23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3180 í B-deild Alþingistíðinda. (2785)

234. mál, bókasafn Landsbankans og Seðlabankans

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir beindi spurningum til mín í sambandi við þetta safn. Ég vil segja það, að ég tel mikilvægt í okkar þjóðfélagi að öllum menningarverðmætum sé bjargað, og til þess að bjarga menningarverðmætum þarf að eyða fjármagni. Seðlabanki Íslands og Landsbanki Íslands hafa gert sér far um að bjarga þeim verðmætum sem rekið hefur á fjörur bankanna í gegnum áratugina með ýmsum hætti. Það hlýtur að teljast eðlilegt, og ég veit að allir þm. eru mér sammála um það, að slíku á að bjarga frá glötun. Hvort á að binda það í skinnband eða með hverjum hætti eða geyma það skal ég ekki leggja dóm á, en það, sem þarna hefur verið gert, er að mínu mati mjög merkilegt starf. Hv. þm. mætti hafa í huga að í það húsnæði, sem þessar bækur eru geymdar í núna, var flutt vorið 1980 og verið er að koma þessum bókum þarna fyrir. Ég veit að hv, þm. hefur tekið eftir því, að það er mjög mikið starf að ganga frá öllum þeim gripum sem þarna eru. Þegar því er lokið verður þetta safn opnað. Að sjálfsögðu, eins og hefur komið fram, er þetta safn fyrst og fremst fyrir fræðimenn. Að mínu mati kemur ekki til mála að fara að lána út úr þessu safni. Þetta er ekki safn sem er byggt upp til útlána. Þetta er safn sem er byggt upp sem varðveislusafn og safn til þess að stunda rannsóknarstörf. Og þá væri nær fyrir hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, sem gefur sig út fyrir að vera mikinn vin menningarverðmæta, að gleðjast yfir því, að öllum þeim verðmætum, sem þarna eru, hefur verið bjargað frá glötun.