22.03.1982
Efri deild: 58. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3150 í B-deild Alþingistíðinda. (2744)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Á þskj. 373 voru þrjár brtt. óafgreiddar við 2. umr., þ.e. 4., 5. og 6. brtt. Þær voru þá teknar til 3. umr. og nú eru þær teknar endanlega til baka. Ástæðan til þess, að ekki var hægt að afgreiða þessar till. við 2. umr., var sú, að gert var ráð fyrir að áfram stæði í frv. „stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar“ í staðinn fyrir „hljómsveitarráð“ sem við hv. 4. landsk. þm. höfðum lagt til og stóð í þeim brtt. sem við hófum nú dregið til baka. Það eru ekki aðrar breytingar í 1. og 2. brtt., sem lagðar eru núna fram á þskj. 489, en þær, að tekið er inn í brtt. „stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar“ staðinn fyrir „hljómsveitarráð“.

Um 3. brtt. er það að segja, að þar er um verulega breytingu að ræða frá brtt. okkar sem tekin hefur verið til baka, því að þar var gert ráð fyrir að niður félli 7. gr. frv. varðandi verkefnavalsnefnd. En nú er gert ráð fyrir að 7. gr. frv. falli ekki niður, heldur standi hún áfram með þeirri breytingu. að við hv. 4. landsk. þm. leggjum til í brtt. okkar á þskj. 489 að 7. gr. frv. verði gerð að heimildargrein, þ.e. að heimilt sé að skipa verkefnavalsnefnd, eins og þar er gert ráð fyrir, en ekki skylda eins og frv. gerir ráð fyrir.

Ég sé ekki ástæðu til til að fjölyrða um þessar brtt. á þskj. 489. Það hefur þegar verið rætt mikið um þetta mál, og um þær till., sem hér er um að ræða, var rætt við 2. umr. málsins. En ég vænti þess, að það fari með þær till., sem nú eru bornar fram, eins og flestar þær till. sem við hv. 4. landsk. þm. höfum borið fram, að þær verði samþykktar í hv. deild, vegna þess að þær till., sem nú eru fram bornar, eru tvímælalaust til bóta eins og þær till. aðrar sem þegar hafa verið samþykktar. Skal ég þessu til áréttingar víkja örfáum orðum nánar að þessum brtt.

Fyrsta brtt. á þskj. 489 er um að 5. gr. frv. orðist eins og þar segir. Í upphafi er brtt. alveg eins orðuð og 5. gr. frv., efnislega og sama orðalag, tekið fram að stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar ræður framkvæmdastjóra til fjögurra ára í senn, en endurráðning er heimil. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri hljómsveitarinnar. Þetta er óbreytt frá því sem frv. gerir ráð fyrir. Bið ég menn nú að taka eftir hvað brtt. felur í sér. Hún felur í sér þetta framhald: Framkvæmdastjóri „undirbýr verkefnaval í samvinnu við hljómsveitarstjóra, stjórnarformann og aðra þá aðila, sem kvaddir kunna að vera til ráðuneytis, og leggur starfs- og rekstraráætlanir fyrir til umfjöllunar og afgreiðslu. Áætlanir þessar skulu gerðar fyrir eitt ár í senn og liggja fyrir eigi síðar en 1. júní ár hvert fyrir næsta almanaksár.“ Þetta er brtt. Hún er um að kveða fyllra á um verkefni framkvæmdastjóra og leggja sérstaka áherslu á vissa þætti sem þykja mikilvægir. Ég vænti þess, að hv. deildarmenn sjái að það er sjálfsagt að samþykkja brtt. sem felur í sér þessar lagfæringar.

