16.03.1982
Sameinað þing: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3112 í B-deild Alþingistíðinda. (2655)

Umræður utan dagskrár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það er dapurlegt hlutverk, hlutverk hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, formanns þingflokks Alþb., að standa hér upp og hafa í hótunum við samstarfsmenn sína í núv. ríkisstj. Hann sagði að ef breytt yrði um stefnu færu þeir að hugsa sig um. Ég vil minna hv. þm. á það, að hann hefur í ræðum á Alþingi sagt berum orðum að ekki kæmi til greina að Alþb. mundi nokkru sinni samþykkja nema framkvæmd á Keflavíkurflugvelli. Síðan þau orð voru sögð hafa orðið miklar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli. Það hefur verið unnið þar við flugbrautir, það hafa verið reist flugskýli. Nú er Helguvíkurmálið í fullum gangi, og það er enn þá verið að ræða um flugstöðvarmálið. Ég held að það fari ekkert á milli mála að þær framkvæmdir, sem farið hafa fram og fyrirhugaðar eru, séu einhverjar mestu framkvæmdir sem unnið hefur verið að á Keflavíkurflugvelli um áratugaskeið. Þetta gerist í stjórnartíð Alþb. Ég spyr þess vegna: Hversu langt er hægt að ganga í þessu máli áður en Alþb. stendur við það sem það hefur fullyrt æ ofan í æ?

Hér hafa verið færðar fram þakkir til hæstv. utanrrh. Ég segi fyrir mig að mér finnst það ekkert sérstaklega þakkarvert að fylgja fram viljayfirlýsingu hins háa Alþingis, eins og hæstv. utanrrh. hefur gert. En hann er ugglaust meiri maður fyrir að standa uppi í hárinu á þeim mönnum sem standa ekki við það sem þeir hafa sagt.

Herra forseti. Ég held að orðið sé tímabært eftir þá löngu umræðu sem hér hefur farið fram í dag að reyna að draga saman í nokkur atriði hvað hefur gerst á þessum langa fundi.

Í fyrsta lagi hefur það gerst, að hér hefur komið fram viðurkenning á því, einkum og sér í lagi frá hæstv. félmrh., að innan ríkisstj. sé mikill ágreiningur vegna þessa máls. Félmrh. lét hins vegar í ljós þá skoðun sína, að fyrir hendi væri vilji til þess að leysa þetta mál. Ég hef verið að velta því fyrir mér, hvernig þetta mál verði leyst. Ég sé aðeins tvær leiðir. Önnur er sú, að Alþb. kokgleypi öll stóru orðin undanfarna daga. Hin er sú, að það slíti stjórnarsamstarfi. Aðrar leiðir eru ekki færar. Svo einfalt er þetta mál.

Ég vil renna stoðum undir þessar fullyrðingar mínar. Það er ljóst að ágreiningur er innan ríkisstj. í þessu máli og sá ágreiningur er mjög alvarlegur. Utanrrh. hefur ákveðið að halda sínu striki hvað sem tautar og raular. Hann hefur með verkum sínum og ákvörðunum sýnt fram á það, að hann ætlar ekki að láta stöðva sig, hann ætlar að fylgja fram vilja Alþingis í þessu máli.

Hæstv. félmrh. og hæstv. iðnrh. eru hins vegar algjörlega á öndverðri skoðun. Fer það ekki fram hjá neinum þm. sem hér hefur hlustað á umr í dag. Þeir telja jafnvel að hæstv. utanrrh. hafi fyrir valdsvið sitt. Í dag er svo spurt og sú spurning borin undir hæstv. forsrh.: Hefur hæstv. utanrrh. farið út fyrir valdsvið sitt? Þetta er kjarninn í þeirri spurningu sem hér var borin fram. Treystir hæstv. forsrh. hæstv. utanrrh.? Og hvað er verið að fá fram með slíkri spurningu? einfaldlega það, að við viljum fá að vita hvort hæstv. forsrh. styður við bak hæstv. utanrrh. í þessu máli. Svo einfalt er þetta.

