29.03.1982
Neðri deild: 59. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3319 í B-deild Alþingistíðinda. (2938)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Við 2. umr. um þetta mál urðu nokkur orðaskipti milli mín og hæstv. fjmrh. annars vegar og hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar hins vegar, form. fjh.- og viðskn. þessarar deildar. Það er nauðsynlegt að koma á framfæri við þessa 3. umr. leiðréttingum við fullyrðingar bæði hæstv. fjmrh. og hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar í þeim orðaskiptum sem hafa orðið okkar í milli.

Við þá umr. spurði ég hæstv. fjmrh. hvort heimildir væru fyrir hendi fyrir Skipaútgerð ríkisins til að kaupa skip, eins og mér er tjáð að búið sé að gera samning um, undirskrifaðan samning, þannig að í raun og veru er af kaupum orðið. Bæði hæstv. fjmrh. og hv. þm. Halldór Ásgrímsson, form. fjh- og viðskn., margítrekuðu það við 2. umr. málsins, að fullar heimildir væru fyrir hendi til þessara kaupa. Hv. þm. Halldór Ásgrímsson las upp úr grg. með fjárlagafrv. fyrir árið 1982 þar sem um þetta var fjallað og sagt að aflað mundi verða heimilda til slíkra hluta. Hæstv. fjmrh. taldi sig vera undrandi yfir því, að fjárveitinganefndarmaðurinn Karvel Pálmason skyldi ekki vera betur að sér í því sem stæði í fjárlögunum en raun bar vitni og ekki vita um þá heimild sem þarna lýtur að.

Nú vil ég benda hæstv. fjmrh. á að lesa fjárlögin sjálf — ekki frv., það eru engin lög — og fletta upp á bls. 135 þar sem 6. gr. er, heimildagreinin, og lesa þar hvaða heimildir er þarna um að ræða. Hæstv. fjmrh. ætti sjálfur að vera betur inni í fjárlögunum en raun ber vitni.

Sú eina heimild, sem fyrir hendi er, er að veita ríkisábyrgð fyrir láni sem áformað er að taka vegna byggingar skips fyrir Skipaútgerð ríkisins. Aðeins eitt skip er í smíðum. Um þetta var mikið rætt í fjvn. við afgreiðslu fjárlaga á s.l. hausti. Forsvarsmenn Skipaútgerðar leituðu að vísu mjög fast á að fá frekari heimildir til endurnýjunar á flotanum. En meiri hlutinn sem þá réð og ræður enn, þ.e. stuðningslið hæstv. fjmrh., neitaði því. Það er því engin heimild fyrir hendi í fjárlögum nema til smíðar einu skipi fyrir Skipaútgerð ríkisins. (Gripið fram í: Var hann að skrökva?) Já, hann var að skrökva, og það ekki í fyrsta skiptið, hæstv. fjmrh. Hvað segir hv. þm.? (Forseti: Samtal bannað.) Það er nú ástæða til, herra forseti, að upplýsa þm. Alþb. um innræti hæstv. ráðh. (Forseti: Það er hægt að gera það í beinni ræðu án samtala.)

Sem sagt, hér er vísað á bug þessum fullyrðingum hæstv. ráðh. og hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar um að heimildir hafi verið fyrir hendi til kaupa á því skipi sem nú virðist vera búið að kaupa af Skipaútgerð ríkisins. Þetta er nauðsynlegt að komi fram, að báðir þessir hv. þm., í toppstöðum í þjóðfélaginu, hafa farið hér með ósannindi.

Ég segi þetta ekki hér vegna þess að ég sé andvígur því, — eins og ég tók fram við 2. umr. — að skipafloti Skipaútgerðar ríkisins sé endurnýjaður. En það gengur auðvitað ekki, hvorki á því heimill né öðru, að embættismenn í kerfinu leiki lausum hala og ráði í raun og veru hvaða ákvarðanir eru teknar og hvað er gert. Það er það sem verið er að gagnrýna, að slíkt ráðslag, slík óstjórn sé viðhöfð, hvort sem það snýr að þessu fyrirtæki ríkisins eða einhverjum öðrum. Því verður að breyta.

Það virðast fleiri vera skáldmæltir í þingliði Alþb. en höfundur Jóns Odds og Jóns Bjarna, því að slíkur leirburður sem hæstv. fjmrh. var hér með í sambandi við stefnu hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum er fáheyrður að ég held. Hæstv. ráðh. kom hér með langa skrifaða ræðu — hefur greinilega haft nógan tíma vegna þess hve hv. fjh.- og viðskn. var lengi að vinna að málinu, hefur þá haft nógan tíma til að koma þessu á blað — með langa skrifaða ræðu, sem fyrst og fremst byggðist upp á því að gagnrýna stjórnarandstöðuna fyrir að hafa ekki komið með tillögu um þetta og hitt, og auglýsti eftir tillögum.

