarfi að tíunda þau margvíslegu rök sem eru fyrir því að halda hér uppi sinfóníuhljómsveit, sem að mínum dómi, ef starf hennar er öflugt, er í senn forskóli, grunnskóli, miðskóli og háskóli tónmennta í landinu — og ég endurtek: ef rétt er á málum haldið.

Eins og kynnt hefur verið liggja hér fyrir brtt. við frv. frá hv. þm. Þorvaldi Garðari Kristjánssyni og Salome Þorkelsdóttur, enn fremur ein brtt. frá hv. þm. Geir Gunnarssyni við þær brtt. Mig langar að víkja í örfáum orðum að brtt. á þskj. 373.

1. brtt. við 2. gr. er í sjálfu sér ekki efnisbreyting. Þar er tekið fram að það skuli, eins og gert er raunar í frv., „efla áhuga og þekkingu á æðri tónlist og gefa landsmönnum kost á að njóta hennar, m.a. með tónleikahaldi sem víðast um landið og með tónlistarflutningi í útvarp. Sérstaka áherslu ber að leggja á flutning og kynningu íslenskrar tónlistar, utan lands sem innan, ef tilefni gefast.“

Það er þetta með tónlistarflutning í útvarpi. Að mínum dómi er í sjálfu sér gert ráð fyrir þessu í frv. sjálfu, þ.e. í ljósi 25% kostnaðarþátttöku Ríkisútvarpsins í rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar, þannig að mér finnst þetta raunar liggja í hlutarins eðli. En ég endurtek: Í sjálfu sér skiptir ekki máli þó að þetta sé tekið fram í upphafi frv. Það skemmir ekki í sjálfu sér. Hvort það er þörf á að taka fram að áherslu beri að leggja á flutning og kynningu íslenskrar tónlistar utan lands sem innan, — ég skal játa að það er kannske þokkalegur blær á því að láta þetta standa í lögunum sjálfum. Hins vegar skiptir það ekki höfuðmáli að mínum dómi. Ég lýsi því yfir, að ég geri ekki aths. við þetta í sjálfu sér. En það eru engin efnisrök, að mér finnst, fyrir þessu. Það er um það getið, að hljómsveitin skuli efla sem mest og best tónmennt Íslendinga, og það á auðvitað við jafnt í ljósi erlendrar sem innlendrar tónlistar.

Brtt. um að framlag bæjarsjóðs Seltjarnarness falli niður er ég algerlega andvígur. Mér finnst það í raun og sannleika frekast móðgun við það ágæta bæjarfélag. Það er minn dómur vegna þess að ég hef hugmynd um að það séu allmargir í bæjarfélaginu síður en svo mótfallnir þessu framlagi til Sinfóníuhljómsveitarinnar. Einu gildir að mínum dómi hvernig farið var að þegar viðruð voru hin fyrri frumvörp um þetta efni. Það kann að hafa orðið einhver misbrestur á sambandi við hin sveitarfélögin, en auðvitað er augljós aðstöðumunur sveitarfélaga hér á stór-Reykjavíkursvæðinu að njóta tónlistarflutnings og þeirrar aðstöðu sem myndast að mörgu leyti vegna Sinfóníuhljómsveitarinnar, hins blómlega tónlistarlífs sem raunar er gert ráð fyrir að Sinfóníuhljómsveitin leiði af sér. Ég hygg að meginástæður þess, að menn voru margir fúsir til þess, að hin sveitarfélögin kæmu inn í, hafi einmitt verið þær, að auðvitað er þetta í raun og sannleika eitt og sama svæðið enda þótt sveitarfélögin séu mörg.

Hér segir að semja megi um hlutdeild sveitarfélaga í beinum staðbundnum kostnaði við tónleikahald hljómsveitarinnar utan Reykjavíkur. Það má bera þessa mgr. saman við þá mgr. sem er í frv. sjálfu þar sem segir: „Með samþykki rekstraraðila getur menntmrn. heimilað fleiri sveitarfélögum aðild að rekstri hljómsveitarinnar.“ Að mínu viti táknar brtt., þ.e. „semja má um hlutdeild sveitarfélaga í beinum staðbundnum kostnaði við tónleikahald hljómsveitarinnar utan Reykjavíkur,“ það í raun og sannleika að hugsanlegt sé að sem ja þegar um er að ræða sveitarfélög sem eru ofan Hvalfjarðar og austan Hellisheiðar. Ég geri ráð fyrir að það yrði ekki um slíka samninga að ræða þegar um væri að ræða tónleikahald hér á stór-Reykjavíkursvæðinu. Ég hygg að það mundi ætíð fara fram hér í Reykjavík, ekki síst í ljósi þess að menn færu varla að kalla yfir sig einhvern slíkan kostnað eins og hér er tíundaður.