Síðan stendur hæstv. forsrh. hér upp og segir að hann telji það hafa verið styrk og feng fyrir núv. ríkisstj. að fá núv. hæstv. utanrrh. í það einbætti sem hann gegnir. Og hann sagði: „Utanrrh. hefur notið og nýtur trausts forsrh.“ Hér tel ég því að það komi mjög skýrt fram hjá hæstv. forsrh., að hann styðji hæstv. utanrrh. í þeirri deilu og í því ágreiningsmáli sem hann á í við hæstv. félmrh. og hæstv. iðnrh. (Gripið fram í: Nei, nei.) Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson getur komið hér upp á eftir og túlkað sínar skoðanir en gerir það ekki úr sæti sínu.

Þá held ég að við séum komnir að kjarna málsins og hann er einfaldlega þessi: Alþb. verður annaðhvort að kyngja því sem það hefur sagt, eins og ég sagði áðan, eða slíta stjórnarsamstarfinu. Aðrir möguleikar eru ekki fyrir hendi eftir öll þau stóru orð sem hér hafa verið sögð.

Ég verð einnig að segja það, herra forseti, að mér þótti þögn Alþb. hér framan af í dag vera orðin býsna æpandi. Hæstv. félmrh. bætti nokkuð úr því og kjarkmaðurinn, eins og hann var kallaður hér fyrr í dag, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, bætti líka dálítið úr þessu. Engu að síður vil ég taka það skýrt fram, að mér finnst afstaða Alþb. í þessu máli öllu vera mjög undarleg. Nú skal ég segja ykkur hvers vegna. Alþb. tekur upp á því í miðri þessari umræðu að grafa upp rúmlega eins árs gamlar tillögur frá Olíufélaginu hf. og leggja til að lagnir verði lagðar og geymar smíðaðir samkv. hugmyndum Olíufélagsins hf. Þessar hugmyndir Olíufélagsins komu auðvitað fram til þess að Olíufélagið gæti styrkt stöðu sína í öllum þeim olíubransa sem á sér stað í kringum varnarliðið og hér á landi yfirleitt. Ég vil greina hv. þingmönnum frá því, m.a. hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, ef hann ekki veit það, að þetta olíufélag fær á hverju einasta ári um 4 millj. dollara eða 40 millj. nýkr., 4 milljarða gkr., fyrir að leigja varnarliðinu aðstöðu uppi í Hvalfirði. Það er þetta olíufélag sem hv. þm. í Alþb. vilja styðja við bakið á með því að fara eftir tillögum þess í því, hvernig beri að byggja upp olíuleiðslukerfið í kringum Keflavík. Þetta er ekki göfugt hlutverk. (ÓRG: Þetta eru skynsamlegar tillögur.) Þetta er ekki göfugt hlutverk sem Alþb. hefur valið sér.

Engu að síður held ég að með því að draga saman það, sem hér hefur verið sagt í dag, í örfá orð hljóti niðurstaðan að verða sú, að hæstv. forsrh. er í ógnarlegri klípu. Ég held jafnvel að hv. þm. Albert Guðmundsson sé mér sammála um þetta, að ráðherrann sé í mikilli klípu. Þess vegna hlýtur þjóðin öll — ekki bara þingheimur — að spyrja þessarar einföldu spurningar: Ætlar Alþb. að viðurkenna valdsvið hæstv. utanrrh. í þessu máli, ætlar það að bakka með hvert einasta atriði sem það hefur sagt? Orð hæstv. utanrrh. í fjölmiðlum og annars staðar gefa ekki annað til kynna en að hann ætli að fylgja sínu máli eftir af hinni mestu alvöru og ekki gefa Alþb. eftir.

Þess vegna hlýtur það að vera mjög einföld niðurstaða sem af öllum þessum löngu umr. hér í dag má draga. Hún er þessi: Springi ríkisstj. ekki, kokgleypir Alþb., en kokgleypi Alþb. ekki, þá hangir ríkisstj.