16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3068 í B-deild Alþingistíðinda. (2600)

348. mál, lántökur ríkissjóðs og ríkisstofnana

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen spyr hverjar séu lántökur ríkissjóðs, ríkisstofnana, fjárfestingarlánasjóða ríkisins svo og lántökur annarra með ábyrgð ríkissjóðs eða fjárfestingarlánasjóða ríkisins og biður um sundurliðun með sérstökum hætti.

a) Erlendar lántökur ríkissjóðs. Svarið er: Á tímabilinu 1. jan. til 30. nóv. 1981 tók ríkissjóður tvö erlend lán að upphæð 15 millj. sterlingspunda og 30 millj. dollara. Síðara lánið var til skamms tíma. Hluta af andvirði fyrrnefnda lánsins var varið til greiðslu lántökukostnaðar og erlends skammtímaláns frá árinu 1980, en innkomið andvirði þessara lána er 372.7 millj. kr. á gengi 30. nóv. 1981.

b) Erlendar lántökur ríkisstofnana og fjárfestingarlánasjóða ríkisins. Svarið er: Framkvæmdasjóður tók á árinu 1981 lán að upphæð 212 490 918 kr. reiknað á gengi lántökudags. Lánið sundurliðast annars vegar í lán í yenum upp á 1605 millj. yena og svo hins vegar lán í dollurum upp á 19.5 millj. dollara. Áburðarverksmiðja ríkisins tók lán vegna byggingar saltpéturssýruverksmiðju. Hinn 30. nóv. s.l. hafði verksmiðjan tekið 550 þús. dollara af 2.2 millj. dollara lánsloforði og 3.3 millj. franskra franka af öðru lánsloforði sem var upp á tæpar 17.3 millj. franskra franka. Á þessu tímabili tók Sementsverksmiðjan eitt erlent lán með milligöngu Landsbanka Íslands frá Irving Trust í New York að upphæð 1 272 500 dollara til 7 ára. Lánið var tekið í september.

c) Þá er spurt um erlendar lántökur annarra, sem fengið hafa ríkisábyrgðir. Þar er um að ræða í fyrsta lagi Útgerðarfélag Norður-Þingeyinga hf. 1 900 126 pund, sem á lántökudegi jafngilti 27.2 millj. kr. Búlandstindur hf. tók lán í dollurum upp á 2.8 millj. dollara og það jafngilti á lántökudegi 23 millj. ísl. kr.

d) Spurt er um lántökur annarra án ríkisábyrgðar. Þetta er viðamikil spurning og var leitað svara hjá gjaldeyrisbönkum við henni. Svörin eru svohljóðandi:

Frá Útvegsbanka Íslands.

1. Staða skammtímalána, sem Útvegsbanki Íslands hafði tekið erlendis og endurlánað innanlands, var 31. des. 1980 nýkr. 69 591 896.65 á gengi þess dags, en 31. des. 1981 var staðan kr. 67 742 199.40 á gengi þess dags. Skammtímalán af þessu tagi tekin á árinu 1981 og endurgreidd á sama ári voru 55 að tölu og námu 312 914 485 kr. á gengi greiðsludags. Innifalin í ofangreindum tölum er fjármögnun greiðslufrests á olíuinnflutningi, sem nam 35 768 627 kr. 31. 12. 1981, og kr. 296 391 544.30 af teknum og uppgreiddum lánum ársins 1981. Auk þessa eru skammtímalántökur í formi greiðslufrests erlendra seljenda oftast annaðhvort gegn ábyrgð bankans eða gegn samþykki víxils sem bankinn tekur til innheimtu en kaupir ekki. Af þeim sökum koma þeir ekki fram í reikningum bankans. Greiðslufrestir gegn ábyrgð bankans námu 31. des. 1981 55 653 820 kr. á gengi þess dags, en af því voru 37 803 600 kr. vegna olíuinnflutnings frá Sovétríkjunum, en 31. des. 1980 námu þeir í nýkr. 30 millj. 304 þús. á gengi þess dags og þar af í nýjum krónum talið 16 490 400 vegna olíuinnflutnings frá Sovétríkjunum.