Aðeins örfá orð um 2. brtt. okkar hv. 4. landsk. þm. á þskj. 489. Þessi brtt. er við 6. gr. frv. og fjallar um stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar, verkefni hennar. Í 6. gr. frv. segir: „Stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar ræður fastan hljómsveitarstjóra og aðalhljómsveitarstjóra og skipar verkum með þeim.“

Í brtt. er gert ráð fyrir að 1. málsgr. 6. gr. hljóði á þennan veg, með leyfi hæstv. forseta: „Stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar ræður hljómsveitarstjóra til tveggja ára í senn og skipar verkum með þeim að fengnum tillögum framkvæmdastjóra.“ Hver er breytingin? Breytingin er í fyrsta lagi að í staðinn fyrir að í frvgr. er talað um að stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar ráði fastan hljómsveitarstjóra og aðalhljómsveitarstjóra er í brtt. einungis talað um hljómsveitarstjóra. Ég hef áður greint frá því, hvers vegna þessi breyting er lögð til. Það er vegna þess að við teljum ekki eðlilegt að binda í lög ákvæði um það sem nú er kallað fastur hljómsveitarstjóri og aðalhljómsveitarstjóri. Það hlýtur að vera í valdi hljómsveitarstjórnarinnar á hverjum tíma, hvernig þessum málum er háttað, og þess vegna eðlilegt að hafa rúmt ákvæði sem einungis heimilar stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar að ráða hljómsveitarstjóra og að sjálfsögðu eftir því sem hentar á hverjum tíma.

Þá er í öðru lagi gert ráð fyrir að hljómsveitarstjórar — það geta verið einn eða fleiri — séu ráðnir til tveggja ára í senn. Það er ekki gert ráð fyrir því í frv. sjálfu. Þetta er um 1. mgr. 6. gr. frv. Breyting verðandi 2. mgr. 6. gr. frv. er einungis sú, að brtt. felur í sér ekki einungis að stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar ráði hljóðfæraleikara að fengnum tillögum framkvæmdastjóra, eins og er í frv. sjálfu, heldur leggjum við til að á eftir þessu komi: „og að undangengnum prófum ef ástæða er til“. Breytingin er ekki önnur. Þá hef ég talið upp allar breytingar sem eru fólgnar í brtt. okkar hv. 4. landsk. þm. á þskj. 489, 2. lið.

Ég kem þá að lokum að 3. brtt. Hún fjallar um það, að 7. gr. frv. orðist eins og þar segir. Þar er gert ráð fyrir að 7. gr. frv. orðist nákvæmlega eins og frvgr. sjálf nema að í frv. er skylda að setja á stofn verkefnavalsnefnd, en í brtt. okkar er um að ræða heimild til stjórnar Sinfóníuhljómsveitarinnar að gera slíkt.

Þessi brtt. kemur til af því, að við hv. 4. landsk. þm. höfum lagt áherslu á að það sé mikilvægt að dreifa ekki ábyrgð á stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar um of og láta koma fram á sama vettvangi, hjá sama stjórnvaldi bæði fjárhagsleg og listræn sjónarmið. Þess vegna lögðum við upphaflega til að það yrði ekkert í lögum um verkefnavalsnefnd. En með því að deildin féllst ekki á það sjónarmið okkar í atkvgr. við 2. umr. málsins þykir okkur ekki rétt að halda áfram að leggja til að greinin um verkefnavalsnefnd falli niður, heldur að hún sé gerð að heimildargrein. Það er með tilliti til þess, að við teljum að það þurfi ekki endilega að vera rétt eða jafnvel vera vilji þeirrar stjórnar Sinfóníuhljómsveitarinnar, sem verður kjörin þegar frv. þetta er orðið að lögum, að setja á stofn sérstaka verkefnavalsnefnd, þess vegna sé eðlilegt að það sé á valdi stjórnar Sinfóníuhljómssveitarinnar að ákveða um slíkt. En ef þessi nefnd er skipuð ber að skipa hana samkv. ákveðnum reglum, og þær reglur eru í brtt. okkar hv. 4. landsk. þm. nákvæmlega þær sömu og reglur 7. gr. frv.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, en vænti þess. að þessar tillögur fái verðuga afgreiðslu og staða Sinfóníuhljómsveitarinnar verði bætt frá því, sem er í sjálfu frv., með því að samþykkja þessa brtt.