24.03.1982
Neðri deild: 57. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3229 í B-deild Alþingistíðinda. (2841)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Frsm. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég hafði fyrst og fremst hugsað mér að gera grein fyrir þeim brtt., sem minni hl. n. flytur, og mun reyna að stytta mál mitt eins og kostur er varðandi efnisatriði málsins. Þó vil ég taka það fram í upphafi varðandi orð hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar um hversu lengi hefur dregist að ganga frá þessu máli, að ýmislegt kemur þar til. Í fyrsta lagi hafa menn verið að athuga brtt. Í öðru lagi hefur verið reynt í nefndinni, eftir því sem kostur hefur verið, að afla þeirra upplýsinga, sem beðið hefur verið um, og verða við öllum beiðnum um viðtöl við aðila. Þetta hefur að sjálfsögðu tekið sinn tíma. Ég vildi gjarnan að hv. þm. hefði það í huga varðandi hversu langan tíma störf nefnda taka. Ég vil halda því fram, að þetta sé fullkomlega eðlilegt, en mér finnst ekki réttmætt af honum að kenna fyrst og fremst ríkisstj. um það eða ráðvilltum nefndarmönnum minni hl.

Þessi lánsfjárlög hafa verið til meðferðar á Alþingi síðan í haust. Í upphafi var unnið að málinu sameiginlega í báðum nefndum, en síðan tók nefnd Nd. við eftir áramót og hafa verið haldnir fjölmargir fundir um málið síðan það kom til meðferðar í nefndinni. Minni hl. n. hefur talið það vera skyldu sína að framfylgja því samkomulagi, sem hafði orðið fyrir áramót, að erlendri lántöku yrði haldið í skefjum eftir því sem unnt væri umfram það sem gert er ráð fyrir í lánsfjárfrv.

Við gerum okkur fullkomlega ljóst að það mun verða erfitt fyrir ríkisstj. að vinna innan þeirra marka sem lánsfjárlögin heimila, miðað við þau áform sem fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. gerir ráð fyrir, og það liggur fyrir, að þar mun þurfa að beita hinu margumtalaða aðhaldi, og fyrirsjáanlegt, að einhverju verður að fresta af þeim áformum sem þar koma fram eða dragá verður úr þeim framkvæmdum eftir því sem unnt er. Bæði er það, að gengisforsendur hafa nokkuð breyst, og það liggur fyrir, eins og kom fram hjá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, að það mun vera einhver fjárvöntun vegna spariskírteina. Hins vegar seljast þau nú betur en áður var, þannig að úr því kann eitthvað að rætast. Það liggur einnig fyrir, að gert var ráð fyrir byggðalínugjaldi þegar fjárfestingar- og lánsfjáráætlun var samin, en fjáröflunarfrv. í því skyni hefur ekki komið enn fram hér á Alþingi. Þá liggur einnig fyrir að sú upphæð, sem gert er ráð fyrir að komi frá bönkum og sparisjóðum til opinberrar fjárfestingar, er í algeru hámarki. Þannig liggur fyrir við afgreiðslu þessara lánsfjárlaga að það mun verða verulegum vandkvæðum bundið að vinna innan marka þeirra, en ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að gera það.

Ég ætla þá að gera grein fyrir þeim brtt. sem koma fram á þskj. 503.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að erlend lántaka hækki um 13 millj. Það er vegna máls sem er til afgreiðslu alveg á næstunni og var fyrirsjáanlegt að yrði vandamál. Ríkissjóður hefur samið um smíði á skipi fyrir Skipaútgerð ríkisins og kaup á notuðu skipi frá Noregi. Það hafa orðið breytingar m.a. á gengisforsendum síðan frv. var lagt fram, og því var nauðsynlegt að hækka þessa lántöku úr 40 millj. í 53 millj. og gerir 1. gr. frv. ráð fyrir því.

