30.03.1982
Sameinað þing: 70. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3334 í B-deild Alþingistíðinda. (2954)

361. mál, tollafgreiðslugjald á aðföng til iðnaðar

Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Á þessum vetri hafa alloft átt sér stað umr. hér á hv. Alþingi um nauðsyn þess að bæta aðstöðu iðnaðar, sem á í harðri samkeppni við iðnað erlendis, bæði iðnað vegna innflutnings til landsins svo og vegna útflutnings á okkar eigin iðnaðarvörum.

Þegar hæstv. ríkisstj. kynnti hér á Alþingi skýrslu um aðgerðir í efnahagsmálum voru í þeirri skýrslu ýmis atriði sem virtust lofa nokkuð góðu um að skilningur hæstv. ríkisstj. á ýmsum vandamálum iðnaðarins væri að aukast og nauðsynlegt væri að létta af iðnaðinum ýmsum gjöldum sem á honum hvíla. Til dæmis var boðað og síðan um það samþykkt hér frv. að launaskattur skyldi lækka um 1% eða úr 3.5% í 2.5%. Boðað var að endurskoðuð yrði tollheimta af tækjum til atvinnurekstrar til að bæta möguleika á framleiðniaukningu í þessum greinum. Ýmislegt fleira var tilgreint sem talið var nauðsynlegt að gera til að bæta aðstöðu iðnaðarins.

Einn liður í aðgerðum hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum í vetur var að leggja á sérstakt tollafgreiðslugjald. Þegar reglugerð var sett um þetta gjald kom það nokkuð á óvart að svo virtist sem aðföng til iðnaðar, bæði hráefni svo og tæki og vélar til iðnaðar, væru látin greiða þetta tollafgreiðslugjald. Þetta hygg ég að hafi komið flestum á óvart, ekki síst miðað við þau orð sem voru látin falla hér á hv. Alþingi þegar þessi mál voru hér til umr.

Ég hef því af þessu tilefni lagt fram ásamt hv. 10. þm. Reykv., Friðrik Sophussyni, fsp. á þskj. 430 til hæstv. fjmrh. sem hljóðar svo:

„1. Að hve miklu leyti er tollafgreiðslugjald lagt á aðföng til iðnaðar samkv. reglugerð sem sett hefur verið um það efni?

2. Hvað er gert ráð fyrir að tollafgreiðslugjald á aðföng til iðnaðar gefi ríkissjóði mikið í tekjur á þessu ári?“