Hæstv. ráðh. sagði að stjórnarandstaðan heimtaði meiri erlendar lántökur. Mér er ekki kunnugt um að nokkur tillaga hafi verið flutt af stjórnarandstöðunni um auknar erlendar lántökur umfram það sem hæstv. ríkisstj. hefur gert, ætlar að gera og hefur gert, og er nóg um. Það er því ástæðulaust fyrir hæstv. fjmrh. að tala í þessum dúr. Það hefur engin tillaga verið flutt um auknar erlendar lántökur af stjórnarandstöðunni mér vitanlega umfram það sem hæstv. ríkisstj. ætlar sér sjálf að gera. En hitt hefur verið gagnrýnt og það eðlilega, hversu hinar erlendu lántökur eru orðnar miklar, hversu mikið er búið að ávísa nú þegar á framtíðina að því er varðar greiðslu á þessum lánum öllum saman.

Hæstv. fjmrh. gagnrýndi stjórnarandstöðuna fyrir að vilja ekki frekari lögþvingun á lífeyrissjóðina í landinu. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., stjórnarandstaðan vill ekki frekari lögþvingun á lífeyrissjóðina um ráðstöfun á fjármagni. En hún hefur marglýst yfir að eðlilegt væri, hinn eðlilegi vettvangur, hin eðlilega leið að því er varðaði viðskipti ríkisvaldsins og lífeyrissjóðanna væri samkomulag, samningaleiðin um þessi mál, en ekki lögþvingun.

Ég sé ekki betur, ef hæstv. fjmrh. fengi að ráða ferðinni í þessum efnum, en að ekki yrði langt í það að mikill meiri hluti ráðstöfunarfjár lífeyrissjóðanna yrði lögbundinn til hinna og þessara ríkissjóða í kerfinu. Það er auðvitað ósköp eðlilegt og sjálfsagt að þeir einstaklingar, í þessu tilfelli sjóðsfélagar í lífeyrissjóðunum, reyni að verjast þeim ágangi hæstv. fjmrh. sem fram hefur komið í þessum efnum. Þessir einstaklingar eiga þetta fé, en ekki ríkissjóður. Það stefnir í hreina eignaupptöku ef hæstv. fjmrh. fær að ráða ferðinni í þessum efnum. Og þessu hefur stjórnarandstaðan verið á móti, hæstv. ráðh. En það er eins og mig minni að þegar hæstv. núv. fjmrh. var í stjórnarandstöðu fyrr á árum hafi hann sjálfur verið andvígur lögþvingun á lífeyrissjóðina. Hæstv. ráðh. hefur í því sem öðru líklega skipt um skoðun eftir að hann kom í stólinn.

Að því er varðar fjárlögin og lánsfjárlögin mætti ætla að þar væri um þann heildarramma að ræða í sambandi við fjárfestingar og framkvæmdir, að þar væri að finna öll þau lán, erlend lán og önnur, sem gert væri ráð fyrir að tekin yrðu á árinu 1982. Nú er víðs fjarri að lánsfjárlögin segi allan sannleikann í þeim efnum, hversu mikið af lánum verði tekið á árinu 1982. Hæstv. fjmrh. sagði við 2. umr. þessa máls í sambandi við skipaiðnaðarframkvæmdirnar að sveitarfélögin gætu bara sjálf tekið þessi erlendu lán. Hann ávísar bara á hina og þessa í þjóðfélaginu, þeir geti tekið hin og þessi lán fyrir utan lánsfjárlögin sjálf. Og auðvitað verður það með því móti lægri upphæð í lánsfjárlögum sem ríkisstj. verður sökuð um að taka í erlendum lánum. En þau koma eigi að síður, þau koma bara aðra leið. Það er auðvitað staðreynd sem ekki verður á móti mælt, að greiðslubyrði vegna erlendra lána er nú hærri en hún hefur nokkurn tíma verið áður. Það er staðreynd sem ekki er hægt að mæla á móti. Þær upplýsingar liggja fyrir, að svona er staðan. Hvernig sem hæstv. fjmrh. reynir að hagræða því sér í hag og hæstv. ríkisstj., þá er þetta eigi að síður staðreynd, að greiðslubyrðin vegna erlendra lána hefur aldrei verið meiri en hún er núna, einhvers staðar milli 19 og 20% af útflutningsverðmæti. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir hjá Seðlabanka Íslands, og það væri fróðlegt að heyra ef hæstv. fjmrh. neitaði þessu.