Í öðru lagi kom fram, eins og hv. þm. Matthías Bjarnason gat um, í 4. gr. frv. að Iðnrekstrarsjóði væri heimilt að taka lán á árinu 1982 að fjárhæð allt að 10 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt til að endurlána til athugunar á sviði orkufreks iðnaðar. Við athugun nefndarinnar á þessu máli kom það fram, að á fjárlögum er gert ráð fyrir 3 millj. kr. fjárveitingu í þessu skyni, en þær 10 millj., sem hér um getur, áttu að bætast við. Iðnrn. var spurt um hvernig það hygðist nota þessa peninga og með hvaða hætti væri ráðgert að taka þetta lán og hver ætti að endurgreiða það. Kom í ljós að þeim málum hafði ekki verið komið fyrir með þeim hætti að nein vissa væri fyrir að einhver aðili fyndist sem væri tilbúinn að taka þessi lán með það í huga að endurgreiða þau. Þau verkefni, sem þessir peningar áttu að fara til, voru í fyrsta lagi staðarvalsrannsóknir 2.5 millj. kr. Verður ekki séð að neinn aðili utan ríkisins sé tilbúinn að fjármagna eða taka lán til þeirra athugana, án þess að ég leggi neinn dóm á störf þeirrar nefndar. Í öðru lagi var gert ráð fyrir athugun á magnesíumverksmiðju, sem ekki er nú alveg í sjónmáll, og natríumklóratverksmiðju, 1 millj. kr., sem ekki er alveg í sjónmáli heldur. Ekki er vitað um að neinn aðili sé tilbúinn að taka lán til rannsókna á því sviði. Þá var gert ráð fyrir athugun vegna trjákvoðuverksmiðju 2 millj., álverksmiðju 3 millj., kísilmálmverksmiðju 2 millj., sem er að mestu lokið, og öðrum rannsóknum 1.5 millj. Okkur þótti eðlilegt að hér yrði um að ræða sjálfskuldarábyrgð, en það væri nauðsynlegt að leita eftir samþykki fjvn. áður en slík sjálfskuldarábyrgð væri veitt.

Það hefur komið fram að fjvn. fjallaði um þetta 3 millj. kr. fjárframlag við störf á s.l. hausti. Virðist vera líklegt að a.m.k. hluti af þessu fjármagni verði ekki endurgreiddur. Ég held að það geti allir verið sammála um að það er alls ekki nauðsynlegt og ekki hugsanlegt að allt rannsóknarfé fáist endurgreitt með einhverjum hætti. Ég á því von á að það þurfi að líta á eitthvað af þessum fjárframlögum sem beina fjárveitingu, og ættu þau þess vegna fremur heima á fjárlögum en í lánsfjárlögum. Því þótti eðlilegt að fjvn. fjallaði um þetta mál í framhaldi af umfjöllun nefndarinnar um 3 millj. kr. fjárveitinguna sem samþykkt var í des. s.l.

3. brtt. er aðeins orðalagsbreyting. Eðlilegra þykir að segja: Heimild er til lántöku í stað „Heimilda er leitað“ í 7. gr. frv.

Við 8. gr. er gert ráð fyrir að bætist ný mgr. sem fjallar um að heimilda Bjargráðasjóði að taka lán á árinu 1982 allt að 15 mill j. kr. Slík heimild var í fjárlögum án þess að hún væri bundin við ákveðna fjárhæð og þykir rétt að taka hana fram í þessu sambandi.

Við 10. gr. er gert ráð fyrir að bætist ný málsgr. svohljóðandi:

„Fjmrh. er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að veita sjálfskuldarábyrgð fyrir allt að helmingi lána, sem Byggðasjóður veitir fyrirtækjum í útgerð, fiskiðnaði og iðnaði til fjárhagslegrar endurskipulagningar vegna rekstrarerfiðleika, en heildarfjárhæð lánanna er að hámarki 60 millj. kr.“

Það hafði verið samþykkt að veita lán að upphæð 40 millj. til sjávarútvegs og 10 millj. til iðnaðar, en í máli stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar og starfsmanna hennar hefur komið fram að það muni vera nauðsynlegt að hækka þessa heimild nokkuð. Fer fram athugun á þeim málum núna, en þeir hafa tjáð að fyrirsjáanlegt væri að einhverja frekari fyrirgreiðslu þyrfti að veita í þessu skyni. Því leggur minni hl. n. til að þetta hámark verði fært í 60 millj. kr.

