30.03.1982
Sameinað þing: 71. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3373 í B-deild Alþingistíðinda. (2972)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Í þeirri umr., sem hér hefur farið fram um virkjanamál, liggur sá hlutur eftir að ræða hver verði eigandi virkjananna, hvort sem um er að ræða Blöndu- eða Fljótsdalsvirkjun. E.t.v. finnst mönnum að þetta skipti ekki máli. E.t.v. er hægt að tala um það í öðru orðinu, að fallvötnin séu mesta auðlind vors lands, og í hinu orðinu, að það skipti ekki máli um ókomna framtíð hverjir verði eigendur þessara virkjana.

Ég held að þetta mál sé nokkuð tengt stjórnarskrármálinu sem til umræðu er einnig. Það hlýtur að vera að alþm. þurfi að taka afstöðu til þessa máls. Ég tel persónulega að best væri að það væri eitt virkjunarfyrirtæki sem reisti og ræki allar aðalvirkjanir þessa lands og ætti jafnframt allar háspennulínur sem flytja raforku til orkukaupenda. Þegar ég tala um orkukaupendur á ég við hvort heldur um er að ræða aðila, sem kaupa í stórum stíl, eins og stóriðjuver eða almenningsrafveitur.

Sveitarfélögum er að lögum ætlað það hlutverk að ráða á því svæði sem afmarkað er í hverju tilfelli. Þannig á t.d. Reykjavík sitt lögsagnarumdæmi, Seltjarnarnes sitt lögsagnarumdæmi, Hafnarfjörður sömuleiðis og Kópavogur. Ekki get ég sagt að ég sjái landamærin á milli og forsendurnar fyrir þessari skiptingu. Engu að síður er hún staðreynd. En hitt hlýtur þá að vekja undrun, að fyrirtæki, sem ber nafnið Landsvirkjun, er í eigu tveggja sveitarfélaga og ríkisins, þ.e. Reykjavíkurborgar og Akureyrar og ríkisins. Spurningin er: Hvers vegna á Kópavogur ekki að eiga í þessu fyrirtæki, hvers vegna á Hafnarfjörður ekki að eiga í þessu fyrirtæki, hvers vegna á Sauðárkrókur ekki að eiga í þessu fyrirtæki? Hver er ástæðan fyrir því að svona er að málum staðið? Á að afhenda allar aðalauðlindir vors lands tveimur sveitarfélögum og ríkinu, eða á að stokka upp spilin um eignaraðildina að Landsvirkjun?

Ég er ekki að leggja til að við tökum eignir af Reykjavíkurborg eða Akureyri, þær eignir sem þær nú þegar hafa. Aftur á móti þykir mér eðlilegt að þann veg sé að málum staðið, að með auknum eignum Landsvirkjunar, sem eru á ábyrgð allrar þjóðarinnar, aukist hlutdeild ríkisins í Landsvirkjun. Þessi er annar valkosturinn. Hinn er sá, að rafveiturnar sjálfar fái aðild að Landsvirkjun og að skiptingin verði á þann veg að atkvæðisréttur manna í landinu til yfirráða yfir orkuverunum byggist ekki á því, að þeir hafi margfalt vald ef þeir eru íbúar Reykjavíkur eða Akureyrar.

Ég tel að það sé mjög erfitt að halda þessari umr. áfram ef iðnrh. er ekki hér í nágrenninu, og vil ég óska eftir því við forseta að mega fresta máli mínu eða að hann komi hér í salinn.

Herra forseti. Ég hef borið fram ákveðna ósk, að annað tveggja verði þessari umr. frestað eða að iðnrh. mæti hér í salinn.

Herra forseti. Þá mun ég halda áfram máli mínu. Ég hef hér verið að reifa það mál, að það sé í alla staði óeðlilegt að Landsvirkjun með núverandi eignaskiptingu gerist eigandi að öllum virkjunarrétti í landinu. En jafnframt hef ég verið að undirstrika það, að ég tel æskilegt að það verði aðeins einn virkjunaraðili sem jafnframt verði eigandi allra aðalbyggðalína í landinu.

Spurning mín til iðnrh. er þess vegna sú, hvort að því sé unnið við eigendur Landsvirkjunar að ríkið auki eignarhlutfall sitt í fyrirtækinu svo sem virkjunum miðar áfram. Þar á ég við það, að ef Landsvirkjun sér um virkjun Blöndu og Fljótsdalsvirkjun verði jafnframt frá því gengið, að hlutdeild ríkisins aukist í fyrirtækinu.

Ég ræddi það hér áðan, að hverju sveitarfélagi er ætlað fyrst og fremst að skipta sér af málum innan marka sveitarfélagsins. Þess vegna hlýtur að vera eðlilegt, um leið og við ræðum virkjunarframkvæmdir, að ræða það hér hverjir eiga að verða eigendur hinna nýju virkjana.

Það er búið að segja hér eitt og annað um þær samningaviðræður sem fram hafa farið. Ég ætla ekki að bæta miklu við það mál. Það var minnst hér á Kröfluævintýrið og að við hefðum ekki efni á öðru slíku. En það mætti gjarnan bæta því við, að við höfum ekki efni á annarri Laxárdeilu. Ég held að meðal almennings í landinu sé viðurkennt að við þurfum að skila landinu sem ósnortnustu til næstu kynslóðar. Menn mega gjarnan hugleiða þá stöðu sem náttúruverndarmenn eru í um alla Evrópu í dag. Það er ekki trúlegt að það verði til gæfu í virkjunarmálum Íslendinga ef einsýni og kannske naumur meirihlutaréttur þvingar allt sitt fram. Það gæti farið svo að Laxárdeila og Kröfluævintýri væru smámunir miðað við þau illindi sem upp gætu hafist í landinu ef menn reyna ekki af fremsta megni að sætta sín sjónarmið þegar samið er um stórvirkjanir.