23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3158 í B-deild Alþingistíðinda. (2761)

213. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Ein umr, Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Á þskj. 361 hef ég leyft mér að bera fram fyrirspurnir til hæstv. félmrh. varðandi framkvæmd laga um Húsnæðisstofnun ríkisins.

„1. a) Á hvern hátt hefur Húsnæðisstofnun ríkisins framkvæmt ákvæði VI. kafla laganna að því er varðar tækninýjungar og rannsóknir í byggingariðnaði?

b) Hvernig hefur verið staðið að opinberri samkeppni um gerð uppdráttar af húsum, fylgst með og kynntar tækninýjungar sem stuðlað gætu að lækkun byggingarkostnaðar?

2. a) Hversu háar fjárhæðir hefur stofnunin veitt í lánum eða styrkjum vegna tækninýjunga í byggingariðnaði s.l. tvö ár?

b) Hvaða aðilar hafa fengið þau lán eða styrki?“ Eins og öllum er kunnugt fjallar VI. kafli laga um Húsnæðisstofnun ríkisins um tækni- og þjónustudeild. Hlutverk deildarinnar er tvíþætt: Annars vegar skal hún vera húsnæðisstjórn til ráðuneytis um tæknileg atriði. Hins vegar skal hún veita húsbyggjendum þjónustu með ráðgjöf um byggingarmál og sölu íbúðateikninga. Eitt af verkefnunum er að vera ráðgjafi Húsnæðisstofnunar og stjórnar hennar um tæknimál og annast samskipti við aðra opinbera aðila sem vinna að áætlanagerð, rannsóknum og tilraunum á sviði húsnæðis- og byggingarmála. Hún á einnig að sjá um viðhald og dreifingu teikningasafns stofnunarinnar og afla nýrra lausna með því að gangast fyrir opinberri samkeppni um gerð uppdrátta af húsum og/eða byggingarhlutum og dreifa til byggjenda bestu lausnum sem fást úr slíkri samkeppni. Hún á einnig að fylgjast með og kynna tækninýjungar sem stuðlað geta að lækkun byggingarkostnaðar.

Í 30. gr. laganna stendur að Húsnæðisstofnun sé heimilt að veita lán til að taka í notkun tækninýjungar, enda fylgi útreikningar sem sýni á hvern hátt hún geti leitt til lækkunar byggingarkostnaðar. Og í 31. gr.: Fjárhæð láns og lánstími skal ákveðið hverju sinni með hliðsjón af kostnaði við að koma nýjunginni í notkun og mikilvægi hennar fyrir byggingariðnaðinn.

Það má spyrja: Hvers vegna er verið að spyrja um þetta hér? Ég vil aðeins segja það, að eins og hér kemur fram var annar höfuðtilgangur laga um Húsnæðisstofnun ríkisins að stuðla að lækkun byggingarkostnaðar, efla viðleitni og rannsóknir og nýjungar í byggingariðnaði í samvinnu við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, þar með fyrirgreiðslu til að byggja tilraunahús sem gætu stuðlað að ódýrara og hentugra byggingarformi miðað við okkar aðstæður, og til að nýta innlent byggingarefni og innlent hugvit og tækni. Aðilar, sem eru með ýmsar athyglisverðar tilraunir á þessu sviði, bæði hvað varðar nýjungar í húsagerð, svo sem einangrun og byggingarefni og nýjungar í milliveggja- og útveggjagerð, hafa kvartað yfir því að fá ekki viðunandi fyrirgreiðslu hjá Húsnæðisstofnun ríkisins í samræmi við lögin og ekki heldur hjá Iðnlánasjóði.

Ég ætla ekki í framsögu að fara nánar út í þetta atriði, en ég vænti þess, að hæstv. félmrh. gefi okkur svör við þessum spurningum.