14.10.1981
Neðri deild: 3. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

2. mál, Listskreytingasjóður ríkisins

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Í dag er 14. okt. Ég vil minna á að myndlistarmenn hafa gert þennan dag að sérstökum baráttudegi sínum. Þeir vilja með því berjast fyrir réttindum sínum og viðurkenningu þjóðfélagsins á störfum myndlistarmanna. Ég vil í tilefni af þessum degi flytja myndlistarmönnum hamingjuóskir og þakkir fyrir framlag þeirra til menningarauka í þjóðfélaginu, umhverfisfegrunar og bætts smekks fólksins í landinu.

Tilbrigði listarinnar eru mörg og listtjáning kemur fram á ýmsa vegu: í tali og tónum, leiktjáningu og dansi og margs konar annarri list, þ. á m. myndlist. Ég segi ekki að myndlistin sé í sjálfu sér æðri öllum listgreinum en hitt er víst, að myndlist og mótunarlist, sjónlistir setja hvað mestan svip á mannlegt umhverfi allra listgreina þannig að menn lifa með myndlistinni langt umfram það sem gerist um aðrar listgreinar. Þetta er á engan hátt nýlunda í lífi manna. Þetta er ekkert nútímafyrirbæri. Myndlistin er að kalla jafngömul mannkyninu, líklega elsta listform mannsins. Og það er athyglisvert við myndlistina hversu langlíf hún er, þ. e. hversu myndlistarverk fá notið sín og geta staðið fyrir sínu öld af öld, árþúsundir eftir árþúsundir. Þetta sannar, svo að varla verður um deilt, að mannkyninu er myndlistin næstum að segja í blóð borin. Hún liggur í eðli mannsins, má segja.

Myndlistargáfan, formskynið er hvort tveggja í senn frumstæð náttúruhvöt mannsins og vitni um hugvit hans og þroska og sköpunarmátt. Allir menn eru að einhverju leyti gæddir þessari gáfu, a. m. k. þeim hæfileika að njóta þess sem fagurt er og vel gert og listrænt þó að ekki verði þeir taldir til listamanna.

Listamenn eru þeir sem hafa sjálfa náðargáfuna að búa til listræn verk sem menn vilja sjá og menn vilja hafa í kringum sig. Myndlistarmenn inna af hendi mikilvæg störf í þjóðfétaginu. Hlutverk þeirra er m. a. að fegra mannlegt umhverfi, og það geta myndlistarmenn gert á margvíslegan hátt, á miklu fleiri vegu en fólk gerir sér alltaf grein fyrir.

Sannleikurinn er sá, að hversdagslegustu hlutir eiga form sitt, útlit sitt eftir hugviti listamanna. Það getur átt við um íbúðarhús og innanstokksmuni, bíla og báta, fatnað og nauðsynleg áhöld fyrir daglegt amstur manna. Listamaðurinn er því gagnlegur þjóðfélaginu í þeirri merkingu sem praktískir menn leggja í orðið gagnlegur.

Myndlistarmaðurinn ræður yfir gáfum og þekkingu sem þjóðfélagið hefur brýna þörf fyrir, og ef svo er, þá er ekkert sjálfsagðara en að þjóðfélagið geri sitt til þess að nýta þessar gáfur og þekkingu og leitist jafnframt við að koma til móts við þarfir listamannsins fyrir skapandi vinnu og fyrir réttlátt gjald fyrir vinnu hans.

Ég hlýt annars að undirstrika það sem flestum Íslendingum er efst í huga, að frumskylda þjóðfélagsins gagnvart listamanninum er að tryggja honum frelsi, tryggja honum tjáningarfrelsi. Það er þess háttar grundvallarforsenda sem óþarfi er að ræða nánar við þetta tækifæri. Um það held ég að flestir, ef ekki allir séu sammála. En þar næst kemur skyldan til þess að sjá listamanninum fyrir starfi við sitt hæfi.

Það frv. sem hér liggur fyrir, er viðleitni í þá átt að sjá myndlistarmönnum fyrir starfi, sem hæfir þeim. og að tryggja jafnframt listræna fegrun opinberra mannvirkja, gera þau ánægjulegri og verðmeiri. Þetta tvennt er höfuðtilgangur þessa frv.

Herra forseti. Eins og segir í 1. gr. þessa frv. er ætlunin að stofna sjóð sem hafi það markmið að fegra opinberar byggingar með listaverkum. Nafn sjóðsins skuli vera Listskreytingasjóður ríkisins. Gert er ráð fyrir að þessi sjóður hafi sjálfstæðan fjárhag og eigin stjórn.

Í 2. gr. er mælt fyrir um það, hverjar tekjur sjóðsins skuli vera. Það er þá í fyrsta lagi árlegt framlag ríkisins, og það er að sjálfsögðu aðaltekjustofn þessa sjóðs sem þarna er fyrirhugaður. Segir í greininni að framlagið skuli nema 1% álagi á samanlagðar fjárveitingar ríkissjóðs í A-hluta fjárlaga til þeirra bygginga sem ríkissjóður stendur einn að eða með öðrum. Einnig er gert ráð fyrir að sjóðurinn hafi vaxtatekjur og í þriðja lagi, aðrar tekjur. Eins og augljóst má vera er höfuðatriðið í sambandi við tekjur sjóðsins árlegt framlag ríkissjóðs sem mundi vera 1% álag á samanlagðar fjárveitingar ríkissjóðs í A-hluta til bygginga sem ríkissjóður stendur einn að eða með öðrum. Þetta er auðvitað aðalatriðið. En e. t. v. gæti sjóðurinn einnig haft vaxtatekjur, og ég hygg að eðlilegt sé að gera ráð fyrir, að sjóðurinn geti einnig haft aðrar tekjur en þetta beina ríkissjóðsframlag.

