10.03.1982
Neðri deild: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2969 í B-deild Alþingistíðinda. (2537)

233. mál, söluskattur

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég verð víst að skýra afstöðu mína enn þá betur út frá því að hv. þm. Tryggvi Gunnarsson skildi hana ekki nægilega.

Ég lít svo á að þetta sé bæði réttlátt og gott mál, en ég geri það ekki að stjórnarslitarmáli. Við framsóknarmenn höfum margoft orðið að hafa vit fyrir hæstv. fjmrh. í enn þá stærri málum en þessu og við megum ekki beita þennan ágæta samstarfsmann okkar of miklu ofríki, svo að hann verði leiður á okkur og fari að leita sér að stjórnarslitamálum sjálfur, því að við ætlum náttúrlega að hafa þessa stjórn áfram.

Ég tel raunar að þetta séu óþarfar vangaveltur. Hæstv. fjmrh. hlýtur að fylgja málinu því að auðvitað hefur varamaður hans, hv. þm. Hannes Baldvinsson, hreyft því á þingflokksfundi og samband verið haft við hæstv. fjmrh. þannig að hann hlýtur að vera búinn að samþykkja þetta mál fyrir sitt leyti.