Frá Landsbankanum barst svohljóðandi svar:

Staða skammtímalána, sem Landsbankinn hafði tekið erlendis og endurlánað innanlands, var 31. des 1980 nýkr. 314 499 800 kr. á gengi þess dags, en 31. des. 1981 var staðan 413 649 435 kr. á gengi þess dags. Skammtímalán af þessu tagi tekin á árinu 1981 og endurgreidd á sama ári voru 185 að tölu og námu 1052 990 000 kr. á meðalgengi ársins 1981. innifalin í ofangreindum tölum er fjármögnun greiðslufrests á olíuinnflutningi utan Sovétríkjanna, sem nam kr. 92 millj. 96 þús. 31. 12. 1980, en 104 millj. 793 þús. kr. 31. 12. 1981. Auk þessa er mikið af erlendum skammtímalántökum í formi greiðslufrests erlendra seljenda oftast annaðhvort gegn ábyrgð bankans eða gegn samþykkt víxils sem bankinn tekur til innheimtu en kaupir ekki. Af þeim sökum koma þeir ekki fram í reikningum bankans og eru ekki á hraðbergi hjá bankanum tölur um þá. Hins vegar er til hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabankans skráning á þeim fyrir gjaldeyrisbankana báða og verður að vísa þangað um upplýsingar um þennan þátt. Greiðslufrestir gegn ábyrgð bankans námu 31. des. 1981 320 millj. 834 þús. kr. á gengi þess dags, en af því voru 225 millj. 986 þús. kr. vegna olíuinnflutnings frá Sovétríkjunum, en 31. des 1980 námu þeir í nýkr. 120 millj. 934 þús. á gengi þess dags og þar af í nýkr. talið 48 millj. 836 þús. vegna olíuinnflutnings frá Sovétríkjunum.

Þá kemur 2. liður fsp. Innlendar lántökur ríkissjóðs.

a) Seld hafa verið spariskírteini að andvirði 37.7 millj. kr.

b) Seld hafa verið happdrættisbréf að fjárhæð 5 millj. kr.

c) Bankar og sparisjóðir höfðu 30. nóv. keypt skuldabréf af ríkissjóði fyrir 53.9 millj. kr.

d) Lífeyrissjóðir höfðu 30. nóv. keypt skuldabréf af ríkissjóði fyrir 52.2 millj. kr.

3. Innlendar lántökur ríkisstofnana og fjárfestingarlánasjóða ríkisins.

a) Það er spurt um verðbréf keypt af bönkum og sparisjóðum. Húsnæðisstofnun fékk lánsheimild hjá Seðlabanka Íslands fyrir 40 millj. kr. Um s.l. áramót hafði stofnunin notað 20 millj. kr. af þessari lántökuheimild.

b-liður. Verðbréf keypt af lífeyrissjóðum. Hinn 30. nóv. höfðu lífeyrissjóðirnir keypt skuldabréf af fjárfestingarlánasjóðum ríkisins fyrir 323 millj. kr.

e) Annað. Áhaldahús Vegagerðarinnar tók lán hjá Framkvæmdasjóði að fjárhæð 5.7 millj. kr. og er það lán gengistryggt.

II. Að hve miklu leyti hefur því lánsfé, sem aflað hefur verið, verið ráðstafað og hvernig? — Upplýsingar um þennan þátt málsins hafa áður verið gefnar fjárhagsnefndum hv. Ed. og Nd. þingsins og vegna þess að fsp. er skammtaður ákveðinn tími og ég mundi ekki komast mjög langt með þá upptalningu vil ég leyfa mér að vísa í þær upplýsingar sem gefnar hafa verið í fjh.- og viðskn. deildanna. Ég vil taka það fram, að hér er um mjög viðamikla fsp. að ræða og vissulega má hugsa sér að fsp. væri svarað á miklu ítarlegri hátt en hér er gert, en þetta verður að duga og vænti ég þess að fsp. sé svarað.