Það er rétt, sem hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson sagði áðan, að það hefur enginn fjmrh. gengið lengra í skattheimtu en hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds. Þetta liggur fyrir. Hvern skyldi hafa órað fyrir því í tíð ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar, á árunum 1974–1978, ef menn legðu sig niður við að lesa ræður núv. hæstv. fjmrh., eins og hann talaði þá í stjórnarandstöðu, — hvern hefði þá órað fyrir að þessi sami einstaklingur, hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds, væri mesti skattheimtumaður sem um getur í stól fjmrh.?

Ég held að það sé líka rétt hjá hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni, að eitt mesta áhyggjuefni varðandi efnahagsmálin og stöðu þjóðarinnar sé hvað erlendu lántökurnar eru orðnar miklar og greiðslubyrði þeirra gífurleg.

Hæstv. fjmrh. kom hér í lokin inn á sparnað í ríkiskerfinu og taldi upp nokkur atriði — að vísu ekki í tölum nema í einu, hafi ég tekið rétt eftir — sem ætti að spara.

Hæstv. ráðh. sagði að niðurskurðartillögur ríkisstj. væru tilbúnar. Sé svo, hvernig stendur þá á því, að við hér á Alþingi fáum ekki að sjá þetta plagg hæstv. ríkisstj.? Er ekki ástæða til þess, fyrst málið er afgreitt, að þinginu sé gerð grein fyrir því eins og það liggur fyrir?

Hæstv. ráðh. drap á nokkur atriði. Hann drap t.d. á það sem mér skildist vera númer eitt, lækkun framlaga til Tryggingastofnunar ríkisins um 20 millj. Það væri fróðlegt að heyra það hjá hæstv. heilbrmrh., hvaða þjónusta það er sem þarna á að skerða fyrst og fremst og er númer eitt að mati hæstv. fjmrh. Hvað er það hjá Tryggingastofnun ríkisins, hvað er það í sjúkrakerfinu eða heilbrigðiskerfinu sem má skerða um 20 millj. kr. án þess að það komi niður á þjónustu? Það væri fróðlegt að fá að vita það. Kannske getur hæstv. heilbr.- og trmrh. upplýst hvar þjónustu er ofaukið þar.

Það var fleira sem hæstv. fjmrh. talaði um að ætti að spara. Hann sagði m.a. að taka ætti upp eftirlit með utanlandsferðum á vegum ríkisins. Ég held að það sé greinilegt að þetta eftirlit er ekki komið í gang núna, ef marka má af öllum þeim ferðum sem hv. þm. formaður þingflokks Alþb. fer utan. Kannske á þetta eftirlit og þessi sparnaður eftir að koma að því er varðar utanlandsferðir á vegum ríkisins, en ég held að augljóst sé að þetta eftirlit og þessi sparnaður er ekki genginn í gildi enn því að utanlandsferðir á vegum ríkisins virðast blómgast vel, það er ekki annað að sjá. En það væri auðvitað fróðlegt, og ég sé ekki að neitt mæli gegn því, það er miklu frekar allt sem mælir með því að hæstv. ráðh. geri hér grein fyrir þessum niðurskurði, hvernig og með hvaða hætti á að spara í ríkiskerfinu, eins og hann er að tala um nú, og bara beinharðar tölur. Það er málið. Ég er viss um og man það raunar vel, að núv. hæstv. fjmrh. gekk í skrokk á fyrrv. hæstv. fjmrh., Matthíasi Á. Mathiesen, á sínum tíma og krafðist skýringa og gagna um niðurskurð sem þá var á döfinni og var framkvæmdur. Þá heimtaði hæstv. núv. fjmrh. öll gögn á borðið. Það er í þessu sem og í mörgu öðru sem hæstv. ráðh. Ragnar Arnalds hefur skipt um skoðun eftir því hvort hann er í ríkisstj. eða utan ríkisstj. Það er því miður fylgifiskur allt of margra stjórnmálamanna og ekki á það síst við um þá Alþb.-menn sem ráða ferðinni.

Ég skal ekki, herra forseti, eyða lengri tíma nema tilefni gefist frekar til að því er varðar þetta. Ég taldi rétt og nauðsynlegt að koma því hér á framfæri að bæði hæstv. fjmrh. og hv. þm. Halldór Ásgrímsson sögðu hér ósatt við 2. umr. þessa máls. Það þarf að komast inn í þingtíðindi að svo var. Það er leiðrétt hér með. Ég vil að lokum óska eftir því við annaðhvort hæstv. fjmrh. eða hæstv. heilbr.- og trmrh. að hann gefi þingdeildinni skýrslu um hvað það er í heilbrigðis- og sjúkrakerfinu sem þessir hæstv. ráðherrar telja að megi skerða núna um 20 millj. kr. án þess að það komi niður á þjónustu í kerfinu.