Í frv. er gert ráð fyrir að Sinfóníuhljómsveitin skuli kappkosta að afla sjálfstæðra tekna af tónleikahaldi og stefna að því, að eigi minna en 12% af útgjöldum hljómsveitarinnar fáist greidd af slíkum tekjum. Nú skal ég játa að þetta 12% mark finnst mér að mörgu leyti út í hött. Sannleikurinn er sá, að á liðnu ári voru eigin tekjur hljómsveitarinnar 16% af heildartekjum þannig að þessi eigintekjuprósenta virðist fara allmjög hækkandi og mér finnst heldur lágkúrulegt að láta þarna standa prósentu af þessu tagi. Ég er sem sagt fylgjandi því, að hér standi eins og brtt. á þskj. 373 gerir ráð fyrir: „Sinfóníuhljómsveitin skal kappkosta að afla sjálfstæðra tekna af hljómleikahaldi, svo að sem mest af útgjöldum hljómsveitarinnar fáist greitt af slíkum tekjum hennar.“ Mér finnst þetta eðlileg breyting og ekki síst í ljósi þess, að sem betur fer hafa tekjur hljómsveitarinnar vaxið á liðnu ári í hlutfalli við heildartekjur.

En meginbreytingin, sem lögð er til á þskj. 373, er sú, að hljómsveitarráð komi í stað bæði stjórnar hljómsveitarinnar og verkefnavalsnefndar. Ég hef átt viðræður við nokkra þeirra aðila, sem hafa staðið að umfjöllun um þau frumvörp sem komið hafa fyrir augu hv. þm. í gegnum árin, og ég skal játa að þeim flestum ef ekki öllum ber saman um að það sé eðlilegra að hafa sérstaka verkefnavalsnefnd, þ.e. nefnd sem hefur hönd í bagga að því er varðar val á tónverkum í ljósi faglegrar þekkingar, en stjórn hljómsveitarinnar sé fyrst og fremst fjármunalegur stjórnandi og einbeiti kröftum sínum að því. E.t.v. er það svo í hugum einhverra að þetta sé of flókið, að þarna muni menn vísa hver á annan og út úr þessu komi nánast ekki neitt. Ég held fyrir mitt leyti að það sé að mörgu leyti þægilegra fyrir hljómsveitina að hafa þetta tvískipt, þ.e. að hinir fjármunalegu ábyrgðaraðilar geti fyrst og fremst einbeitt sér að þeim þætti. Í fyrsta lagi þarf verkefnavalsnefndin að mörgu leyti að gera sér grein fyrir kostnaðinum, en hún er fyrst og fremst hinn faglegi aðili. Síðan tekur stjórn hljómsveitarinnar við. Ég held að þetta sé það veigamikil breyting, stofnun hljómsveitarráðs í stað þeirra tveggja þátta sem ég hef nefnt, að það sé nánast útilokað að fallast á hana, og ég er því mótfallinn.

Í sjálfu sér er ekki þörf á að ræða þetta frekar að mínum dómi. Ég vil þó benda á að í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir að stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar ráði sér framkvæmdastjóra og beri hann ábyrgð á störfum sínum gagnvart henni. Skal hann ráðinn til fjögurra ára í senn, en endurráðning er heimil. Samkv. 6. gr. er gert ráð fyrir að stjórn hljómsveitarinnar ráði fastan hljómsveitarstjóra og aðalhljómsveitarstjóra, þ.e. eins konar gestahljómsveitarstjóra, skilji ég þetta rétt, og skipi verkum með þeim. Þarna er ekki gert ráð fyrir neinum tímamörkum. Ég skil þetta svo, að stjórn hljómsveitarinnar sé heimilt að ráða slíkan mann til eins árs, hálfs annars eða hvaða tíma sem vera skal, hvort sem um er að ræða fastan hljómsveitarstjóra eða aðalhljómsveitarstjóra.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar. Ég vara við því að gera stórvægilegar efnislegar breytingar á þessu frv., ekki síst í ljósi þess, eins og við flest, held ég, höfum hugmynd um, að þeir, sem eru gagnkunnugastir rekstri þeim og ráðagerðum sem hér er verið að fjalla um, bæði að því er varðar fjármunum og faglega þekkingu, hafa í gegnum tíðina náð samstöðu um ákveðna þætti. Það er fyrst og fremst þess vegna sem ég legg til að meginefnisatriði frv. verði látin halda sér.