23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3184 í B-deild Alþingistíðinda. (2792)

234. mál, bókasafn Landsbankans og Seðlabankans

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég skal ekki ræða frekar um safnið heldur aðeins segja örfá orð í tilefni af því sem hv. þm. sagði um Framkvæmdastofnun ríkisins.

Hv. þm. sagði að það ætti að leggja þessa stofnun niður. Honum virðist ekki vera kunnugt um að hans flokkur tók þátt í að setja þessa stofnun á fót.

Í öðru lagi er alveg sýnilegt að hv. þm. er ekki kunnugur úti á landsbyggðinni. Hann mundi finna það, þó hann finni það ekki hér, ef hann hefði átt heima úti á landsbyggðinni, hvaða verkefni það eru sem Framkvæmdastofnun ríkisins hefur látið sig varða á undanförnum 10–11 árum í sambandi við margþætta uppbyggingu atvinnulífsins hringinn í kringum landið. Það mundi hann finna.

Mig langar aðeins til að segja þetta í tilefni af því sem hv. fyrirspyrjandi sagði, en varðar ekki þá spurningu sem beint var til mín.