16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3070 í B-deild Alþingistíðinda. (2602)

348. mál, lántökur ríkissjóðs og ríkisstofnana

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Eins og kunnugt er liggja fyrir upplýsingar um afkomu ríkissjóðs á hverju ári með tvennum hætti. Annars vegar liggur fyrir afkoman á liðnu ári samkv. rekstraryfirliti, en þó byggðu á greiðslugrunni, þ.e. þá er búið að átta sig á hver staðan er greiðslulega séð um áramót, án þess að raunverulegar tekjur ársins séu þá að öllu leyti komnar inn í myndina. Upplýsingar um þetta atriði málsins eru yfirleitt gefnar einhvern tíma á fyrstu mánuðum ársins. Ég geri ráð fyrir að yfirlit af þessu tagi verði gefið innan fárra daga, en vil þó láta þess getið, að samkv. þeim upplýsingum, sem nú liggja fyrir, hefur orðið rekstrarafgangur hjá ríkissjóði á liðnu ári miðað við greiðslugrunn, eins og fjárlög gera ráð fyrir.

Hins vegar tekur öllu lengri tíma að reikna nákvæmlega út hverjar hafa verið raunverulegar tekjur og gjöld ríkisins. Þær upplýsingar hafa yfirleitt ekki legið fyrir fyrr en A-hluti ríkisreiknings hefur verið lagður fram hér á Alþingi í maímánuði.

Ég geri sem sagt ráð fyrir að þessu verði hagað með svipuðum hætti nú, að bráðabirgðaupplýsingar verði gefnar innan nokkurra daga um rekstrarafkomu ríkissjóðs á greiðslugrunn miðað við s.l. áramót, en hitt verði svo að bíða fram til maímánaðar, að upplýsingar liggi fyrir um raunverulega útkomu samkv. ríkisreikningi.