6. brtt. er í framhaldi af efnahagsráðstöfunum ríkisstj. í jan. s.l., en þar var gert ráð fyrir niðurskurði á fjárlögum og skerðingu hinna ýmsu fjárfestingarlánasjóða um 6% í flestum tilfellum. Brtt. 7–17 eru í samræmi við það.

18. brtt. er að beiðni samgrn., en hún felur í sér að þrátt fyrir ákvæði vegalaga skal framlag til þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum ekki fara fram úr 43 millj. á árinu 1982. Það þykir eðlilegt, þegar þarf að skerða vegafé, að hin sjálfvirka regla um hlutdeild þéttbýlisvegafjár í heildarvegafé sé ekki undanþegin — þetta fé skerðist einnig í sambandi við niðurskurð á fjárframlögum.

Í 19. brtt. er aðeins orðalagsbreyting varðandi lán lífeyrissjóðanna til Framkvæmdasjóðs, en þar var gert ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir skyldu skila fjmrn. áætlun um sitt ráðstöfunarfé fyrir 16. jan. Það er orðið úrelt á þessu stigi og þess vegna var því breytt í „upphaf hvers árs.“

20. brtt. er gerð að beiðni landbrh. fyrir hönd ríkisstj. og er um að heimila fjmrh. að fella niður endurgreiðslu á aðflutningsgjöldum og sölugjaldi af vélum, tækjum og varahlutum til ylræktarvers sem komið verður á fót vegna útflutningsframleiðslu. Það er alveg rétt, eins og fram hefur komið, að ekkert liggur fyrir um hvort talið verður hagkvæmt að reisa slíkt ylræktarver, og má í sjálfu sér deila um hvort slík heimild eigi að koma til fyrr en slíkri athugun hefur verið lokið. Við teljum hins vegar vera vel verjanlegt að slíkt liggi fyrir nú þegar, þannig að þeir aðilar, sem hugsanlega hafa áhuga á að ráðast í slíkt verkefni, viti um það á þessu stigi og geti gengið út frá því við athuganir sínar og ákvarðanatöku í framhaldinu. Því miður er ekkert sérstakt enn þá sem bendir til að slíkt geti orðið á þessu ári, en minni hl. n. hefur fyrir sitt leyti ekkert við það að athuga að fjmrh. hafi slíka heimild ef til þess kemur.

21. brtt. heimilar fjmrh. að ábyrgjast lán með einfaldri ábyrgð vegna smíða á skipum eða bátum sem eru styttri en 35 metrar og með allt að 1000 hestafla vélum. Þessa grein þarf að athuga nánar. Hefur komið fram að skipasmíðastöðvarnar munu ekki hafa mikil not af þessari ábyrgð og þurfi að koma til sjálfsskuldarábyrgð ef þær eigi að geta haft einhver not af ábyrgðinni. Mun minni hl. n. taka það mál til athugunar milli 2. og 3. umr.

Herra forseti. Ég sé að þingfundartíma er nú lokið og ég get fyrir mitt leyti lokið máli mínu á þessu stigi, en komið þá síðar í umr. að frekari aths. Ég vil aðeins ítreka að minni hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram á þskj. 503. Ég vil geta þess, að fjöldinn allur af beiðnum lá fyrir nefndinni um erlendar lántökur sem við sáum ekki möguleika á að verða við. Það voru m.a. beiðnir frá sveitarfélögum. Ég vil geta þess sérstaklega að til umræðu í nefndinni kom beiðni frá borgaryfirvöldum í Reykjavík um lántöku vegna Reykjavíkurhafnar upp á um 1 millj. dollara. Ég vil taka það fram, að sveitarfélögin hafa fullar heimildir til að taka erlend lán fáist til þess leyfi stjórnvalda. Hér er um að ræða hafnarframkvæmdir í Reykjavíkurhöfn, og höfðu nm. í sjálfu sér ekkert við það að athuga að slíkt lán yrði tekið, en töldu óþarft að slík heimild kæmi inn í lánsfjárlög, til þess væru fullar heimildir að taka slíkt lán.

Ég vil aðeins ítreka það, herra forseti, að minni hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef gert hér grein fyrir.