23.03.1982
Sameinað þing: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3202 í B-deild Alþingistíðinda. (2814)

Umræður utan dagskrár

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir að hafa svarað fsp. mínum, þó að hann gerði það ekki eins og ég hefði viljað að hefði orðið, þó að mikið vantaði á að hann gæfi þær upplýsingar sem óskað var eftir. Það var e.t.v. ekki að vænta þess, að hann gerði það, því að hann virtist, eftir því sem honum féllu orð, ekki skilja það sem ég hafði sagt.

Hann sagði, að það, sem ég hefði sagt, hefði allt verið í þoku, sagðist ekki skilja það. Ég leyfi mér að efast um að svo sé ástatt um nokkurn mann hér inni annan en hæstv. iðnrh., að hann hafi ekki skilið það sem ég sagði. Ég leyfi mér að vekja athygli á því, hvernig spurningar mínar voru settar fram, hvort það hafi verið yfir þeim einhver þokuslæðingur. Ég spurði: Hver eru afskipti stjórnar Orkustofnunar af samningi Orkustofnunar við Almennu verkfræðistofuna? Ég spurði: Var samningurinn gerður með vilja og vitund stjórnarinnar? Ég spurði: Hefur ráðh. haft samráð við stjórnina um aðgerðir sínar vegna samningsins? Hver er afstaða stjórnarinnar til samningsins og aðgerða ráðh.? Eru menn í vandræðum að skilja við hvað hér er átt?

Nei, hæstv. ráðh. var ekki í vandræðum með að skilja þetta. En hæstv. ráðh. var í vandræðum með að standa fyrir máli sínu áðan. Í því lá vandi hans. Hann vildi sem minnst um þetta mál tala, og höfuðatriði í svari hans var raunar að ég hefði fallið í þá gryfju að taka Morgunblaðið trúanlegt og gefa mér forsendur eftir forskrift Morgunblaðsins.

Nú vil ég taka það fram, að Morgunblaðið er að sjálfsögðu góð heimild í þessum efnum sem öðrum. En það, sem ég tók fyrst og fremst mið af, var hæstv. utanrrh. Ég hygg að það hafi ekki þurft að leika neinn vafi á því í þeim orðum sem ég sagði áðan. Hvers vegna segir hæstv. iðnrh. þá það sem hann var að segja? Hann vill drepa málinu á dreif. Hann vill ekki um það tala.

Hvað segir hann svo þegar hann sýnir tilburði til að svara hæstv. utanrrh.? Hann segist ekki vilja óska ríkisstj. til hamingju með samstöðu mína og hæstv. utanrrh. Látum það vera. En hann segir að utanrrh. hafi fallið í sömu gryfjuna og ég. Ekki meira um það af hálfu hæstv. iðnrh.

Hæstv. iðnrh. sagði svo í sinni seinni ræðu að það væri um viðkvæma deilu að ræða innan ríkisstj. og hann vildi ekki frekar ræða hana á þessum fundi. Í raun og sannleika hefur hann ekkert rætt efnislega um þetta mál. Hann svaraði því einu af því sem ég spurði, að haft hefði verið samband við stjórn Orkustofnunar, ég má segja að hann hafi sagt: einu sinni eða tvisvar. Ekki er það nú nákvæmt svar við spurningum mínum, og má draga nokkrar ályktanir af þessu svari. Það er kannske vafasamt að draga ályktanir af nokkru sem hæstv. iðnrh. hefur sagt í þessu máli. Ég get þó ekki varist þeirri hugsun, að tal hans um, að tvisvar hafi verið haft samband við stjórn Orkustofnunar í þessu sambandi, bendi til þess, að stjórn Orkustofnunar hafi í fyrsta lagi ekki verið sérlega virkur aðill að samningsgerðinni og í öðru lagi að því sem gerðist eftir að hæstv: iðnrh. greip fram í fyrir Orkustofnun. Ef þetta er ekki rétt ályktun gefur hæstv. iðnrh. nánari upplýsingar um það. Hann á ekki að vera í vanda með það.

Ég sagði áðan að í raun og veru væri ekkert bitastætt af því sem hæstv. iðnrh. sagði og hefði mátt telja til einhvers konar svars við því sem ég sagði. Sama er að segja um svar hans við því sem hæstv. utanrrh. sagði. Það var svo alvarlegt sem hæstv. utanrrh. sagði að það er ekki hægt að una því, að hæstv. iðnrh. komist hjá að tjá sig um þau efni. Alþingi á heimtingu á að hæstv. iðnrh. tjái sig um þau atriði sem hæstv. utanrrh. gerði sérstaklega að umræðuefni. Það er ekki Alþingi óviðkomandi ef í ríkisstjórn Íslands situr ráðherra sem getur í störfum sínum verið jafnvarhugaverður og kom fram í orðum hæstv. utanrrh. Það er ekki hægt að una því umyrðalaust að maður, sem skapar svo alvarlegt fordæmi í stjórnsýslumálum sem hæstv. utanrrh. benti á, sitji í stöðu ráðh. Það er a.m.k. lágmarkskrafa að hæstv. ráðh. geri betur grein fyrir sínu máli en hann hefur gert. Það er ekki hægt að una því, að ráðh. vinni eins óvandað að málum og hæstv. utanrrh. dró fram um vinnubrögð hæstv. iðnrh.

Hvað segja þessar umr. okkur þá fyrst og fremst? Það eru ekki miklar upplýsingar frá hæstv. iðnrh. En við mættum láta þessi víti verða okkur til varnaðar. Var það ekki einmitt það sem hæstv. utanrrh. sagði? Jú, hann sagði það. En ég spyr: Hvað ætlar hæstv. utanrrh. að gera til að gefa þessum orðum sínum meiri áherslu en orðið er? Mig uggir að það sé ekki nægilegt að hæstv. utanrrh. lesi hæstv. iðnrh. pistilinn, eins og hann gerði áðan. Ég óttast að það þurfi frekari aðgerða við. Mér er þess vegna spurn hvort svo ágætur og glöggur maður sem hæstv. utanrrh. er treysti sér að halda áfram í ríkisstj. með ráðh. sem viðhefur slík vinnubrögð sem hæstv. iðnrh. hefur og hæstv. utanrrh. varar svo sterklega við.

Auðvitað varðar þetta mál fleiri en hæstv. utanrrh. Það hefur komið fram í þessum umr. eins skýrt og getur verið, að það er djúpstæður ágreiningur milli utanrrh. og iðnrh. Ég vék að þessu í fyrri ræðu minni og taldi sjálfsagt og eðlilegt að hæstv. forsrh. tjáði sig um þetta mál ef hann mætti gefa upplýsingar um hver væri stefna hans og ríkisstj. í heild í þessu mikla ágreiningsmáli, í því þýðingarmikla máli sem hér um ræðir.