31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3414 í B-deild Alþingistíðinda. (2984)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Það verða þeim hv. þm. vonbrigði, sem svo kynnu að halda, að hér fari að upphefjast hatrömm deila milli okkar hv. þm. Páls Péturssonar um Blönduvirkjun. Hv. þm. var býsna þungorður í ræðu sinni áðan og deildi á opinbera aðila. Einnig hefur hann deilt á sveitunga sína og gerir býsna lítið úr þeim og öðrum sveitarstjórnarmönnum í Húnavatnssýslu og Skagafirði. Hv. þm. sagði að þar logaði allt í deilum. Það er að vísu rétt hjá hv. þm., að deilur eru um málið í héraði, en ég verð því miður að láta það álit mitt í ljós á þessum stað, enda hef ég sagt honum það áður sjálfum persónulega, að hv. þm. hefur að mínu mati ekki verið neinn friðarpostuli í þessu máli. Páll hefur gert nokkuð að því að gera samning þann, sem um er rætt milli heimamanna og virkjunaraðila, tortryggilegan. Sjálfsagt hefði margt betur mátt fara um þennan samning, ég ætla ekki að neita því. Hef ég raunar ekki fylgst með þeim samningi frá degi til dags. En ég vil benda á að samningarnir hafa verið samþykktir af meiri hluta löglega kosinna sveitarstjórnarmanna í fimm sveitarfélögum af sex sem á svæðinu eru. Þessir sveitarstjórnarmenn ásamt öðrum heimamönnum hafa unnið að samningunum líklega í ein tvö misseri. Þessir menn hafa hagsmuna að gæta á þessu svæði og gera sér því eflaust fulla grein fyrir hvað þarna er um að vera og hvað þeir eru að gera. Ég tel það grófa móðgun við þessa ágætu menn, sem ég þekki flesta, að væna þá annaðhvort um annarlegar hvatir eða að þeir hafi látið þvinga sig, nauðga sér eða plata sig til þeirra samninga sem þeir hafa undirskrifað. En lýðræðislegar reglur verða að ráða og virða verður lög landsins í umfjöllum um þetta mál sem önnur mál þó þeir, sem aðra skoðun hafa á málinu, séu ekki fyllilega ánægðir.

Ég hef ekki beitt mér verulega í þessu máli þar sem ég hef ekki talið það hlutverk mitt að segja þeim mönnum fyrir verkum sem best máttu vita og ábyrgðina bera. Okkur er ljós sá ágreiningur sem um málið er, og mér er ljóst að hvernig sem málið fer líður nokkur tími þar til allir verða sáttir. En ég er jafnviss um að svo fer að lokum. Mér virðist sem sagt að í þessu langvinna samningaþófi, þar sem menn hafa reynt að leita samkomulags, hafi heimamenn haft nokkurn vinning af, komið fram einum og öðrum breytingum heimahéruðum til hagsbóta, þó menn vilji gera misjafnlega mikið úr þeim ávinningi eins og gengur og gerist þegar hart er deilt. Sá ávinningur, sem náðst hefur frá því að byrjað var og þangað til undirskrift var gerð, hefur þó nægt til þess, að þeir sveitarstjórnarmenn, sem samþykkt hafa samninginn, hafa talið sínum sveitarfélögum þennan ávinning nægjanlegan til þess að samþykkja samninginn.

Ég mun ekki hér dæma menn seka eða sýkna, vitra eða óvitra, eftir því hvort þeir eru með eða á móti undirskrift samnings þessa. Hér deila menn um leiðir að svipuðu marki. Ég virði skoðanir beggja hópa, eins og raunar oftast má gera þegar menn deila, og ég tel að með þeim samningum, sem hér liggja fyrir, hafi báðir aðilar, þ.e. þeir sem hafna ekki virkjunarleið I og þeir sem kjósa aðrar leiðir, haft nokkurn ávinning af þessu samningaþófi, í landverndarátt ekki síður en kannske á ýmsan annan hátt.

Eins og margoft hefur verið bent á er öryggi í rafmagnsmálum Norðlendinga vægast sagt bágborið eins og nú stendur, og er ekki um það deilt þar sem grunnrafmagn er næsta lítið í héraðinu sjálfu og bilanir af ýmsum völdum í öðrum landsfjórðungum valda tíðum rafmagnsleysi í okkar héraði, á Norðurlandi vestra. Það má réttilega benda á nauðsyn þess að hafa orkuöflun nálæga, ef um mikla orkunotkun verður að ræða, og viljum við víst flest á Norðurlandi vestra verða þátttakendur í orkunýtingu í okkar heimabyggðum frekar en að verða neydd til að sækja lifibrauð okkar í önnur héruð. Eins og fram hefur komið er ekki á döfinni núna að um verulega orkunýtingu verði að ræða á Norðurlandi vestra á næstu árum. En ég trúi því, að innan ekki mjög margra ára verði sú raunin á, enda erum við á Norðurlandi vestra tilneydd, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að sætta okkur við að meginatvinnuuppbygging héraðsins verði í iðnaði ýmiss konar, ef við eigum ekki að tapa okkar ágæta upprennandi fólki í burt, því að viðurkennt er að þær grunnatvinnugreinar, sem stundaðar eru á Norðurlandi vestra, þ.e. landbúnaður og fiskveiðar, taka ekki endalaust við fólki eins og nú horfir í þeim atvinnugreinum.

Við verðum sjálfsagt að sætta okkur við að meiri háttar breyting á tilhögun Blönduvirkjunar leiði af tæknilegum ástæðum til frestunar á virkjunum um nokkur ár eða áratug. Talað er um röðina Blönduvirkjun, Fljótsdalsvirkjun, Sultartangavirkjun. Efum breytingu á þeirri röðun verður að ræða, þ.e. ef Blanda fer aftur fyrir, ef hún verður ekki í fyrstu röð, er enginn kominn til að segja um það hér og nú, hver röðunin verður síðar, ef um breytingu verður að ræða á annað borð. Við heyrum hér að krafa er um virkjun á Suðurlandi. Ég ætla ekki að dæma um það eða spá neinu um það, hver framvinda málsins verður. Ég vil aðeins benda á að virkjun Blöndu er hagkvæm jafnvel þó að einhver önnur leið verði farin en sú leið sem hér um ræðir, þ.e. leið I.

Ég vil benda á í þessu sambandi og endurtaka að löglega kjörnar sveitarstjórnir í héraðinu hafa tekið sínar ákvarðanir. Ég vil benda á að nokkurra missera samningaviðræður heimamanna og virkjunaraðila hafa leitt til ákveðins samkomulags. Ég er ekki viss um það, að þó lengra líði með samninga, þá auki það frið. Ég vil benda á í þessu sambandi öryggissjónarmið byggðarlagsins hvað raforku varðar. Ég bendi einnig á stjórnarsáttmálann þar sem sagt er að næsta stórvirkjun skuli vera utan eldvirks svæðis. Ég bendi á framtíðarhagsmuni heimamanna í sambandi við raforku sem framleidd er í héraðinu sjálfu.

En þrátt fyrir allt þetta er það enn þá von mín, að viðunandi friður og samkomulag náist um þessi mál svo að allir megi vel við una. Þrátt fyrir þessa umr. hér í dag kunna að finnast fleiri leiðir sem til sætta kynnu að leiða. Við eigum landið, Ísland. Það er okkar að meta á hvern hátt við nýtum þetta land, og það er von mín, að endalok þessa máls verði þannig að þau verði héraði og þjóð til heilla.