Einnig er gert ráð fyrir því í þessu frv., í 3. gr., að framlag ríkissjóðs skuli vera sérliður í fjárlögum og að hann ákvarðist að höfðu samráði við byggingadeild menntmrn. og fjárlaga- og hagsýslustofnun fjmrn. Þetta er gert með tilliti til þess, að byggingadeild menntmrn. fer að öllu jöfnu með mjög stóran hluta byggingarmála á vegum ríkissjóðs í A-hlutanum og að sjálfsögðu fjallar fjárlaga- og hagsýslustofnun fjmrn. einnig mjög um þau efni. Ég hygg að það sé hyggilegt að hafa samráð við þessar tvær stofnanir áður en Alþingi ákveður hvert framlagið skuli vera. Þetta er að sjálfsögðu reikningstala, samlagningartala, en eigi að síður verður að byggja hana á eðlilegri útreikningsaðferð.

Þetta eru í rauninni höfuðatriði þessa máls, að stofna skuli þennan sjóð og að tekjurnar skuli vera sem hér segir, þarna sé um að ræða sérlið á fjárlögum og að sjóðurinn starfi sjálfstætt, hafi sjálfstæðan fjárhag og eigin stjórn.

Nú er það svo að vissulega er engin nýlunda að mönnum komi til hugar að verja fé til fegrunar opinberum byggingum. Það er engin nýlunda, og reyndar má segja að sé í lögum og hafi um skeið verið í lögum ákvæði um þau efni. Þá minni ég fyrst og fremst á grunnskólalögin, 27. gr. grunnskólalaganna, og einnig á 10. gr. laga um skólakostnað. En ég hlýt að segja það sem er, að það hefur reynst ákaflega örðugt að framkvæma þetta áhugamál um listskreytingu á grundvelli þeirra lagagreina sem hér um ræðir. Það hefur komið í ljós í framkvæmdinni, að það reynist mjög erfitt. Í báðum tilfellum má segja að sveitarstjórnirnar séu frumkvæðisaðilar í þessu efni. En það hefur í reyndinni orðið svo að sveitarstjórnirnar hafa ekki sýnt þessu máli neinn verulegan áhuga, þannig að miklu minna hefur orðið úr því, að fé væri varið samkv. þessum greinum til listskreytinga, heldur en vænta hefði mátt. Þetta frv., sem ég legg hér fram sem ríkisstjórnarfrumvarp, er m. a. byggt á reynslu undanfarandi ára af því að framkvæma þau lagaákvæði sem nú eru í gildi um þessi efni. Ég legg nokkuð mikla áherslu á þetta atriði: hversu erfiðlega hefur gengið að framkvæma þennan lagabókstaf.

Hitt er þó augljóst, að þessi ákvæði í grunnskólalögum og skólakostnaðarlögum benda til þess, að lengi hefur verið á Alþingi fullur skilningur á að þetta mál gangi fram og að ríkissjóður, hið opinbera, kosti listskreytingu opinberra bygginga. Ég geri mér því mjög góðar vonir um að þetta mál eigi hljómgrunn meðal alþm., þ. á m. þetta atriði sem ég er að benda á, að framkvæmd þessara mála verði lagfærð, verði endurskoðuð, eins og hér er gerð tillaga um, með tilliti til þeirrar reynslu sem við höfum haft af því að framkvæma þær lagagreinar sem hér um ræðir.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa öllu fleiri orð um þetta. Þetta mál var kynnt hér í fyrra á þinginu þó að það væri mjög síðla þings að vísu og því litlar umr. um það, en það hlaut eigi að síður kynningu hér í þinginu og kynningu annars staðar á opinberum vettvangi þannig að menn eru trúlega kunnugir því í öllum höfuðatriðum. En ég legg mikið upp úr því, að nefnd, sem fær þetta frv. til athugunar, vinni vel að framgangi þessa máls. Að sjálfsögðu legg ég þetta mál ekki fram þannig að ekki komi til greina að breyta þar út af í einhverju sem í frv. stendur, það er fjarri því. Af minni hálfu er það ekkert metnaðarmál að allt verði með þeim ummerkjum sem í frv. er, heldur fyrst og fremst að sjálft málefnið nái fram að ganga og hægt verði á auðveldan og skynsamlegan hátt að framkvæma þá stefnu, sem ég hygg að eigi mikinn hljómgrunn hér á Alþingi, að verulegu fé sé varið til listskreytinga opinberra bygginga.

Þess má auðvitað geta og það kemur fram í athugasemdum sem fylgja frv. og fskj., að annars staðar á Norðurlöndum gilda reglur um listskreytingar opinberra bygginga. Það er að vísu ljóst af lestri þessarar skýrslu, að reglurnar eru mismunandi eftir löndum, og ekki hefur verið kostur að kópera að öllu leyti einhverjar tilteknar reglur sem um þetta gilda annars staðar á Norðurlöndum, heldur valdi ég þá leið að finna aðferð sem hentað gæti okkur hér á landi. Þetta bið ég hv. nefnd, sem kemur til með að athuga þetta, að skoða einnig, hvernig þetta er framkvæmt annars staðar, m. a. til þess að fá sannfæringu fyrir því, að hér er um málefni að ræða sem hvarvetna hefur hljómgrunn og er talið til eðlilegrar starfsemi ríkisins.

Herra forseti. Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en ég legg til að þegar þessari umr. er lokið gangi málið til hv. menntmn.